Þúsundir á Ljósanótt á fimmtudegi - myndir
Margar áhugaverðar listsýningar og viðburðir um allan bæ.
Það var líf og fjör á fimmtudagskvöldi á Ljósanótt þar sem þúsundir manna sóttu listsýningar og ýmsa viðburði. Þrjár nýjar sýningar voru t.d. opnar í Duus-húsum auk fjölda annarra víða um bæinn.
Við formlega opnun sýninganna í Duus-húsum kynntu aðstandendur sýninganna viðfangsefni þeirra en þetta eru „Leikfléttur“ í Listasafni Reykjanesbæjar, aðal sal safnsins en það er sýning Kristrúnar Rúnarsdóttur. Hún er fædd 1984 og uppalinn í Reykjanesbæ.
„Net á þurru landi“ er nafn á sýningu hópsins sem ber nafnið „Handverk og hönnun“ en hún er í svokallaðri Gryfju Duus-húsa. Í sýningunni er sérstök áhersla lögð á að hvetja til endurnýtingar, endurvinnslu og endurgerðar. Mörg verkanna eru mjög áhugaverð.
Þriðja sýningin og sú sem vakti mesta athygli var ljósmyndasýningin „Ljósmyndarinn Jón Tómasson, - aldarminning“ í bíósal Duus. Þar gefur að líta úrval mannlífsmynda úr Keflavík á árunum 1940-1960 sem Jón tók en á þessum árum var hann nokkurs konar hirðljósmyndari bæjarins þó svo hann væri áhugaljósmyndari og sem símstöðvarstjóri á sama tíma. Myndir Jóns eru mjög skemmtilegar og ljóst var á viðbrögðum gesta að sýningin vakti gríðarlega lukku. Jón var einnig ristjóri FAXA, blaðs samnefnds málfundafélags. Hann ritaði margar áhugaverðar greinar í blaðið og var úrval nokkura þeirra settar í sérútgáfu af Faxa sem dreift er á sýningunni.
Fréttamenn VF tóku myndir af viðburðum á fimmtudagskvöldi og má sjá þær í myndasafni VF og nokkrar hér að neðan.
Myndir á Ljósanótt 2014 frá fimmtudegi 1.
Myndir á Ljósanótt 2014 frá fimmtudegi 2.
Karlakór Keflavíkur söng við opnun ljósmyndasýningar Jóns Tómassonar en hann var einn af stofnendum kórsins.
Myndirnar voru bæði prentaðar og sýndar á veggjum og einnig á skjám.
Valgerður Guðmundsdóttir, menningarfulltrúi Reykjanesbæjar flutti ávarp við opnun sýninganna í Duus.
Anna Lóa Ólafsdóttir, forseti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar afhenti Sigurði Sævarssyni blómvönd en hann var valinn bæjarlistamaður fyrr í sumar en var þá ekki viðstaddur.
Sýning Kristínar Rúnarsdóttur í Listasal Duus-húsa vakti verðskuldaða athygli.
Fjöldi fólks sótti sýningar í Kjarna Flughótels.
Steinþór Jónsson, einn af upphafsmönnum Ljósanætur var hress með eiginkonu og vinum.
Þetta er les-píuhópur í góðum gír við upphaf Ljósanætur þó engar væru bækurnar að þessu sinni.
Bræðurnir Sævar og Guðbjörn Garðarssynir voru í stuði.
Hvernig er ekki hægt að birta þessa skvísumynd.
Verslun gengur ákaflega vel og sjá mátti fjölda fólks kaupa ýmislegt sem í boði er.