Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Þú lærir að verja þig og taka á ósigri án þess að vilja hefna þín
Laugardagur 21. janúar 2012 kl. 22:56

Þú lærir að verja þig og taka á ósigri án þess að vilja hefna þín

Víkurfréttir hafa útnefnt Guðmund Stefán Gunnarsson þjálfara hjá Júdódeild UMFN sem mann ársins á Suðurnesjum árið 2011. Guðmundur Stefán, sem er aðeins 35 ára, íþróttakennari og stúdent frá Kvennaskólanum og Njarðvíkingur, hefur unnið ákaflega óeigingjarnt starf í þágu íþróttahreyfingarinnar á Suðurnesjum frá stofnun júdódeildar UMFN snemma á árinu 2011. Guðmundur hefur með frumkvæði sínu og ótrúlegum dugnaði á stuttum tíma byggt upp júdódeild sem hefur nú þegar látið til sín taka í júdó, brasilísku Jui Jitsu og íslenskri glímu og unnið til verðlauna í öllum þessum greinum. Þrátt fyrir lítið fjármagn og takmarkaða aðstöðu telja iðkendur deildarinnar rúmlega 100 krakka og unglinga sem mæta reglulega á æfingar hjá Guðmundi og stunda íþróttina án þess að þurfa að borga neitt.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Vinnan með ungmennunum á hug hans allan og hann hefur hjálpað mörgum börnum sem ekki hafa fundið sig í öðrum íþróttagreinum. Auk þess sem það kostar ekkert fyrir krakkana að æfa hjá Júdódeild UMFN þiggur Guðmundur engin laun fyrir vinnu sína sem hann sinnir ásamt því að starfa sem kennari í Akurskóla í Innri-Njarðvík. Guðmundur er frábær fyrirmynd og hefur hugsjón ungmennahreyfingarinnar augljóslega að leiðarljósi. Nú er svo sannarlega þörf á svona hugsjónafólki sem leggur mikið á sig til að aðstoða, leiðbeina og hjálpa í okkar samfélagi sem hefur laskast á mörgum sviðum eftir kreppu. Eitthvað sem Guðmundur gerir með bros á vör og ánægjuna eina í laun.

Antisportisti og klunni
„Ég var hálfgerður antisportisti fram eftir aldri ef frá er talið júdóið. Ég var í tónlistarskóla og prófaði körfubolta en var svolítill klunni,“ segir hann og hlær. „Ég var einu sinni á æfingu hjá Friðriki Ragnarssyni, sem nú er þjálfari meistaraflokks hjá Njarðvík. Ég var þá að sýna listir mínar og þegar ég hugðist leggja boltann ofan í körfuna þá fór ekki betur en svo að boltinn endaði uppi á miðjum vegg í íþróttahúsinu. Frikki hélt að ég væri að grínast en svo var alls ekki. Þetta endaði svo allt með því að ég fór af æfingu og lét ekki sjá mig þar aftur,“ segir Guðmundur og skellir upp úr.


Guðmundur er fæddur árið 1977 og er því að verða 35 ára í ár. Hann er giftur Eydísi Mary Jónsdóttur og saman eiga þau tvo syni sem eru þriggja og níu ára. Guðmundur er uppalinn í Njarðvík og er Njarðvíkingur í húð og hár eins og oft er sagt um þá sem unna heimahögunum.


Hann segist hafa prófað sund og ýmsar íþróttir sem barn en það hafi ekkert legið sérstaklega vel fyrir honum. „Ég skildi t.d. aldrei þessar óskrifuðu reglur í boltaíþróttunum þar sem menn voru að gefa hver öðrum „high five“ og þess háttar. Það að hittast eftir leiki og gera eitthvað saman var eitthvað sem ég skildi ekki heldur, ég vildi bara fara heim og slappa af.“ Það var ekki fyrr en löngu síðar þegar Guðmundur hóf nám í Íþróttakennaraskólanum á Laugarvatni að hann fann sig í hópíþróttum en hann lék á þeim tíma eitt tímabil í utandeildinni í handbolta og einnig körfubolta með Þrótti Vogum en þar fann hann sig ágætlega, enda stór og stæðilegur piltur.


Gunnar Örn Guðmundsson, faðir Guðmundar, stundaði júdó með góðum árangri hér á árum áður og hann segir að áhuginn hafi kviknað þegar hann hafi farið að kíkja á æfingar með pabba sínum sem þá fóru fram í gamla Ungó í Keflavík. Þá var hann í kringum 10 ára aldurinn. Hann hætti svo um tíma að æfa eftir að hann lenti í slysi og missti hann af æfingum í lengri tíma. Á því tímabili lognaðist deildin í Keflavík út af. „Ég byrja svo aftur að æfa þegar ég er um 18 ára en þá vorum við að æfa í Æfingastúdíóinu. Þar voru menn eins og Einar Karl, Ragnar Hafsteinsson og fleiri.“ Ætlunin var að stofna deild á þeim tíma en ekkert varð úr því að sögn Guðmundar vegna þess að einhverjir úr hópnum hafi flutt erlendis og þvíumlíkt.

