Þroskahjálp starfar í samfélagi sem hefur hjartað á réttum stað
– Röralagningamaðurinn gefur Þroskahjálp 600 þúsund krónur
Samtök eins og Þroskahjálp eru háð stuðningi samfélagsins á hverjum tíma. Á undaförnum árum hefur Þroskahjálp og Dósasel, sem er starfsstöð skjólstæðinga samtakanna, verið að byggja undir starfsemina.
„Við erum komin í góða aðstöðu á Hrannargötu á Vatnsnesi þar sem skrifstofa Þroskahjálpar er til húsa og Dósasel með starfsemi sína. Það hefur tekið á fyrir lítinn félagsskap að koma sér fyrir og gera sómasamlega aðstöðu fyrir starfsfólk okkar sem utan forstöðukonu og eins starfsmanns eru fatlaðir einstaklingar,“ segir Ásmundur Friðriksson, formaður Þroskahjálpar á Suðurnesjum.
Uppbygging húsnæðisins við Hrannargötu fékk víða stuðning og enn berst Þroskahjálp stuðningur. Fyrirtækið Röralagningamaðurinn í eigu Kristins Guðna Ragnarssonar og Sesselju Birgisdóttir sendi félaginu stuðning upp á 600.000 kr. á dögunum.
„Það kom skemmtilega á óvart símtal frá Kristni þar sem hann spurði hvar hann gæti lagt inn upphæðina en þau Sesselja vildu í þakklætisskyni fyrir gott liðið ár í pípulagningum styðja við bakið á Þroskahjálp og leggja þannig stuðning sinn í uppbygginu á húsnæði sem afi Sesselju byggði á sínum tíma,“ segir Ásmundur um gjöfina.
„Það er gott að vera með starfsemi af þessu tagi í samfélagi sem hefur hjartað á réttum stað. Þroskahjálp byggir afkomu sína á Dósaseli og starfsemin á velvilja íbúanna sem styðja við bakið á henni með því að leggja þar inn dósir og flöskur,“ sagði Ásmundur að lokum og vildi koma því á framfæri að stjórn Þroskahjálpar þakkar Kristni og Sesselju stuðninginn.