Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Mannlíf

Titlasöfnun er ógn við lýðheilsu
Miðvikudagur 22. febrúar 2017 kl. 06:00

Titlasöfnun er ógn við lýðheilsu

Lokaorð Sævars Sævarssonar

Heilsuefling, hreyfing og lýðheilsa eru þaulkunnug hugtök hjá vel flestum nema undirrituðum. Bæjarfélagið okkar undirritaði nýverið samning þess efnis að Reykjanesbær yrði aðili að verkefninu „Heilsueflandi samfélag“, Lífshlaupið, heilsu- og hreyfiátak Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, var sett í byrjun febrúar og þá opnar maður vart samfélagsmiðla eða fjölmiðla án þess að vera minntur á að nú er hinn svokallaði „meistaramánuður“. Til að bæta gráu ofan á svart er ég svo „heppinn“ að vinna með ofvirkum heilsufríkum sem fara í ræktina á hverjum degi og minna mig reglulega á mikilvægi heilsueflingar, hreyfingar og lýðheilsu og reyna að teyma mig inn á braut hins betra lífs. Ég læt slíkt auðvitað ekkert á mig fá enda þrjóskur og sérhlífinn með eindæmum. Ég hef ekki stundað líkamsrækt frá því ég hætti í körfubolta árið 2009 ef undanskildar eru tvær æfingar í Sporthúsinu síðastliðið sumar, göngur mínar inn og út úr rennireiðum og upp á aðra hæð til að sækja kaffi. Talandi um þetta endalausa ark upp stiga til að sækja kaffi, ég hugsa að krafa um lyftu sé næst á dagskrá...

Lýðheilsusjónarmið eru meira að segja rök fyrir því að einkaaðilum er ekki treyst fyrir smásölu á áfengi. Þar skal ríkisvaldið eitt sjá um söluna enda engum öðrum treystandi. Reyndar er einkaaðilum treystandi fyrir sölu á áfengi í gígantísku magni svo lengi sem það er drukkið á sölustaðnum. Ætli fólk hins vegar að drekka áfengið heima hjá sér, jafnvel yfir steikinni, er ríkisvaldinu einu treystandi um söluna á grundvelli lýðheilsusjónarmiða. Já, það eru lýðheilsusjónarmið sem ráða því að Vífli á Ránni og Björgvini Ívari á Paddy´s er treyst fyrir sölu á áfengi en ekki Gunnari í Kosti. Eðlilega...

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Í lokin má ég til með að óska Keflavíkurstúlkum til hamingju með Maltbikarinn í körfubolta en titlasöfnun kvennaliða Keflavíkur í körfubolta og fjöldi kampavínstappa sem þær hafa „poppað“ undanfarin ár er með lífsins ólíkindum. Svo margar kampavínsflöskur hafa verið opnaðar og munu verða opnaðar í framtíðinni að samkvæmt lýðheilsusjónarmiðum væri rétt að banna stelpum í Keflavík að æfa körfubolta...