Tilgangurinn var að efla skólastarfið og auka öryggi
- „Þetta starf gaf manni mjög mikið,“ segja stofnendur foreldrafélags Barnaskólans í Keflavík sem síðar varð Myllubakkaskóli
Foreldrafélag Barnaskólans í Keflavík var stofnað þann 5. mars 1977, seinna var nafni skólans breytt í Myllubakkaskóla, en það var gert þegar fleiri grunnskólar voru byggðir í bænum, þá breyttist einnig nafn foreldrafélagsins. Slík félög hafa orðið mikilvægur hluti að skólastarfi um land allt en voru rétt að byrja að ryðja sér til rúms hér á landi á þessum tíma. Aðaldrifkrafturinn í stofnun félagsins var Bergþóra Bergsteinsdóttir sem var þá nýflutt heim frá Bandaríkjunum, þar sem hún bjó og kynntist starfi foreldrafélaga. Bergþóra, fyrsti formaður félagsins, kom í heimsókn til Víkurfrétta ásamt Þórdísi Þormóðsdóttur og Ingibjörgu Hafliðadóttur og sögðu þær frá aðdraganda stofnunar félagsins og starfsemi þess allra fyrstu árin.
Skólastjórinn var á báðum áttum
Bergþóra kynntist starfi foreldrafélaga þegar hún bjó úti í Kentucky í Bandaríkjunum og var með börn í bæði grunn- og gagnfræðaskólum og kynntist þess vegna starfi foreldrafélaganna á báðum stigum. „Það var miklu meira starf í gagnfræðaskólanum þar,“ segir Bergþóra. „Þetta var alveg gríðarlega öflugt og flott starf sem fólst m.a. í því að gera allt mögulegt til að létta undir skólastarfinu og auka fjölbreytni. Svo bökuðum við, vorum með basar og söfnuðum fyrir nýjum búningum á lúðrasveit skólans, sem var aðalverkefni vetrarins. Mér fannst svo spennandi þegar ég kom heim haustið 1975 að vita hvort grundvöllur væri fyrir slíku starfi hér í Keflavík. Ég fór síðan af stað, líklega í október/nóvember það ár og fékk viðtal við skólastjórann. Hann var á báðum áttum þar sem þetta var nær óþekkt og hann þurfti aðeins að melta hugmyndina. Svo þegar dæmið var lagt á borðið, var það ekki lengur spurning um að stofna félagið. Það var síðan loks vorið ‘77 að félagið var stofnað eftir að menn höfðu farið fram og til baka með þetta“.
Haustið 1977 var síðan haldinn framhaldsaðalfundur sem var mun fjölmennari en fyrri fundurinn eða um sextíu manns. Menn gátu sér þess til að ástæðan fyrir fámenni á fyrri fundinum hefði verið sú að geysilegt magn af loðnu (loðnuhrota) hefði komið á land þann daginn og menn hefðu verið uppteknir við „að bjarga þjóðarbúinu“ eins og það var oft kallað. Slíkt var ekki óalgengt og var meira að segja oft gefið frí í skólum við svipaðar aðstæður.
Framhaldsfundur vegna loðnu
Á þessum fundi voru lög samþykkt og línur lagðar. Var þar kosin stjórn þar sem einn fulltrúi var frá hverjum aldursflokki auk tveggja kennara kosin af kennarafélaginu, úr þessum hópi var síðan kosinn formaður. Síðan var sett af stað hópavinna. Út úr henni komu meðal annar fram að það vantaði lausar kennslustofur eða nýja skólabyggingu og þar var m.a. lögð fram spurning um byggingu skóla í efri byggð eða um akstur skólabarna þaðan. „Það komu hugmyndir um fyrirlestra um skóla og uppeldi – sem mikið er gert af í dag, að fá sérmenntaða kennara til hjálparkennslu, athvarf eftir skóla, ganga frá skólalóð, setja lýsingu í kringum skólann því það svæði var illa lýst, hvað væri hægt að gera til að fá börn til að hætta að hanga aftan í bílum [innsk. blm.: teika], en það var afar vinsælt á þessum tíma. Að félagsaðstaða sem verið væri að koma upp í kjallara skólans nýttist sem athvarf fyrir nemendur með eyður í stundaskrá og ná ekki heim milli kennslustunda og að efla samband foreldra og kennara.
Mál foreldrafélagsins á fyrstu árum þess voru greinilega önnur en lögð er áhersla á í dag. Á framhaldsaðalfundinum flutti móðir framsögu þar sem hún greindi frá því að hún væri með þrjú börn og eitt þeirra ungabarn. Hún komst ekki til að fara með tvö eldri börn sín í skólann því hún var með svo lítið barn. Um haustið hafði félagið beitt sér fyrir því að akstur skólabarna úr Eyjabyggð yrði hafinn.
Leiklistarnámskeið þar sem börnin blómstruðu
Þórdís segir að á sínum tíma hafi jafnvel verið haldið að þær ætluðu að ryðjast inn í kennsluna og skipta sér af en það hafi alls ekki verið meiningin.