Þá tók Guðmundur sér smá pásu aftur í rúmt ár en byrjaði svo aftur að æfa í Reykjavík og í Vogunum hjá Magnúsi Haukssyni. „Hann er svona minn kennari,“ segir Guðmundur sem hefur verið nánast samfleytt í íþróttinni síðan. Hann segist fyrst og fremst vera áhugamaður um íþróttina og að hópurinn í kringum júdóið sé ávallt skemmtilegur. „Þetta er svo fjölbreyttur hópur og stemningin er alltaf svo góð í kringum íþróttina.“ Guðmundur segir að eftir að hann hafi að mestu leyti hætt í júdóinu þá hafi honum byrjað að ganga hvað best. „Þá fór ég fyrst að skilja að þetta snerist ekki bara um styrk, heldur meira um tækni. Ég komst að því að þetta er ekki bara bardagi heldur er þessi íþrótt svo miklu, miklu meira,“ segir hann og það er augljóst að ástríðan fyrir júdóinu er mikil.




Uppgötvaði lesblindu í menntó

Guðmundur útskrifaðist úr Kvennaskólanum í Reykjavík en þar komst hann að því að hann hafði glímt við lesblindu alla sína tíð. Eftir útskrift fékk hann vinnu hjá Ólafi Thordersen hjá Njarðtaki við sorphirðu og hafði ekkert sérstakt í huga varðandi framtíðina. Hann fór fljótlega að hugsa sér til hreyfings eftir fyrsta veturinn í því starfi og ákvað að sækja um í Íþróttakennaraskólanum en gerði sér ekki miklar vonir um að komast þar inn. Hann þreytti þar inntökupróf sem hann stóðst með prýði og var í framhaldinu kominn inn í skólann.



Austur og aftur vestur

Eftir að námi lauk á Laugarvatni þá lá leið Guðmundar og konu hans, sem hann hafði kynnst á öðru ári í skólanum, til Eskifjarðar þar sem hann hóf kennsluferilinn. „Það var mjög skemmtileg upplifun, nánast eins og að fara til annars lands,“ segir Guðmundur en hann þjálfaði m.a. fótbolta á því ári sem hann hafði búsetu fyrir austan. Tíminn þar eystra var mjög góður að mati Guðmundar en hann langaði að flytjast aftur heim til Njarðvíkur. Hann hringdi því í Gylfa Guðmundsson skólastjóra Njarðvíkurskóla og spurði hvort hann væri ekki með vinnu fyrir hann. „Gylfi kvaðst ekki vita um neitt að svo stöddu en hann ætlaði að kanna málið. Daginn eftir hringdi Gylfi og sagði að hann væri með stöðu fyrir mig í Björkinni hjá Njarðvíkurskóla.“ Þar starfaði Guðmundur næstu tvö árin ásamt því að þjálfa yngstu krakkana í sundinu. Aftur greip ókyrrðin Guðmund en hann segist vera dálítið þannig að hann vilji breyta mikið til og vera á hreyfingu.



Fjögurra ára ferðalag

Á þessum tíma var góðærið hvað mest hér á landi og þau hjónin áttu saman íbúð við Hringbrautina í Keflavík. Þá barst þeim tilboð í íbúðina og þau ákveða að selja. „Við fórum strax að leita að ódýrum eignum hér á Suðurnesjum en okkur langaði að færa okkur um set. Þá allt í einu datt okkur í hug að fara til Danmerkur í smá ferðalag,“ en það ferðalag átti eftir að taka töluvert lengri tíma en ætlað var í fyrstu.


Hjúin voru opin fyrir því að fara jafnvel í nám þar í landi og enduðu í Álaborg þar sem þau vissu að væri góður íþróttaskóli. „Fljótlega datt ég inn í íþróttaháskólann og spjallaði við fólk þar, segi hvað ég hafi lært og mér er í framhaldinu boðinn innganga í skólann. Þar lærði ég lyftingafræði og er með hæstu gráðu í þeim fræðum. Eftir að ég útskrifast þar þá dett ég inn í það að kenna þarna sem afleysingakennari hjá 10. bekk. Ég var ekkert sérstakur í dönskunni en kenndi ensku og dönsku engu að síður,“ segir Guðmundur og hlær við. Þar slysast hann svo til þess að fara að þjálfa sund í aukavinnu. Áður hafði hann einungis þjálfað litla krakka heima en þetta gekk bara þokkalega vel hjá Guðmundi og unglingarnir í sundinu náðu góðum árangri undir hans stjórn. Í kjölfarið er Guðmundi boðinn staða yfirþjálfara hjá félaginu sem hefur á að skipa 2000 iðkendum. Guðmundur náði þar flottum árangri og fór með nokkra sundmenn á Danmerkurmótið.



