Tíminn stendur í stað í Höfnum
Íbúar taka aukinn þátt á Ljósanótt - tónleikar og ljósmyndasýning um helgina
Hafnir vilja oft verða útundan þegar rætt er um Reykjanesbæ. Í dag eru íbúar Hafna 101 en voru 76 í árslok 2013. Menningarfélagið í Höfnum er tiltölulega nýtt af nálinni og hefur staðið fyrir menningartengdum viðburðum í Höfnum undanfarin misseri. Það er kannski stórt nafn á litlu félagi en fáir formlegir fundir hafa verið settir. Fólk hittist talsvert á göngu með hundana eða þegar verið er að slá blettinn. Nokkrir íbúar tóku sig saman í fyrra og héldu þá tónleika sem hluta af dagskrá Ljósanætur í Reykjanesbæ. Elíza Newman íbúi í Höfnum reið á vaðið ásamt Bjartmari Guðlaugssyni, en þau héldu tónleika í Kirkjuvogskirkju. Þeir voru svo vel sóttir að fólk þurfti frá að víkja. Einnig var haldin kaffisala og sagnastund í safnaðarheimilinu þar sem Hafnamennirnir Sigurjón Vilhjálmsson og Ketill Jósefsson sögðu sögur frá fyrri tíð í Höfnum. Þar var einnig fullt út úr dyrum og fólk þurfti að standa fyrir utan til þess að hlýða á sögurnar.
„Þetta er svolítið öðruvísi staður. Það er fínt að fara þennan rúnt á sunnudegi á Ljósanótt enda alltaf gaman að fara út í Hafnir. Þarna voru margir samankomnir sem hafa einhverjar tengingar við Hafnirnar,“ segir Árni Hjartarson íbúi í Höfnum. Hann er sjálfur Keflvíkingur en hefur búið í Höfnum síðustu níu ár. Þar byggði hann sér hús og unir sér vel í sveitasælu. „Það er mjög fínt að vera hér,“ bætir Árni við. „Það hefur svo lítið breyst frá fyrri tíð. Þetta eru nánast sömu húsin. Einhver eru farin og jafnvel önnur komin á sama stað. Þarna er mjög rólegt og fólk er útaf fyrir sig. Það sem er svo merkilegt við að skoða þessar gömlu myndir er hvað lítið hefur breyst,“ en þar vísar Árni til gamalla mynda sem stendur til að sýna á Ljósanótt. Hafnabúar og aðrir Suðurnesjamenn hafa undanfarið gramsað í gömlu myndasöfnunum og grafið upp gersemar frá þessum litla en merka bæ. Viðbrögðin létu ekki á sér standa og komu margar skemmtilegar myndir upp úr krafsinu. „Elsta myndin er frá 1901. Við ætlum að nota tækifærið á sýningunni og reyna að fá gesti til þess að bera kennsl á þá sem eru á myndunum,“ segir Árni.
Mikill áhugi er fyrir tónleikum Valdimars Guðmundssonar í Kikjuvogskirkju en til stendur að halda tvenna tónleika. Allur ágóði af tónleikunum fer til styktar Kirkjuvogskirkju. Þar borga um 50 manns sóknargjöld ár hvert og er reksturinn því nokkuð strembinn. Miðar á tónleikana verða til í forsölu í Safnaðarheimilinu í Höfnum á laugadag og sunnudag frá kl. 13-17.
Alls ekki afskekkt
Sú staðreynd að ekki sé nein þjónusta, verslun eða skóli í Höfnum er ekki að vefjast mikið fyrir íbúum. Árni segir að fjarlægðin sé ekkert til að setja fyrir sig. Þarna fer strætó um og börnin sækja skóla í 15 mínútna fjarlægð. „Þetta er ekki afskekkt en auðvitað smá rúntur. Vinir mínir sem búa á höfuðborgarsvæðinu eru yfirleitt lengur að fara með börnin sín á leikskóla og í skóla en við. Það er alltaf í hausnum á fólki að Hafnir séu afskekktar. Maður finnur það alveg á fólki. Það er bara eitthvað viðhorf sem hefur verið lengi, það var margt í niðurníslu hér áður fyrr (og það hefur kannski áhrif á viðhorf fólks). Þetta er auðvitað ekkert fyrir alla,“ bætir Árni við.
Nokkrar merkilegar staðreyndir um Hafnir
- Hafnir eru taldar hafa nafn sitt af tveimur fyrrum stórbýlum, Kirkjuhöfn og Sandhöfn sem stóðu talsvert sunnar en núverandi byggð, en þar var búseta fram á 17. öld. Á síðari tímum hafa Hafnir verið samheiti fyrir þrjú hverfi, þ.e. Kalmanstjörn, Merkines og Kirkjuvogshverfi.
- Á 18. öld fór íbúum í þéttbýliskjarnanum í Kirkjuvogshverfi að fjölga og var mikill vöxtur fram á 20. öld. Þá var rekin mikil útgerð stórra áraskipa, bæði frá Kotvogi og Kirkjuvogi. Á 19. öld þótti Kotvogur eitt reisulegasta býli landsins. Blómaskeiðið tók enda er vélbátar fóru að ryðja sér rúms og fjarlægð á mið fór að skipta minna máli og krafa jókst um bætt hafnarskilyrði.
- Elstu ritheimild um byggð í Höfnum er að finna í Landnámu þar sem greint er frá því að Ingólfur Arnarson hafi gefið Herjólfi Bárðarsyni, frænda sínum og fóstbróður, land á milli Vágs og Reykjaness. Herjólfur var langafi Bjarna Herjólfssonar, sæfaranda, sem talið er að hafi ásamt áhöfn sinni, fyrstur Evrópumanna litið meginland Norður-Ameríku augum.
- Á loftmynd sem skoðuð var árið 2002 kom glögglega í ljós skálalaga bygging á túninu fyrir aftan kirkjuna sem er dæmigerð fyrir elstu byggingar landsins. Vorið 2009 hófust eiginlegar fornleifarannsóknir og var grafið aftur á árunum 2011 - 2015. Vísbendingar eru um að skálinn sé frá allra elstu tíð en líklega hefur hann verið í notkun fram á tíundu öld. Sú tilgáta hefur verið sett fram að um sé að ræða rústir útstöðvar eins konar könnunarbúða líkt og á L‘Anse aux Meadows á Nýfundnalandi.
- Á 18. öld fór íbúum í þéttbýliskjarnanum í Kirkjuvogshverfi að fjölga og var mikill vöxtur fram á 20. öld. Þá var rekin mikil útgerð stórra áraskipa, bæði frá Kotvogi og Kirkjuvogi. Á 19. öld þótti Kotvogur eitt reisulegasta býli landsins. Blómaskeiðið tók enda er vélbátar fóru að ryðja sér rúms og fjarlægð á mið fór að skipta minna máli og krafa jókst um bætt hafnarskilyrði.
- Kirkjuvogskirkja var byggð á árunum 1860-1861 og var vígð 26. nóvember 1861. Hún er elsta kirkja á Suðurnesjum. Kirkja hefur verið í Höfnum að minnsta kosti frá 14. öld en elsta ritheimild er frá árinu 1332. Miðaldakirkjan stóð hins vegar norðan Ósa en afar lítið er vitað um sögu hennar. Árið 1575 vísiterar Gísli biskup sóknina og þá er kirkjan komin á núverandi stað.