Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Mannlíf

Tímaferðalagið heldur áfram
Sunnudagur 26. ágúst 2012 kl. 12:10

Tímaferðalagið heldur áfram

Þeir félagar Kristján Jóhannsson og Arnór Vilbergsson hafa staðið í ströngu við æfingar og undirbúning sýningarinnar Gærur, glimmer og gaddavír en hún er framhald á sýningunni Með blik í auga sem sýnd var fyrir fullu húsi á síðustu Ljósanótt þar sem tekinn var fyrir áratugurinn 1950 – 1970 í tónum og tali. Nú skal haldið áfram þar sem frá var horfið og lofa þeir félagar enn betri skemmtun á áratugnum 1970 – 1980.

„Þetta verður tímaferðalag um áttunda áratuginn í tali tónum og myndum. Þetta var áratugur hippanna, kalda stríðsins, Richard Nixons, Brésnjeffs og Geirs Hallgrímssonar. En þetta var líka áratugur ABBA, Creedence Clear-water og diskósins þar sem John Travolta varð stórstjarna á einni nóttu. Hérna heima var þessi áratugur líka viðburðaríkur og má þar nefna landhelgisdeilur við Breta, átök á vinnumarkaði, skipskaða og eldgos. En fólk kunni líka að skemmta sér“ segir Kristján og nefnir hljómsveitir eins og Júdas, Geimstein, Mána, Pelican og fleiri og fleiri.

Að sýningunni koma um 30 manns, allir af Suðurnesjum og er vel við hæfi að tónlistarsögu Íslands séu gerð skil hér í bítlabænum. Stemningin verður rifjuð upp í glæsilegri umgjörð þar sem m.a. verður flutt tónlist eftir Magnús og Jóhann, Magnús Þór, Rúnar Júlíusson, Magnús Kjartansson, Bimkló, Stuðmenn,  Mána og ýmsa fleiri.

„Hver man ekki eftir sjónvarpslausum fimmtudagskvöldum og útvarpsleikritunum á gufunni þegar hringvegurinn var málið, Spur og Miranda var drukkið í sjoppunum og saxbauti var í kvöldmatinn?“ segir Kristján en hann er handritshöfundur sýningarinnar þar sem tíðarandinn verður skoðaður á gamansaman hátt.

Meðal flytjenda eru Valdimar Guðmundsson, Fríða Dís Guðmundsdóttir, Bríet Sunna Valdimarsdóttir og Hermannssynir; Guðmundur, Karl og Eiríkur auk hljómsveitar en Arnór hefur á höndum tónlistarstjórn og útsendingar. Hljómsveitina skipar einvalalið tónlistarmanna og má þar nefna reynsluboltann og fjármálastjóra sýningarinnar Guðbrand Einarsson.

Við erum með frábært fólk með okkur á öllum aldri en yngstu þátttakendurnir eru að stíga sín fyrstu skref í tónlistinni s.s. Melkorka Rós Hjartardóttir og Sólborg Guðbrandsdóttir, svo erum við með reynslubolta eins og þá Guðmund, Karl og Eirík Hermannssyni sem hafa nú eitthvað komið að þessum bransa“, segir Arnór og hlær.

„Við höfum haft það að leiðarljósi að hafa útsetningar eins nálægt orginalnum og við mögulega getum. Við erum að láta yngri söngvara syngja lög sem þessir gömlu jálkar sungu og negldu – við reynum að vera trúir upprunanum enda fáránlegt að fara í tímaflakk og útsetja svo eitthvað allt annað“.

Hvernig voru Suðurnesin á þessum tíma?
„Það var næg atvinna og menn og konur komu hvaðanæva af landi á vertíð suður með sjó – það fengu allir sem vildu vinnu. Svo var það völlurinn sem skaffaði ófáum vinnu, verktakarnir, herinn og allir hinir. Uppi á velli varð líka til vinnutilhögunin sem hefur þróast áfram í áranna rás og kallast: Look Busy – Do nothing. Bæjarbragurinn var líka allur að koma til og hér var bæði djammað og dansað þótt stúkan væri enn að beina fólki á beinu brautina.

Hvar voru þið á þessum áratug?
Arnór: „Ég fæðist árið 1975, flyt hingað ca. 5 ára gamall um 1980 og þá bjuggum við fyrir ofan verslunina Álnabæ. Þar hafði ég stóran glugga með flottu útsýni og úr honum drakk ég í mig bæinn og menninguna.“

Kristján: „Á þessum árum var ég yfirleitt í fjörunni, á bryggjunni eða að leika mér í einhverjum byggingarframkvæmdum, kirkjan í Njarðvík var t.d. vinsæll leikstaður. Júdas æfði í Njarðvík og við löðuðumst að bílskúrnum því það var alltaf svo skrítin lykt þar. Svo var maður svoldið að þvælast upp í Stapa á böllin.“

Að sögn þeirra Kristjáns og Arnórs hefur verið gaman að skoða tónlist þessa tíma og sumt vakið kátínu t.d. textagerðin.

„Það verður að segjast eins og er að það var nú ekki alltaf verið að nostra við textana í gamla daga. Stundum var þessu hreinlega snarað á íslensku í miklum flýti. Maður sér fyrir sér að textinn hafi verið skrifaður á servéttu, kannski með eina filterslausa Camel að brenna upp í öskubakka við hliðina og litla kók í gleri við hendina og svo var bara setið og skrifað og reynt að láta þetta ríma.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Alls verða fluttar þrjár sýningar í Andrews leikhúsi á Ásbrú en aðalstyrktaraðili er eins og áður Íslandsbanki. Frumsýning er miðvikudaginn 29. ágúst kl. 20:00.

„Við ákváðum að færa sýningarnar örlítið framar í dagskrá Ljósanætur svo segja má að fjörið hefjist fyrr og endi svo með húllumhæi á sunnudagskvöldið þegar punktur er settur á eftir hátíðarhöldin. Okkur fannst líka tilvalið að bjóða þeim sem vilja sækja opnanir myndlistarmanna á fimmtudeginum að enda daginn á sýningu kl. tíu um kvöldið – það verður örugglega stuð á þeirri sýningu, svona svipuð stemmning og á 11 bíósýningunum í den“, segja þeir félagar sem halda ótrauðir áfram í tónlistarferðalaginu. Lokasýning verður sunnudaginn 2. september kl. 20:00 en miðasala fer fram á midi.is. Að þessu sinni er selt í númeruð sæti og því um að gera að tryggja sér góð sæti segja þeir félagar.

Verður áratugurinn 1980 – 90 næstur?
„Eigum við ekki bara að klára þessa sýningu fyrst – við skulum svo sjá til“ segja þeir félagar en víst er að af nógu er að taka og ekki vantar hæfileikafólkið á Suðurnesjum.