Fóru að byggja í kreppunni

Eydís, eiginkona Guðmundar útskrifast svo úr sínu námi eftir að þau höfðu dvalið í 4 ár í Danmörku. Þá fóru þau að hugsa heim og Sigurbjörg systir Guðmundar hringir og spyr hvort að hann vilji ekki kaupa lóð með henni og manni hennar og fara að byggja. „Það er erfitt að segja nei við Sigurbjörgu en hún var með þetta allt á hreinu og var búin að fá mömmu og pabba til þess að byggja líka. Við ákváðum að slá til og fórum að byggja rétt áður en kreppan skall á. Það var reyndar ótrúlega þægilegt að byggja á þeim tíma þar sem allir voru að losa sig við efni og við náðum að byggja fyrir frekar lítinn pening. Þannig að nú er fjölskyldan öll á sama punktinum, sem er bara mjög þægilegt fyrir okkur systkinin en kannski ekki fyrir tengdabörnin,“ segir Guðmundur og hlær.



Hann gerðist síðan grunnskólakennari í Akurskóla sem er skammt frá heimili hans í Innri-Njarðvík og fór líka að þjálfa sund hjá Njarðvík. Hann þyrsti í að gera eitthvað meira og samhliða sundþjálfuninni fer hann að kenna nokkrum strákum tökin í júdóinu.




Júdóið gott fyrir krakkana

„Ég var að þjálfa sund þar sem nokkrir líflegir drengir voru að æfa hjá mér. Ég hafði platað þá til að prófa að mæta á æfingu en ég á það til að hvetja fólk sem ég hitti á förnum vegi til þess að prófa. Þessir strákar voru ekkert alveg að nenna að æfa sund og ég fór einu sinni í viku með þá upp á Ásbrú og kenndi þeim tökin í júdóinu. Á meðal þessara gutta var einn sem var dálítið utanveltu en hann var ekki í sundinu. Ég sá mikla hæfileika í honum og hann virtist ná tökunum á júdóinu alveg strax. Upp frá þessu ákvað ég að það væri kominn tími til að stofna júdódeild. Þessi strákur var í smávægilegum vandræðum og eftir stutta stund þá tók maður eftir því að hann hafði lagast mikið og var farinn að setja sér markmið og öll vandræði sem hann hafði verið að koma sér í virtust úr sögunni. Þá áttaði ég mig á því hvað þetta gæti haft mikil áhrif á krakka og þau geta í raun lært heilmargt út frá hugmyndafræðinni í júdóinu. Þú lærir að verja þig og taka á ósigri án þess að vilja hefna þín eða vera með leiðindi þrátt fyrir ósigur. Sjálfstraustið byggist upp hjá krökkum og maður sér þetta alveg greinilega. Krakkar sem lentu oft í árekstrum í skólanum hætta því nánast alveg eftir að hafa verið að æfa hjá okkur um tíma. Ef það kemur eitthvað upp á, hvort sem það er á æfingu eða annars staðar þá leysum við þau mál í sameiningu. Þannig að þetta nýtist mikið í daglega lífinu og styrkir krakkana mikið andlega,“ segir Guðmundur. „Ég á auðvelt með unglinga og finnst frábært að vinna með þeim. Þetta er því bara skemmtilegt,“ segir Guðmundur en blaðamaður leit við á æfingu í vikunni og þar var svo sannarlega líf í tuskunum.


Fjölskylda Guðmundar hefur komið að júdódeildinni og þegar hún var stofnuð þá fékk Guðmundur þau með sér í stjórn. Pabbi hans hefur hjálpað mikið og Sigurbjörg systir hans hefur verið afar dugleg í því að starfa fyrir deildina en hún er einnig í stjórn hjá Þríþrautardeild UMFN.


Deildin er rúmlega árs gömul og Guðmundur segir stígandann vera gríðarlegan, það sé í raun allt orðið fullt. Það eru rúmlega 100 manns að æfa og hann segist eiga erfitt með það að segja nei ef fleiri vilja koma. Hann segir vera lítið um afföll og það hafi í raun komið honum á óvart.


