Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Tilheyrir jólastressinu að versla á síðustu stundu
Mánudagur 23. desember 2013 kl. 10:17

Tilheyrir jólastressinu að versla á síðustu stundu

Teitur Ólafur Albertsson skellir sér gjarnan í fótbolta með góðum vinum á aðfangadag. Hann reynir helst að bóna bílinn fyrir jól og er að eigin sögn nokkuð framtakssamur í eldhúsinu, þá sérstaklega í uppvaskinu.

Fyrstu jólaminningarnar?
„Ætli það hafi ekki bara verið þegar maður vaknaði eldsnemma á aðfangadagsmorgun og gat ekki beðið eftir að fá að opna pakkana, maður fékk yfirleitt að opna einn fyrir matinn svona aðeins til að slá á spennuna.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Jólahefðir hjá þér?
„Skera út laufabrauð hjá ömmu, taka árlegu jólahreingerninguna, fara í nokkur jólaboð ásamt því að hafa það notalegt og úða í sig smákökum.“

Ertu duglegur í eldhúsinu yfir hátíðirnar?
„Já, þó ég segi sjálfur frá. Það er fínt að fara í uppvaskið til að hressa sig við eftir yndislega máltíð með fjölskyldunni.“

Jólamyndin?
„Ég horfi alltaf á Christmas Vacation og svo reyni ég að horfa á báðar Home Alone myndirnar.“

Jólatónlistin?
„Jordy Lemoine - It's Christmas C'est Noel, ekki spurning. Jólin koma ekki fyrr en ég er farinn að spila þetta þrisvar á dag.“

Hvar verslarðu jólagjafirnar?
„Ég hef verslað flestar jólagjafir erlendis en svo tilheyrir það jólastressinu að eiga nokkrar eftir á síðustu stundu og versla ég þær hérna í Reykjanesbæ.“

Gefurðu mikið af jólagjöfum?
„Já, já, ég reikna með að þær verði í kringum 20.“

Ertu vanafastur um jólin, eitthvað sem þú gerir alltaf?
„Ég hef gert það í nokkur ár að fara í fótbolta á aðfangadagsmorgun sem endar í pottinum með góðum hópi og svo reyni ég að halda gleðileg jól á nýbónuðum bíl.“

Besta jólagjöf sem þú hefur fengið?
„Þær eru ófáar sem hafa glatt mig virkilega mikið, en ég fékk rosalega fínan síma frá kærustunni sem er án efa mest notaða jólagjöfin sem ég hef fengið.“

Hvað er í matinn á aðfangadag?
„Hamborgarhryggur hjá mömmu og pabba, með besta meðlæti sem völ er á, sykurbrúnaðar kartöflur, laufabrauð frá ömmu, ómótstæðilega salatið sem mamma gerir ásamt fleiru.“

Eftirminnilegustu jólin?
„Er búinn að eiga mjög góð jól frá því að ég man eftir mér en jólin í fyrra voru stórkostleg. Ég og Helga kærastan mín skelltum okkur til New York korter í jól og soguðum í okkur jólaandann sem ríkir yfir Manhattan alltaf á þessum tíma árs. Það var frábær skemmtun að sjá þetta allt saman.“

Hvað langar þig í jólagjöf?
„Það er eiginlega ekkert sérstakt á óskalistanum en það er alltaf gaman að fá fallegar gjafir.“

Jordy kemur Teiti í jólaskapið.