Þú logar, gakktu af stað!
- Grindvíkingur leggur áhættuleik fyrir sig
„Sumt af því sem ég geri er hættulegt. Það er ekkert grín þegar maður heldur í sér andanum með lokuð augun og heyrir kallað „þú logar, gakktu af stað!" segir Grindvíkingurinn Daníel Freyr Elíasson sem hefur sett markið hátt í áhættuleik. Hann segir jafnframt að sumt sem hann geri sé álíka hættulegt og að fara á rúntinn. „En ef maður er ekki með hausinn á réttum stað, eða með réttan undirbúning, þá er alltaf hætta á slysum.“
Á myndinni má sjá Daníel logandi. Búið var að setja gel á húðina, sem kælir hana en þolir mikinn hita. Ofan á það er sett annað gel sem er gríðarlega eldfimt og brennur á um 900°C hita.
Daníel byrjaði 17 ára að æfa parkour með A.T.S. sem hefur aðstöðu hjá Gerplu. Það var svo fyrir fjórum árum að hann fór til Þýskalands með öðrum parkour þjálfurum og hitti mann sem skipuleggur áhættuatriði. Sá leyfði þeim að prufa eitt og annað tengt áhættuleik og þá kviknaði áhuginn hjá Daníel. Nýlega lauk Daníel svo námskeiði hjá European Stunt School í Danmörku en það er fyrirtæki sem sérhæfir sig í áhættuatriðum og skipulagningu á þeim. „Ég var þar í tvær vikur þar sem við æfðum í tæplega tólf klukkutíma á dag. Við fórum yfir alla flóruna, frá bardagaatriðum yfir í áhættuakstur, og þaðan í að láta kveikja í okkur og allt þar á milli,“ segir Daníel.
Á myndinni er Daníel búinn að klæða sig í tvöfalt lag af sams konar innanundir fatnaði og notaður er í kappakstri en það efni þolir hita vel. Fatnaðurinn hefur lagið í kæligeli í dágóðan tíma. Að sögn Daníels er ískalt að vera í fötunum og er markmiðið að lækka líkamshitann til að geta verið lengur í logunum. Ytra lagið er samfestingur eins og notaður er í kappakstri. Hann er smurður með kæligeli. Yfir það fór hann í venjulegan gallabuxur og jakka sem líka eru smurð með kæligelinu. Á þetta er settur eldfimur vökvi. „Áhættuleikarinn dregur djúpt andann, heldur honum inni, lokar augunum og gefur merki um að hann sé klár. Þá er kveikt í, hann látinn vita að hann logar, og þá fer hann af stað. Um leið og áhættuleikarinn finnur hitabreytingu leggst hann í jörðina og slökkvararnir stökkva inn og slökkva,“ segir Daníel.
Daníel hefur þegar fengið tvö hlutverk. Annað var í tónlistarmyndbandi sem tekið var upp á Vatnsleysuströnd og annað verður frumsýnt á Menningarnótt í Reykjavík. Enn sem komið er hefur Daníel ekki slasast við áhættuleikinn en segir þó alltaf möguleika á því. Aðspurður um það hvort fjölskyldan hafi áhyggjur af honum í áhættuleiknum segir hann þau alltaf hafa stutt sig í gegnum allt sem hann hefur tekið sér fyrir hendur. „Stuðningur þeirra skiptir mig rosalega miklu máli. Hvort þau hafi áhyggjur, veit ég ekki, en það væri nú alveg eðlilegt, myndi ég halda,“ segir hann í léttum dúr.
Ásamt því að stunda parkour og áhættuleik vinnur Daníel á Keflavíkurflugvelli og í Skemmtigarðinum í Grafarvogi þess á milli, enda kveðst hann vera algjör vinnualki. Næstu skref hjá þessum unga ofurhuga verða svo að koma sér enn betur á framfæri.
Hér fyrir neðan má sjá Daníel Frey við æfingar á áhættuleik hjá European Stunt School