Þýðir ekkert að múta okkur til að sleppa!
Breiðbandið óborganlega er farið að færa út kvíarnar og hefur nýverið lokið við að skrifa nýja revíu fyrir Leikfélag Keflavíkur. Verkið er í leikstjórn Helgu Brögu Jónsdóttur og eru æfingar að hefjast.
Víkurfréttir tóku Rúnar I. Hannah, Breiðbandsmeðlim með meiru, tali og spurðu út í verkefnið.
„Þetta er svona grín um bæinn okkar og söngatriði í bland. Verkið er til heiðurs Ómari Jóhannssyni heitnum, en hann gerði allnokkrar revíur sjálfur. Okkur brá þegar leikfélagið hafði samband við okkur nú fyrir jól en við erum rosalega spenntir fyrir þessu verkefni.“
Rúnar segir Leikfélagið hafa viljað fá hinn alræmda „Breiðbandshúmor“ sem hefur löngum þótt í beittari kantinum og fjallar oftar en ekki um samskipti kynjanna. Þeir munu þó auðvitað snerta á atburðum líðandi stundar án þess þó að verða of „lókal“. „Við miðum við það að þú getir tekið frænku þína úr Reykjavík með á sýninguna og hún skemmti sér eins vel og fólk sem hefur búið í bænum í 20 ár. Við snertum samt á þessum stærstu málum, það má til dæmis gera sér mat úr því að umboðsmaður Íslands er nýfluttur í bæinn og þið á Víkurfréttum sleppið ekki. Það sleppur enginn og það þýðir ekkert að reyna að múta okkur til neins. Það eru nefnilega auðmenn í okkar samfélagi sem hafa reynt að bera á okkur fé til að sleppa við umfjöllun í verkinu, en það þýðir ekkert,“ segir Rúnar í léttum dúr.
Athyglinni verður líka beint upp að gamla vallarsvæðinu þar sem Rúnar segir að gullgrafarastemmning ríki. Annars lýkur þátttöku Breiðbandsins í verkinu með skrifunum því þeir munu hvorki fara með hlutverk í sýningunni né leika lögin sem þeir hafa staðfært til að þau passi við viðfangsefnið.
Þeir leggja efnið í hæfar hendur Helgu Brögu sem er gestum leikfélagsins vel kunn eftir að hafa oft komið að sýningum hér í bæ.
„Við höfum átt nokkra fundi með Helgu Brögu og hún hefur mikið gaman af þessu. Hún er leikstjóri með mikinn húmor og klár að ná miklu út úr þessu. Annars er ég viss um að allir ættu að eiga ánægjulega kvöldstund enda er verkið fjölbreytt þannig að allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi. Kannski förum við aðeins yfir strikið einhvers staðar en fólk verður bara að meta það.“
Þeir Rúnar og félagar hans í Breiðbandinu, Magnús og Ómar, sitja hins vegar ekki auðum höndum heldur eru þeir á fullu að skemmta, aðallega í einkasamkvæmum og oftar en ekki á kvennakvöldum þar sem Rúnar segir að þeirra helsti markhópur sé. Þær virðast hafa gaman að okkur og við getum alveg kvittað fyrir það að konur eru með miklu grófari húmor en karlar og miklu meira gaman að skemmta þeim.“
Þeir eru bókaðir langt fram í tímann og hafa m.a. leikið beggja vegna Atlantshafsins, í Minneapolis og Horsens. Næsta sumar ráðgera þeir þó að fara í að taka upp sína þriðju plötu, enda eiga þeir að sögn mikið nýtt efni í handraðanum, og jafnvel halda stóra tónleika í kjölfarið. Nákvæmari tímasetningar fara þó eftir því hvort þeir verði nokkuð of uppteknir við spilamennsku.
Leiðrétting: Í greininni sem birtist í Víkurfréttum í dag er rangt farið með nafn viðmælanda. Hann heitir Rúnar I. Hannah en ekki Rúnar V. Er beðist velvirðingar á þessum mistökum.