„Þetta er mjög fjölbreytt þjálfun. Það er ekki bara mætt á æfingar til þess að kljást. Þegar ég er t.d. með yngstu krakkana þá erum við í frisbee og boltaleikjum eða öðru sem þjálfar rúmskyn og fleira.“



Þurfa ekki að keppa

Aðspurður um keppnisþáttinn segist Guðmundur hafa sínar skoðanir á þeim þætti. „Ég er ekki svona afreks þenkjandi og því langar mig að koma til skila í gegnum júdódeildina. Ekki það að ég vilji ekki að fólk nái árangri hjá okkur, ef krakkarnir vilja ná árangri þá mun ég styðja þá sem það kjósa af heilum hug. Ég vil helst að hér sé starfandi júdódeild þar sem fullt af krökkum eru að æfa og fyrst og fremst sé gaman. Guðmundur vill ekki neyða alla til þess að keppa en oft er mikil pressa sem fylgir því að keppa fyrir framan fullt af fólki. „Ég held að 60% af krökkunum vilji bara mæta á æfingar og hafa gaman af þessu og ég ætla ekki að neyða neinn til þess að keppa ef viðkomandi kýs það.“


Eins og staðan er í dag þá segir Guðmundur að það sé erfitt að afreka mikið eins og í pottinn er búið varðandi húsnæðis- og þjálfaramál. Hann er nánast einn um þjálfunina en Helgi Rafn Guðmundsson sér um tvær fullorðinsæfingar í viku og Guðmundur segir muna mikið um það.


Það var stefnan hjá Guðmundi að rukka fyrir æfingar í upphafi. Hafði hann hugsað það þannig að hvatagreiðslur sem ætlaðar voru fyrir börn og unglinga frá Reykjanesbæ myndu sjá um gjöldin. „Ég sá fyrir mér að sá peningur færi í kaup á dýnum og í að leigja húsnæði og borga þjálfurum. En af því varð ekki. Við fengum æfingaaðstöðu í kaffistofunni í Reykjaneshöllinni en það er salur á efri hæðinni í því húsi.“ Þar hefur deildin 60 fermetra til umráða en Guðmundur segir það stundum vera ansi þröngt að vera með 20 orkumikla krakka á svo litlum fleti. „Það er sá stuðningur sem við höfum fengið frá bænum en maður hefur svo verið að fá styrki til kaupa á dýnum og slíku frá fyrirtækjum héðan og þaðan, oftar en ekki úr óvæntum áttum. Hann segir Njarðvíkinga og þá hjá lyftingadeildinni Massa hafa verið afar hjálpsama.




Skilningsrík fjölskylda

Guðmundur hefur nóg á sinni könnu og hann er að frá því snemma á morgnana og alveg fram á kvöld. Auk þess er hann í stjórn hjá Brasilísku Jui jitsu sambandi Íslands. „Það er alveg ótrúlegt að hún konan mín þoli þetta. Hún sér um allt saman, heimilið og börnin. Ég er svo heima um helgar, þegar engin mót eru í gangi. Það er svo bara spurning hvað konan er tilbúin að leyfa mér að vinna þetta launalaust lengi,“ segir Guðmundur í léttum dúr.



Hugmyndin er að setja upp æfingagjöld næsta haust en Guðmundur er búinn að setja allt í hendurnar á nýrri stjórn sem mun ákveða það. Deildin er sennilega stærsta júdódeild á landinu en Guðmundur segir það ekki vera alveg ljóst þar sem nýjar tölur liggi ekki fyrir.



Hann segir viðbrögð foreldra vera góð og margir séu ánægðir. Hann hefur fundið mikið fyrir því. Hann sjái uppskeruna og það séu ýmsir litlir hlutir sem hann taki eftir hjá krökkunum. „Maður sér kannski einstakling sem fór að gráta við minnstu snertingu og eftir nokkra mánuði þá er hann farinn að harka af sér.“ Líka gerist það að foreldrar komi til hans og þakki fyrir að barnið geti varið sig í skólanum ef svo ber við. Sumir krakkanna eru að sögn Guðmundar búnir að breytast mikið síðan þeir byrjuðu að æfa júdó og margir róast mjög mikið. Oftar en ekki eru þetta orkumikil börn og ýmislegt gengur á bæði á æfingum og í daglega lífinu.


„Það hefur verið sagt við mann að enginn virði það sem er ókeypis og krakkarnir mæti ekki reglulega. Að mínu mati er það fráleitt og krakkarnir mæta mjög vel. Það eru alltaf einhverjir sem mæta kannski illa, hvort sem þeir borga æfingagjöld eða ekki“.


Hann sér fyrir sér í framtíðinni að þá verði komið húsnæði þar sem hægt er að æfa um helgar. Þar væri í raun hægt að æfa fleiri bardagaíþróttir jafnt fyrir börn og fullorðna. Þú gætir borgað eitt æfingagjald og þú gætir æft júdó, box, jui jitsu eða teakwondo. „Minn draumur er að sjá samvinnu þessara félaga og þar gætirðu bara æft það sem þér finnst skemmtilegt, þú þarft ekkert að vera heimsmeistari,“ segir Guðmundar Stefán Gunnarsson, maður ársins á Suðurnesjum árið 2011.



Texti og myndir: Eyþór Sæmundsson / [email protected]