Mannlíf

Tilbúin að létta öllum lundina
Mánudagur 30. október 2023 kl. 06:20

Tilbúin að létta öllum lundina

Vigdís Elísdóttir er deildarstjóri hjúkrunardeildar á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Hún hélt eftir níu skjólstæðingum en aðrir voru fluttir upp á þriðju hæðina þegar sjúkradeildin var opnuð þar. Vigdís og hennar fólk ætlar svo með tíð og tíma að fylla hjúkrunardeildina af fólki sem er að bíða eftir plássi á hjúkrunarheimilum, hvort sem það er á Suðurnesjum eða á höfuðborgarsvæðinu. Á hjúkrunardeildinni eru áætluð tíu til nítján rými. Byrjað verður með tíu rými og svo bætt við smátt og smátt eftir því hvernig gengur að fá starfsfólk.

Vigdís segir hjúkrunardeildina vera til mikilla bóta fyrir svæðið. Fólk sem er heima og í mikilli neyð á öryggismörkum að geta verið heima á þá meiri möguleika með því að komast inn á hjúkrunardeildina á meðan það bíður þess að komast í hjúkrunarrými. Þetta muni líka væntanlega létta undir með aðstandendum sem hafa haft áhyggjur af sínu fólki heima við.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Skjólstæðingar hjúkrundardeildarinnar verða efldir í hreyfingu og þá verður útbúin iðja þannig að dagurinn á hjúkrunardeildinni verður ekki bara að borða, sofa eða sitja á stól og horfa út í loftið. „Við finnum okkur eitthvað sem við getum gert í samráði við sjúkraþjálfarann á stofnuninni. Þá er starfsfólkið mitt frábært og tilbúið að létta öllum lundina,“ segir Vigdís. Hún segir að hjúkrunardeildina vanti iðjuþjálfa í framtíðinni en horft sé til þess sem þeir eru að gera á öðrum hjúkrunardeildum.