Tíu lög valin í undanúrslit Ljósalagskeppninnar
Tíu lög hafa verið valin til að keppa til úrslita í keppninni um Ljósalagið 2006. Alls bárust 85 lög í Ljósalagskeppnina í ár og hefur þátttakan aldrei verið meiri enda vegleg verðlaun í boði. Höfundur vinningslagsins, Ljósalagið 2006 hlýtur kr. 400.000, 2. sæti kr. 150.000 og 3. sæti kr. 100.000. Er þetta í fimmta sinn sem Reykjanesbær stendur fyrir sönglagasamkeppni tengdri Ljósanótt, menningar- og fjölskylduhátíð bæjarfélagsins en hátíðin er ætíð haldin fyrstu helgina í september.
Dómnefnd skipuð tónlistarmönnunum Elísu Geirsdóttur Newman, Guðbrandi Einarssyni og Baldri Guðmundssyni kom saman fimmtudaginn 6. júlí og valdi þau 10 lög sem keppa til úrslita. Höfundar þeirra laga eru eftirfarandi: Jóhann G. Jóhannson, Bryndís Sunna Valdimarsdóttir, Arnór Vilbergsson, Bragi Valdimar Skúlason, Védís Hervör Árnadóttir, Halldór Guðjónsson lag og Þorsteinn Eggertsson texti, Ólafur Arnalds lag og Friðrik Sturluson og Ólafur Arnalds texti, Magnús Þór Sigmundsson, Hilmar Hlíðberg Gunnarsson, Vignir Bergmann lag og Bjartmar Hannesson texti.
Lögin 10 verða gefin út á geisladiski sem unninn verður hjá Geimsteini og kemur út í byrjun ágúst. Stefnt er að því að lögin verði þá kynnt í ljósvakamiðlum og á vefnum Ljósanótt.is þar sem hlustendum gefst kostur á að kjósa með netkosningu Ljósalagið 2006. Tilhögun kosningarinnar verður auglýst nánar síðar.
Mynd: Dómnefndin með lögin sem voru send inn í ár