Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Tíunda Ljósanóttin sett í dag
Fimmtudagur 3. september 2009 kl. 09:08

Tíunda Ljósanóttin sett í dag


Tíunda Ljósanóttin í Reykjanesbæ verður sett í dag við hátíðlega athöfn þegar börn bæjarins koma saman á lóð Myllubakkaskóla kl. 10:30, syngja Ljósanæturlagið og sleppa blöðrum eins og hefð er fyrir.

Gríðarlegur fjöldi menningarviðburða og skemmtiatriða verður á dagskrá Ljósanætur þar sem allir finna eitthvað við sitt hæfi. Tónlistin er í öndvegi á þessari Ljósanótt með veglegu tónleikahaldi og er minningu Rúnars Júlíussonar sérstaklega haldið á lofti með Ljósalaginu í ár.

Myndlist, handverk og hönnun verður jafnframt mjög áberandi og segja má að hvert einasta sýningarrými sé fullnýtt.
Þá verður sýningin Reykjanes 2009  haldin í Íþróttaakademíunni í tengslum við 10 ára afmæli Ljósanætur. Sýningin er haldin undir yfirskriftinni „Þekking, orka, tækifæri" og þar verður kynnt margt það helsta sem Reykjanes hefur upp á að bjóða í atvinnulífi, menningu og þjónustu.

Aukaútgáfa Víkurfrétta vegna Ljósanætur fór í dreifingu í gær en þar er að finna ítarlega dagskrá.  Þá er hún einnig aðgengileg á vef Ljósnætur, www.ljosanott.is.

Hér á vef Víkurfrétta er einnig hægt að lesa meira einstaka dagskrárliði undir tenglinum Ljósanótt 2009.


Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024