„Svo þegar við lögðum dæmið á borðið þá var þetta engin spurning um að stofna foreldrafélag. Við fengum Hörð Zophaniasson, skólastjóra úr Hafnarfirði, til að koma á stofnfundinn til okkar en það var foreldrafélag í Víðistaðaskóla. Svo urðum við mjög öflugar, við þrjár ásamt Áslaugu Bergsteinsdóttur og fleirum. Við settum á laggirnar leiklistarnámskeið fyrir krakka og lögðum áherslu á að þar yrðu börn sem voru feimin eða til baka,“ segir Bergþóra.
Ingibjörg var nýkomin heim af námskeiði fyrir börn hjá Nordisk Amateur Teaterraad, hún var uppfull af hugmyndum og vildi nýta reynslu sína og miðla henni til barnanna.
„Við lögðum mesta áherslu á að laða fram hæfileikana sem búa í öllum börnum og fá þau til að opna sig, yfirstíga feimni og tjá sig á jákvæðan hátt. Við vorum mikið með öndunar- og slökunaræfingar, sem er mikið í tísku í dag, anda með iljunum, en það þótti nú ekki gáfulegt þá,“ segir Ingibjörg og hlær. Þórdís segir að námskeiðið hafi verið valkvætt og að hún Áslaug og Ingibjörg hafi verið saman í Leikfélagi Keflavíkur og lært þar ýmislegt sem kom að góðu gagni. Bergþóra segir að þetta leiklistarnámskeið hafi gert mikla lukku og þær eru allar sammála því að það hafi verið svo gaman hjá þeim í þessu starfi og þær lifi enn á minningunni frá þessum tíma. Börnin brölluðu ýmislegt hjá þeim stöllum á námskeiðinu og sömdu meðal annars ljóð. „Svo þegar maður sá krakkana sem voru hjá okkur, krakkan sem byrjuðu undir borði, blómstra þegar leið á, það var alveg yndislegt,“ segir Þórdís.
„Þau ortu líka ljóð og gerðu allt mögulegt, manni vöknaði stundum um augun þegar þau komu með ljóð, sömdu kannski fjögur erindi og gáfu manni. Þetta eru prestar meðal annars í dag, þessir gömlu nemendur. Þetta gaf manni alveg svakalega mikið,“ segir Ingibjörg.
Þær sáu ekki bara um námskeið í leiklist og framsögn því settar voru upp skemmtanir fyrir jól og árshátíðir. Guttavísur og fleira sem byggt var á ljóðum voru sett upp með söng og leik, smáleikrit – og Bergljót Stefánsdóttir, sem starfaði þá sem bókmenntafræðingur í Fjölbrautaskóla Suðurnesja, hjálpaði þeim að setja upp bókmenntakynningu sem sló í gegn.
En er ekki óvenjulegt að foreldrafélagið hafi verið að sjá um þessa viðburði á borð við leiklist og annað?
Allar: Vilhjálmur Ketilsson hafði verið ráðinn skólastjóri um vorið og hann óskaði eftir að félagið stæði fyrir einhverju menningarlegu. Þetta var vissulega óvenjulegt en krakkarnir sóttust eftir því að komast í leiklistina hjá okkur.
Bergþóra segir að það hafi líka verið passað upp á það að hafa námskeiðin áhugaverð og skemmtileg. „Svo fórum við líka með saumavélar niður í skóla, eða niður í „kálfa“ en svo kölluðust útikennslustofur sem voru við Myllubakkaskóla á þessum tíma, til að sauma búninga á krakkana fyrir leikritin. Við saumuðum skotthúfur og jólasveinahúfur, en þá var nú ekkert til. Þú hljópst ekki inn í búð eins og gert er í dag til að kaupa húfur.“ Þá segir Þórdís að það hafi verið saumaðir búningar á barnakórinn og lúðrasveitina en þá var búið að safna fyrir efni í búningana.
Lét fótbrot ekki stöðva sig
„En það er skemmtilegt að segja frá því að er ég fór í bakaríið um daginn og þá hitti ég einn sem lék fótbrotinn í leikriti hjá okkur. Við vorum eitt árið með leikrit á árshátíð og þessi drengur lék eitt hlutverkanna, svo fréttum við kvöldið áður að hann hefði fótbrotnað og við fengum alveg fyrir hjartað, sonur Ingibjargar var þá á svipuðum aldri og hún skipaði honum að læra hlutverkið kvöldinu áður, hann gerði það samviskusamlega en svo rétt fyrir sýningu kemur vinurinn með tvær hækjur og með gips á öðrum fæti harðákveðinn í að taka þátt í sýningunni sem hann gerði að sjálfsögðu og sló alveg í gegn,“ segir Þórdís og hlær.
Stóðuð þið fyrir einhverjum söfnunum á sínum tíma eins og foreldrafélög gera gjarnan í dag?
Allar: Það var voðalega lítið um það en þetta var allt öðruvísi þá, við vorum ýmist heimavinnandi eða með lítil börn. Við vorum meira í tómstundastarfi. Í þá daga var ekkert athvarf fyrir börnin eins og er í dag. Þær segja einnig að það hafi alltaf verið tveir kennarar í stjórninni og að það hafi þótt sjálfsagt að hafa þá með og eitt foreldri úr hverjum árgangi.
Ingibjörg: Tilgangurinn var líka að efla skólastarfið og auka öryggi, reyna að fá börn til að nota endurskinsmerki og fleira slíkt.
Þórdís: Það var svo gaman líka að fylgjast með börnum í tómstundastarfinu okkar sem blómstruðu.