Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Tíminn flýgur áfram á skrifstofu FS
„Ég verð örugglega hér þar til ég kemst á aldur,“ segir Heba, skólaritari FS. VF-mynd: Sólborg
Þriðjudagur 3. október 2017 kl. 06:00

Tíminn flýgur áfram á skrifstofu FS

-Heba Ingvarsdóttir hefur starfað sem ritari Fjölbrautaskóla Suðurnesja í tíu ár

Hvað hefur þú starfað lengi í FS?
„Ég hef unnið í Fjölbrautaskóla Suðurnesja síðan í ágúst 2007.

Af hverju ákvaðstu að sækja um þar?
„Sara dóttir mín var að útskrifast úr FS vorið 2007 og við þá athöfn var Laufey, fyrrum skólaritari, kölluð á svið til að taka við blómvendi þar sem hún var að hætta. Starf hennar var síðan auglýst og ég hugsaði með mér að þetta væri sennilega skemmtilegt og lifandi starf og ákvað í kjölfarið að sækja um og sé ekki eftir því.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Hvernig er hefðbundinn dagur hjá þér?
„Ég mæti 7:45 og svara símtölum um það hver sé veikur þann daginn, skrái það inn og ef kennarar eru veikir þá kem ég því til skila til nemenda. Svo þarf að skrá inn leyfisbeiðnir, prenta námsferla, staðfestingu á skólavist og ýmislegt annað. Þess á milli koma nemendur oft við á skrifstofuna með ýmsar spurningar eða bara til að heilsa upp á mig og spjalla um lífið og tilveruna og það er voða gaman.“

Hvað hefur breyst í starfinu síðustu ár?
„Þegar ég byrjaði voru tveir starfsmenn á skrifstofu FS en nú er ég bara ein og hef verið í nokkur ár. Það er alltaf nóg að gera og mér líkar það vel enda flýgur tíminn áfram. Skólastarfið er annars ósköp hefðbundið en Fjölbrautaskóli Suðurnesja er framhaldsskóli sem leggur mikinn metnað í að koma með nýjungar í námið og þau markmið að gera alltaf betur. Við erum með frábæra kennara og starfsmenn og ég held að flestir nemendur séu sammála því.“

Hvað er það skemmtilegasta við að vera ritari?
„Það er svo margt finnst mér. Það er oftast mikill erill á skrifstofunni og allt í gangi, nemendur að spyrja um allt og ekkert, kennarar að biðja um hitt og þetta, síminn á fullu og á meðan er ég að skrá ýmislegt í tölvuna eða að prenta t.d. námsferla eða staðfestingar á skólavist. En svo koma líka rólegir tímar eftir hverja önn og þá getur maður aðeins andað en skrifstofan er svo lokuð í júlí og þá fer ég í sumarfrí og hleð batteríin.“

En leiðinlegast?
„Það er eiginlega ekkert leiðinlegt nema kannski að deila út lykilorðum til nemenda sem veitir þeim aðgang að tölvum skólans. Það er frekar leiðinlegt og getur verið tímafrekt þegar heill hópur kemur í einu. Svo gleyma nemendur stundum lykilorðunum og þá þarf að fara yfir listann aftur til að finna orðin.“

Hvað hefur haldið þér svona lengi í þessu starfi?
„Ég er að eðlisfari frekar vanaföst og verð því örugglega hér þar til ég kemst á aldur. Svo er þetta bara skemmtilegt og líflegt starf og alltaf gaman að vera innan um hressa nemendur og vinnufélaga.“