Þúsundir á vel heppnaðri Ljósanótt
Einstaklega vel heppnaðri Ljósanæturhátíð lauk á sunnudagskvöld eftir fjögurra daga viðburðaveislu sem fram fór í blíðskaparveðri í Reykjanesbæ. Talið er að yfir 30 þúsund gestir hafi verið á hátíðarsvæðinu á laugardagskvöld þegar hápunkti hátíðarinnar var náð með glæsilegri flugeldasýningu stórtónleikum þar sem fram komu hljómsveitirnar Flott og Vök ásamt Bubba Morthens og Birni.
Guðlaug María Lewis, verkefnastjóri hátíðarinnar segir að það hafi mátt skynja mikla ánægju meðal gesta sem virtust njóta þess einstaklega vel að geta loks komið saman á nýjan leik eftir þriggja ára hlé vegna samkomutakmarkana. Hún segir á annað hundrað dagskrárliða hafa verið á dagskrá hátíðarinnar og því sannarlega af nægu að taka fyrir gesti Ljósanætur. Hún segir frábært að upplifa hvernig verslanir, skemmtistaðir og veitingastaðir hafi tekið fullan þátt í að bjóða upp á glæsilega dagskrá á Ljósanótt og þá fari íbúaverkefnum fjölgandi sem sé ánægjuleg þróun. Guðlaug segir að hátíð eins og Ljósanótt sé gríðarleg lyftistöng fyrir samfélagið allt og það hafi verið einkar áberandi núna eftir þetta langa hlé og frábært að sjá hvernig allt hafi hreinlega lifnað við og sprungið út þessa síðustu daga.
Fjögurra daga veisla
Hátíðin var sett á fimmtudag með leik- og grunnskólabörnum og þann sama dag opnuðu listsýningar um allan bæ en á Ljósanótt hefur menningartengd áhersla verið í forgrunni. Á föstudagskvöld var öllum gestum hátíðarinnar boðið upp á ljúffenga íslenska kjötsúpu frá Skólamat og svo tóku við heimatónleikar í hverfum bæjarins auk nýs íbúaverkefnis þar sem íbúar tveggja gatna buðu upp á glæsilega útitónleika. Gríðargóð stemning var á þessum viðburðum enda léku veðurguðirnir á alls oddi og norðurljósin dönsuðu á himni í takt við tónlistina.
Á laugardag fylltist hátíðarsvæðið þegar þúsundir tóku þátt í árgangagöngu á Hafnargötu sem endaði við hátíðarsviðið þar sem Kjartan Már Kjartansson bauð gesti velkomna við dynjandi undirleik Stórsveitar Suðurnesja. Gestir nutu dagsins í einróma veðurblíðu fram á kvöld. Á sunnudag voru sýningar enn opnar og m.a. var boðið upp á tónleika í Kirkjuvogskirkju í Höfnum með Elízu Newman og Lay Low.