Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Mannlíf

Þykir vænt um alla viðskiptavinina
Linda María Gunnarsdóttir.
Mánudagur 9. júní 2014 kl. 11:00

Þykir vænt um alla viðskiptavinina

Eigandi Paloma segir orðspor fyrirtækis skipta miklu máli.

Linda María Gunnarsdóttir hefur rekið verslunina Paloma í Grindavík í sex ár. Hún breytti versluninni úr hálfgerðu Kaupfélagi, þar sem allt mögulegt var til sölu, í fataverslun. Þangað koma viðskiptavinir víða að á Suðurnesjum, staldra við og fá sér kaffisopa. Linda er þekkt fyrir ríka þjónustulund, jákvæðni og smitandi hlátur.

Konur eru alltaf sjúkar í skó
„Ég prófaði fyrst að vera einnig með herraföt og barnaföt. En það hefði þurft meiri flóru fyrir herrana og plássið var ekki nógu mikið. Svo eru barnaföt bara allt of dýr á Íslandi því skattarnir eru of háir. Ég skil fólk vel sem vill kaupa í H&M,“ segir Linda og bætir við að hún hafi farið alfarið í að bjóða upp á kvenfatnað og skó. „Konur eru alltaf sjúkar í skó. Mesta hreyfingin er í kvenfatnaði og þess vegna svo margar slíkar verslanir á landinu. Ef maður er með verslun með dömu- og herrafatnað þá koma konurnar og kaupa fyrir sjálfa sig og karlana í leiðinni.“ Lindu finnst mörgum körlum standa á sama hverju þeir klæðast. „Þeir segja: Eru gallabuxurnar mínar hreinar? Eru jakkafötin hrein? og eru margir í því sama og láta það bara duga. Við konurnar erum miklu kræsnari margar hverjar á svona. Það er ekki sama í hvaða kjól við förum eða jakka,“ segir Linda hlæjandi.  

Vilja kaupa hagnýtt
Hún segir konur kaupa minna af fínum kjólum en áður. Þær kaupi frekar eitthvað sem þær geti notað aftur og aftur. „Það er mikið dottið út að konur komi og kaupi kjól fyrir árshátíð. Kannski ein og ein. Þetta er meira orðið þannig að vilja nýta hlutina og því sel ég mikið af 'casual' fatnaði.“ Linda segir tískuna í dag bjóða upp á mikla möguleika. Það þurfi ekki að vera í síðkjól á árshátíð eða leigja kjól fyrir þúsundir. Núna megi einnig vera í buxum.

Kaffivélin gerir mikið
Linda selur einnig skartgripi og er ekki alls kostar ókunnug því. Hún starfaði í 18 ár hjá Georg V. Hannah úrsmiði í Keflavík. „Ég var því eiginlega knúin til að hafa líka skart. Upphaflega ætlaði ég ekki að opna svona búð. Ég ætlaði að opna skartgripa- og gjafavöruverslun. Svo var mér boðið að kaupa Paloma, þegar ég var nýbúin að eiga minn yngsta son.“ Linda á þrjá syni; 28 ára, 24 ára og sjö ára. Að auki á hún tvo ömmudrengi, þriggja ára og eins árs. „Þegar ég hætti hjá Georg var ég orðin leið á að keyra til Keflavíkur og fór að vinna á skrifstofu okkar hjónanna hér í bænum. „Mig vantaði líka félagsskap og ákvað því að kýla á að kaupa verslunina. Ég sé ekki eftir því, hér er mikill félagsskapur og vinnan ofsalega skemmtileg.“ Linda segist vera með þjónustulundina í sér og það sé virkilega gaman að fá fólk til sín. „Þetta gengur út á miklu meira en að afgreiða. Fólk sest hér niður til að fá sér kaffi og lítur í kringum sig og segir: Ég ætla að máta þetta! Það er ótrúlegt hvað ein kaffivél gerir mikið,“ segir Linda brosandi.

Hópar koma að kvöldi til
Þá segir Linda kunningja sína og vini koma mikið við hjá henni, einnig eldri konur, bara til að fá sér einn kaffibolla eða kíkja á gluggana. Hún segir mikinn kost að vera í samfélagi þar sem allir þekki næstum alla. „Ég vil alls ekki trana mér fram neins staðar. Þetta kemur allt af sjálfu sér. Orðspor fyrirtækis byggist upp og spyrst út og það er það sem hefur gerst hjá mér. Þá mæli ég alltaf með því að fólk keyri um bæinn, kíki niður á bryggju og skoði sig um.“ Linda segist samt alveg vera til í að fá fleiri viðskiptavini sem sæki í Bláa lónið. Henni finnst að stundum sé stórt hlið við Bláa lónið og fólk fari bara ekki lengra en það. „Það koma hingað reyndar stundum rútur með túristum. Um daginn hringdi í mig kona í ferðamannabransanum og spurði hvort ég væri til í að opna búðina fyrir ferðamenn. Ég hélt það nú!“ Eins segir Linda kvenfélögin í bænum og fleiri hópa hafa hringt og fengið að koma saman í verslunina að kvöldi til. „Þá býð ég jafnvel upp á hvítvín og léttar veitingar. Það eru mjög skemmtileg kvöld. Þá eru þær bara að rífa sig úr á staðnum og engin feimni. Reyndar er það oft stemningin yfirleitt því það þekkjast allir svo vel hérna,“ segir Linda og skellihlær.  



Kemur vel fram við alla
Spurð um hvað þurfi að einkenna persónuleika manneskju sem rekur verslun eins og hennar og ganga vel segir Linda að lykilatriðið sé að koma eins fram við alla. „Ég hef kappkostað að gera það alla tíð, hvort sem ég er með verslun eða ekki. Koma fram við aðra eins og ég vil að þeir komi fram við mig. Svo skiptir líka máli að vera glöð og kát. Það þýðir ekkert að vera í fýlu hérna.“ Hún segist  setja allt sitt í viðhorf og framkomu og að það skili sér margfalt. „Viðskiptavinirnir verða eins og fjölskylda mín. Mér þykir vænt um þá. Sama fólkið kemur hingað aftur og ég er farin að þekkja inn á fatasmekk þeirra og læt vita: Það var að koma bolur fyrir þig!“ Linda segir einnig skipta máli að vera hreinskilin þegar fólk máti föt um hvort þau fari því vel. „Viðskiptavinur verður að fara ánægður út til að koma hingað aftur. Ég bara moka fatnaði í fólk í mátunarklefanum til þess að finna það sem passar best og fólk er ánægt með það. Hér fer enginn út í fýlu!“

Tryggir viðskiptavinir ekki sjálfgefnir
Linda segist vera með símanúmerið sitt víða á veggjum í versluninni af ásettu ráði. Hún vill að fólk hringi ef það vantar eitthvað. „Það getur vel komið upp að vanta sokkabuxur eða eitthvað aðkallandi. Það er minnsta mál að renna hingað og opna búðina. Maður er svo lánsamur með alla í kringum sig eins og kúnnana og alla sem eru svo tryggir. Það er ekkert sjálfgefið. Ég veit um fólk sem hefur opnað verslun, ekki náð svona tengslum og þurft að loka,“ segir Linda að endingu.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


VF/Olga Björt