Þvílík veisla framundan
Tvær tónlistarhátíðir í Reykjanesbæ í júní
Tónlistarþyrstir ættu að geta svalað þorsta sínum í sumar. Sérstaklega ef þeir eiga leið um Reykjanesbæ í júnímánuði. Tónlistarhátíðin Keflavík Music Festival fer fram í annað sinn nú í sumar, dagana 5.-9. Júní. Eins og greint var frá í gær er svo fyrirhuguð breska tónlistarhátíðin All Tomorrow's Parties á Ásbrú helgina 28.-29. júní. Það verður því sannkölluð tónlistarveisla í Reykjanesbæ í júnímánuði.
Margar erlendar hljómsveitir leggja leið sína til landsins en nú fyrir skömmu tilkynntu skipuleggjendur Keflaík Music Festival komu áströlsku sveitarinnar The Temper trap á hátíðina. Sú hljómsveit hefur gefið út tvær plötur og vakið mikla athygli í Indie-rokksenunni.
Nú þegar hefur verið tilkynnt um þónokkur stór erlend nöfn á hátíðinni en þar má nefna: Chase & Status, DMX, Tinie Tempha og Outlandish. Auk þess mun rjóminn af íslensku tónlistarsenunni koma fram á hátíðinni sem fer fram á átta mismunandi tónleikastöðum í Reykjanesbæ.
Þann 16. apríl verður svo tilkynnt um þá erlendu listamenn sem koma fram á All Tomorrow's Parties hátíðinni á Ásbrú og verður spennandi að sjá hverjir koma þar fram. Óhætt er að fullyrða að sumarið verði fjörugt í Reykjanesbæ enda hreint ótrúlegt úrval af tónlist í boði á þessum hátíðum. Vart þarf að fjölyrða um þann hvalreka sem þessar hátíðir geta orðið fyrir samfélagið á Suðurnesjum en gera má ráð fyrir að þúsundir gesta eigi eftir að heimsækja svæðið á meðan hátíðunum stendur.
Þess má geta að sjálfsögðu eru það heimamenn sem standa að hátíðunum en Ólafur Geir Jónsson sér um KMF ásamt öðrum góðum Suðurnesjamönnum. Það er svo Keflvíkingurinn Tómas Young sem heldur um stjórnartauma hjá All Tomorrow's Parties hátíðinni en Tómas starfar hjá Útflutningsskrifstofu íslenskrar tónlistar sem verkefna,- vef,- og fræðslustjóri. Sannarlega glæsilegt framtak hjá þessum framtakssömu piltum.
Nánar um Keflavík Music Festival
Nánar um All Tomorrow's Parties
Hér til hliðar má sjá Keflvíkinginn Tómas Young en hann á veg og vanda að því að fá All Tomorrow's Parties hátíðina á Ásbrú.