Því fyrr sem við lærum á okkur sjálf því betri manneskjur verðum við
- Halldóra Halldórsdóttir kennir núvitund í grunnskóla Grindavíkur
„Þegar við lærum eitthvað erum við ekki endilega að nota það akkúrat á þeim tímapunkti en einn daginn þurfum við á því að halda, sækjum það til baka og börnin þekkja þessar æfingar, þekkja núvitundina og gera æfingar fyrir utan skóla. Þeim finnst því ekkert tiltökumál að nota hana í ýmsum aðstæðum. Því fyrr sem við byrjum, því betra.“
Í aðalnámskrá grunnskóla kemur meðal annars fram að heilbrigði byggist á andlegri, líkamlegri og félagslegri vellíðan, að allt skólastarf þurfi að efla heilbrigði og stuðla markvisst að velferð og vellíðan enda verji börn og ungmenni stórum hluta dagsins í skóla. Þeir þættir sem þarf að leggja áherslu á þegar kemur að heilbrigði eru meðal annars jákvæð sjálfsmynd, andleg vellíðan og hreyfing.
Þær Halldóra Halldórsdóttir og Harpa Rakel Hallgrímsdóttir fóru af stað með núvitundarverkefnið „Hér og nú“ fyrir nokkrum árum síðan og eru þær verkefnastjórar þess. Verkefnið hefur þróast úr leikskóla, yfir á yngsta stig Grunnskóla Grindavíkur og allt upp í miðstig skólans. Víkurfréttir settust niður með Halldóru og spjölluðu við hana um verkefnið.
Hvaðan kemur hugmyndin?
„Ég var búin að bauka hér í Hópsskóla í Grindavík í nokkur ár með árganginn minn eða bekkinn minn í núvitundaræfingum. Ég fékk oft spurningar um það hvenær fleiri fengju að njóta góðs af en það gekk ekki upp því ég var umsjónarkennari. Hér í skólanum er farið í heimsókn á leikskólana með 1. bekk og ég var í einni slíkri heimsókn á leikskólanum Króki þegar það barst í tal að þær væru að fara að vinna í núvitundarverkefni. Ég spurði þær hvort ég mætti vera með og var ekki einu sinni búin að tala við yfirmenn mína, sló bara til og þannig þróaðist þetta. Ég fer síðan að tala við yfirmenn mína og þeim leist vel á þetta og eiga stjórnendur hrós skilið fyrir að styðja þétt við bakið á okkur og við erum þeim afar þakklátar. Síðan sóttum við um sameiginlegt verkefni, Hópsskóli og leikskólinn Krókur, sem heitir „Hér og nú“ og sóttum um í Sprotasjóð.“
Af hverju núvitund fyrir börn?
„Margar rannsóknir hafa sýnt fram á það að þetta virki og ef við skoðum aðalnámskrá þá kemur fram að við þurfum að skoða margt annað en bara skólabækurnar, meðal annars jákvæða sjálfsmynd. Við erum líka að tikka í svo mörg box í henni með þessu verkefni, þetta tvinnast allt saman. Þetta nær inn í aðalnámskrá og fyrir utan það eru nemendur að læra inn á sig sjálf. Við erum farin að átta okkur á því í dag hvað tilfinningar skipta miklu máli. Við bregðumst misjafnlega við og það er í lagi að segja frá og hafa tilfinningar. Að læra að þekkja sjálfan sig og tilfinningar sínar skiptir svo miklu máli. Því fyrr sem við lærum á okkur sjálf því betri manneskjur verðum við.
Núvitund í skóla og utan hans
Halldóra segist sjá að þetta virki, hún finni það á börnunum og hafi heyrt nokkrar sögur af því að þau geri núvitundaræfingar heima. „Þegar við lærum eitthvað erum við ekki endilega að nota það akkúrat á þeim tímapunkti en einn daginn þurfum við á því að halda, sækjum það til baka og börnin þekkja þessar æfingar, þekkja núvitundina og gera æfingar fyrir utan skóla. Þeim finnst því ekkert tiltökumál að nota hana í ýmsum aðstæðum. Því fyrr sem við byrjum, því betra.“
Í forvarnarteymi bæjarins
Verkefnið hefur þróast mikið á stuttum tíma en það byrjaði smátt og í dag taka báðir leikskólarnir, Laut og Krókur, þátt og nemendur frá 1.- 6. bekk eru einnig þátttakendur í verkefninu. „Það frábæra við þetta allt saman er að við erum undir forvarnarteymi Grindavíkurbæjar. Við sóttum um í Sprotasjóð og langaði til að halda áfram með þetta verkefni eftir að þeim tíma lauk og stækka það en því miður var ekki hægt að fá áframhaldandi styrk. En við gáfumst ekki upp því okkur fannst þetta eiga heima áfram inni í skólanum og skólasamfélaginu. Við vinnum ekki bara með nemendur, heldur starfsfólk líka. Það er því stór hópur í Grindavík sem tekur þátt í þessu verkefni með okkur Hörpu. Við duttum inn í forvarnarteymið og það var sóttur styrkur til Grindavíkurbæjar og ég held að Grindavíkurbær sé eina bæjarfélagið á landinu með svona stórt núvitundarverkefni.“
Mikilvægt að breiða út boðskapinn
Nemendur eru virkir þátttakendur í verkefninu og ein af ástæðum þess er sú að starfsfólkið tekur þátt. „Við erum með ótrúlega flott starfsfólk með okkur í verkefninu og það skiptir öllu máli, það vilja allir taka þátt og eru tilbúnir að prófa eitthvað nýtt. Starfsfólkið er númer eitt, tvö og þrjú. Það er líka mikilvægt að segja frá því góða sem maður er að gera. Ég vil breiða út boðskapinn og hef verið með námskeið fyrir kennara og starfsfólk í skóla í Reykjanesbæ.“
Vill að núvitund verði hluti af daglegu skólastarfi
„Hér og nú“ verkefnið er þróunarverkefni en í þeim verkefnum gengur ekki alltaf allt upp og ýmislegt breytist á leiðinni. „Það mistekst stundum eitthvað en þá stöndum við upp aftur, lærum af því sem fór ekki vel o.s.frv. og þannig skoðum við allar hliðar verkefnisins. Ef ég skoða verkefnið til framtíðar þá myndi ég vilja að kennarar tækju þetta upp í sínu dagskipulagi og þetta væri eins eðlilegt og að láta alla lesa í skólanum. Það skapast ákveðin ró í núvitund og nemendum líður vel þegar þeir eru búnir að gera æfingar og eru tilbúnir í verkefnavinnu og daginn.“