Þróaði hinn marg verðlaunaða Bríó
-Sturlaugur Jón Björnsson er bruggmeistari hjá Borg. -Fékk áhugann þegar hann var í tónlistarnámi í Boston, en þar er mikil gróska í bjórgerð.
„Þetta var aðallega forvitni um það hvernig hægt er að búa til drykk úr þessum hráefnum,“ segir Sturlaugur Jón Björnsson þegar hann er spurður hvaðan áhuginn á bruggi kom upphaflega. Sturlaugur starfar sem bruggmeistari hjá Borg brugghúsi og á heiðurinn af bjórnum Bríó, fyrsta bjór Borgar, en hann hefur unnið til fjölda verðlauna á heimsvísu.
Sturlaugur kemur frá Keflavík og má segja að hann hafi alist upp í Tónlistarskóla Reykjanesbæjar en Karen, móðir hans, hefur verið aðstoðarskólastjóri þar í fjölda ára og meðal annars stjórnað blásaradeildinni. Öll fjölskyldan er viðriðin tónlist á einhvern hátt en Sturlaugur er með BMus gráðu í hornleik og tónlistarkennslufræðum frá Tónlistarskólanum í Reykjavík og meistaragráðu í hornleik frá Boston University í Bandaríkjunum.
Sturlaugur hefur spilað með Sinfóníuhljómsveit Íslands, í leikhúsum og með Óperuhljómsveitinni ásamt því að kenna en þessa dagana hefur hann nokkuð hægt um sig í tónlistinni. „Þegar ég flutti til Boston í tónlistarnám kynntist ég þeirri uppsveiflu í bjórgerð sem hafði verið að þróast þar frá upphafi níunda áratugarins og heimabruggun. Þar komst ég yfir þessi grunnhráefni, sem á þeim tíma var erfitt að fá á Íslandi, til að fikta mig áfram með.“ Sturlaugur segist hafa haft áhuga á því hvernig bjór er búinn til frá því áður en hann byrjaði sjálfur að drekka.
„Mér tókst að klára tónlistarnámið þrátt fyrir að stór hluti af mínum tíma hafi farið í að „stúdera“ bjór og allar þær fjölmörgu samsetningar sem hægt er að mynda með þessum grunnhráefnum. Í kjölfarið fór ég í bruggaranám,“ segir Sturlaugur, en hann fór í American Brewers Guild skólann í Bandaríkjunum og lærði ölgerðarvísindi og -verkfræði. Aðspurður hver galdurinn sé þegar búa eigi til góðan og vel heppnaðan bjór segir Sturlaugur djöfulinn vera í smáatriðunum, eða „the Devil is in the detail“ eins og sagt er á ensku. „Ef galdur má kalla þá tel ég, eins og í flestu, að mestu máli skipti að hafa yfirgripsmikla þekkingu á öllum breytum og ferlum sem verið er að vinna með.“
Borg brugghús tók nýlega þátt í einni virtustu bjórkeppni í heimi, European Beer Star, og vann gull fyrir hinn taðreykta Surt nr. 30 í flokki sterkra, reyktra bjóra og brons fyrir Grétu í flokki Baltic Porter, en Gréta er „bragðmikill en sætur bjór þar sem súkkulaði, lakkrís og toffí mynda klassískt leiðarstef,“ að sögn Borgar. Einnig keppti Borg í pörunarkeppni í Osló þar sem bjór er paraður með mat. Tvö lið keppa á kvöldi í útsláttarkeppni og fór Borg taplaust í gegnum keppnina. „Þriggja rétta máltíð er borin fram og tvö brugghús keppast við að para einn af sínum bjórum með hverjum rétti. Hátt í 100 gestir dæma svo um hvor er betri með hverjum rétti og sigurvegari kvöldsins er sá sem vinnur fleiri paranir,“ útskýrir Sturlaugur.
Aðspurður út í taðreykta bjóra segir Sturlaugur þá aðferð þykja skrítna úti í heimi. Hann veit ekki til þess að malt hafi nokkurn tímann verið taðreykt fyrr en þeir fóru að gera það hjá Borg. „Sem áhugamaður um reyktan mat og drykk gekk ég með þá hugmynd í maganum nokkuð lengi að búa til taðreyktan bjór og náði ég því takmarki þegar við settum Fenri á markað sumarið 2014. Síðan þá höfum við notað taðreykt malt í Surt Nr. 30.“
Á döfinni hjá Sturlaugi eru þorrabjórarnir en nú vinnur hann að því að koma honum í flöskur. „Svo erum við nýbúnir að setja tvo samstarfsbjóra í flöskur, annars vegar Bleika Fílinn, sem er áramótabjór og var bruggaður í samstarfi við Gæðing, og svo Vínland, sem var bruggaður í samstarfi við kanadíska brugghúsið Four Winds. Annars er maður bara að reyna að njóta lífsins með fjölskyldunni,“ segir Sturlaugur að lokum.
Sturlaugur tekur hér á móti verðlaunum í European Beer Star keppninni. Eins og sjá má skartaði hann síðu og myndarlegu skeggi en hann segir flesta bruggara vera skeggjaða af einhverri ástæðu. Hann er þó búinn að raka það af í dag.