Þurfum að fara að lifa með veirunni
Jóhann Snorri Sigurbergsson er kominn með upp í kok af Covid.
Jóhann Snorri Sigurbergsson, forstöðumaður viðskiptaþróunar hjá HS Orku er kominn með upp í kok af Covid rugli og ætlar ekki til útlanda á meðan þetta ástand varir í veirumálum. Hann ætlar að mála húsið og fara meira í golf.
– Hvað er efst í huga eftir veturinn?
„Það hefur flestallt stjórnast af COVID-fárinu. 2020 er fyrsta árið í rúman aldarfjórðung þar sem ekkert var farið af landi brott og samskipti við annað fólk mjög takmörkuð. Jákvæði þátturinn við þetta ástand er þó að ég gat eytt mun meiri tíma með nýfæddum syni mínum og í raun gat ég tekið „fæðingarorlof“ með fullri vinnu þar sem ekki mátti mæta á vinnustaðinn löngum stundum. Með góðri skipulagningu og samvinnu á heimilinu tókst að sinna báðum þáttum nokkuð vel.“
– Er eitthvað eftirminnilegt í persónulegu lífi frá vetrinum?
„Að kynnast nýjasta fjölskyldumeðlimnum og fylgjast með samskiptum hans við systkini sín þrjú stendur vafalítið upp úr. Við höfum verið að koma okkur fyrir á nýju heimili og mikill tími hefur farið í að gera það að okkar. Nú bíðum við spennt eftir sumrinu og fáum vonandi örlítið meira frelsi til athafna.“
– Hversu leiður ertu orðinn á Covid?
„Ég eins og flestir aðrir er kominn með algjörlega upp í kok af þessu blessaða COVID-rugli. Ég tók þetta á mig í fyrstu bylgjunni og slapp nokkuð vel myndi ég telja. Merkilegt nokk þá sluppu allir hinir fjölskyldumeðlimirnir við þetta þrátt fyrir að vera inn á sama heimili allan tímann og hetjan, sambýliskonan mín, komin 36 vikur á leið. Nú er kominn sá tími að við þurfum að fara að lifa með veirunni þegar allir viðkvæmustu hópar og framlínufólk hefur fengið bólusetningu. Blása lífi í hagkerfið og fara að koma saman sem oftast og þá ekki síst á vellinum þegar Keflavík keppir sína leiki.“
– Ertu farinn að gera einhver plön fyrir sumarið, ferðalög t.d. Ætlarðu til útlanda?
„Við höfum tekið þá ákvörðun að við nennum ekki til útlanda meðan þetta er enn á kreiki víða um heim. Planið er því að nýta tímann heima fyrir, mála húsið og gera það fínt. Þá er stefnan sett á sumarbústað með stóðið og eitthvað þannig léttmeti. Þá ætla ég loksins að taka þetta blessaða golf föstum tökum og vonast til þess að vera virkur þátttakandi í golfhópnum Kvíði auk þess að fylgja sambýliskonunni oftar á völlinn.“
– Hvað myndir þú gera ef heimurinn yrði Covid- frír í næstu viku?
„Ég held að ég myndi, rétt eins og líklega þorri landsmanna, rífa fjölskylduna upp og flatmaga á Tene tvær vikur. Fara svo á Liverpool-leik í beinu framhaldi.“
– Uppáhaldsmatur á sumrin?
„Það breytist lítið í þeim leik á milli sumars og veturs. Uppáhaldsmaturinn er nautakjöt sem hefur verið rölt með framhjá grillinu. Svo má leika sér með meðlætið og bitana til að viðhalda fjölbreytninni. Ég grilla alveg jafn mikið á veturna og sumrin og líklega er það svo að við notum grillið til að elda um það bil þrisvar í viku. Það hækkar kannski í fimm sinnum á sumrin auk þess sem maður er þá duglegri að grilla hádegismatinn á pallinum.“
– Uppáhaldsdrykkur á sumrin?
„Sama hér, lítil árstíðarsveifla. Kaldur og freyðandi stendur yfirleitt upp úr. Við erum þó kannski duglegri við að blanda okkur einhvers konar kokteil úti við þegar sól hækkar á lofti og hitinn slær upp fyrir frostmark.“
– Hvert myndir þú fara með gest á Reykjanesinu fyrir utan gosslóðir?
„Mér finnst Reykjanesið vera þannig að það er enginn einn staður sem stendur upp úr. Þegar ég fer með gest á Reykjanesið þá tek ég yfirleitt hringinn um nesið, misstóran þó. Vegna vinnu þá fer ég yfirleitt út að virkjunum og ef um útlendinga er að ræða þá er það alltaf þannig að þeim finnst ótrúlegt hversu mikla auðlind við eigum í jarðvarmanum og hversu framarlega við erum sem þjóð í nýtingu hans. Þá eru orkuver HS Orku falleg mannvirki og verkfræðileg undur hvort á sinn hátt.“
– Hver var síðasta bók sem þú last?
„Ég les yfirleitt ekki mikið í bókum en þeim mun meira nota ég netið til að fræðast og til afþreyingar. Þó kom smá glæta þegar ég lá í COVID-móki og þá greip ég einhverja bók eftir Arnald og las hana á rétt um sólarhring. Annars les ég mest ævisögur og fræðibækur tengdum menntuninni þá sjaldan sem ég grip í bók.“
– Hvaða lag er í uppáhaldi hjá þér núna?
„Veit ekki hvort það megi segja að það sé í uppáhaldi en þessa dagana en hér á heimilinu er mikið hlustað á lagabálka sem heita Super Simple Songs og má finna á Spotify og Amazon Prime. Þetta eru einföld og þægileg barnalög sem örverpið elskar. Það situr oftar en ekki fast í hausnum á okkur foreldrunum Mr. Golden Sun sem er grípandi melódía. Annars er Back in Black með AC/DC besta rokklag sögunnar og alltaf í uppáhaldi.“
– Hvað viltu sjá gerast í þínu bæjarfélagi á þessu ári?
„Ég vil að bæjarfélagið sjái sóma sinn í því að finna lausnir fyrir fólk með ung börn. Yngsti sonurinn kemst ekki til dagmömmu fyrr en hann verður sextán mánaða að okkur sýnist sem auðvitað væri mjög erfitt ef ekki væri fyrir góðan skilning vinnuveitanda okkar foreldranna. Þetta sýnist manni vera viðkvæðið nokkuð víða. Þá má bærinn koma áfram með okkur í Keflavík að því að gera aðstöðuna fyrir áhorfendur enn betri og hjálpa okkur að fegra svæðið. Völlurinn og svæðið í kringum hann er gríðarlega mikið notað af hlaupurum og göngufólki. Við erum að klára að byggja þar 320 fermetra pall sem mun nýtast þessum hópum vel en betur má ef duga skal og bærinn má gjarnan koma áfram með okkur í að gera aðstöðuna þannig að hún sé til sóma fyrir lið í efstu deild. Forsvarsmenn bæjarins eru allir af vilja gerðir og margt hefur orðið betra en við getum gert svo miklu betur fyrir íþróttafélögin okkar.“