„Því flóknara, því skemmtilegra“
-Sölvi Logason starfar sem forritari hjá WOW air -Vann áður hjá Plain Vanilla -Segir drauminn vera að stofna eigið sprotafyrirtæki
„Við sjáum um alla hugbúnaðarþróun hjá fyrirtækinu. Við erum teymi innan „WOW Labs“ og sjáum um vefsíðuna og appið okkar,“ segir Sölvi Logason, aðspurður hvaða felist í því að vera forritari hjá fyrirtæki eins og WOW air. „Okkar hlutverk gengur líka svolítið út á að gera líf farþegans auðveldara. Í flugbransanum er tiltölulega auðvelt fyrir okkur að vita hvernig er að vera notandinn því maður hefur ferðast oft sjálfur. Maður veit hvernig það getur verið að vakna um miðja nótt, drífa sig út á flugvöll til þess að standa í einhverri röð og svo framvegis. Það eru ýmsir hlutir sem gætu gengið auðveldar fyrir sig og við reynum að finna lausnir til að auðvelda flugfarþegum lífið.“
Sölvi er með BSc gráðu í hugbúnaðarverkfræði og er tiltölulega nýbyrjaður hjá WOW air. Áður starfaði hann hjá sprotafyrirtækinu Plain Vanilla sem skaust fram á sjónarsviðið á ógnarhraða fyrir nokkrum árum með QuizUp spurningaleik sínum fyrir snjallsíma. Leiknum, eða appinu, var halað niður 80 milljón sinnum og er nú einnig komið á kínverskan markað. „Mér fannst þetta vera spennandi vettvangur eftir að QuizUp ævintýrinu lauk. Þetta er nýlegt fyrirtæki og spennandi uppbygging í gangi hér.“
Plain Vanilla hafði samband
Sölvi bjó til vefsíðu á sínum tíma sem heitir flytime.is þar sem hægt er að fylgjast með flugum í rauntíma og fá tölvupóst sendan um tiltekið flug, þegar vélin er farin í loftið, þegar hún lendir og þess háttar. Vefsíðan var tilnefnd til íslensku vefverðlaunanna sem besta „non-profit“ vefsíðan árið 2015. Hún vakti athygli starfsmanna Plain Vanilla sem höfðu í kjölfarið samband við Sölva. Stuttu seinna var hann ráðinn til fyrirtækisins.
Hann vann að uppbyggingu vefsíðu fyrirtækisins og svo að undirbúningi sjónvarpsþáttar í tengslum við leikinn. Hann átti að vera sýndur á bandarísku sjónvarpsstöðinni NBC. „Við fórum til Los Angeles og unnum þar í mánuð hjá NBC að gerð þáttarins. Það voru ýmsar tæknilegar fyrirstöður sem þurfti að leysa úr enda átti þátturinn að vera gagnvirkur, þ.e. áhorfendur áttu að geta tekið þátt í leiknum heima í stofu í gegnum snjallsímann sinn. Þetta var svakalega skemmtilegur tími og frábær skóli,“ segir Sölvi en NBC hætti við að gera þáttinn og þurfti Plain Vanilla að segja upp starfsmönnum sínum á Íslandi. „Það var alveg ótrúlegt að fá svona starf strax eftir útskrift. Þetta var mjög þéttur og skemmtilegur hópur og ég er mjög þakklátur fyrir að hafa fengið að taka þátt í þessu.“
Stofnaði fyrirtæki 19 ára
Nítján ára stofnaði Sölvi fyrirtækið Optimus margmiðlun ásamt Sindra vini sínum. „Við félagarnir höfðum verið að vinna saman í nemendafélaginu að sjónvarpsþættinum Hnísunni, gerð tímaritsins Vizkustykki og auglýsingagerð fyrir böll og þess háttar. Þarna lærði maður á Photoshop og fljótlega var fólk farið að biðja okkur um að búa til nafnspjöld eða auglýsingar fyrir sig. Þá datt okkur í hug að stofna bara fyrirtæki sem tæki að sér slíka hönnun. Fyrsta sumarið vorum við að þessu með annarri vinnu til að vera með öruggar tekjur. En sumarið eftir það höfðum við það mikið að gera að við vorum með þetta sem aðalstarf.“ Fyrirtækið er núna með litla starfsemi þar sem Sölvi og Sindri fengu báðir vinnu hjá stærri fyrirtækjum. „Núna tökum við að okkur eitt og eitt verkefni sem okkur þykja spennandi,“ segir Sölvi.
Sprotafyrirtæki draumurinn
Aðspurður hvað það sé við forritun sem heillar hann svarar Sölvi að hann hafi gaman að því að vera skapandi. „Maður er að skapa og smíða eitthvað nýtt sem leysir vandamál. Þegar verkefnin eru krefjandi og flókin er þetta enn skemmtilegra. Hlutirnir gerast hratt og svo er tilkostnaðurinn lítill, ef þú berð þetta saman við til dæmis bílaframleiðslu. Efniskostnaður er mikill við framleiðslu á vélbúnaði en ekki hugbúnaði.“ Draumastarfið segir hann vera að stofna sitt eigið sprotafyrirtæki einn daginn. „Núna eru nokkrir fyrrverandi samstarfsfélagar hjá QuizUp búnir að stofna slík fyrirtæki. Kannski tekur maður þátt í einhverjum þeirra eða stofnar sitt eigið. Það er draumurinn.“