Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Þrjár söngkonur af Suðurnesjum í úrslitum Jólastjörnunnar
Úrslitaþáttur Jólastjörnunnar 2016 verður sýndur á Stöð 2 í kvöld. VF-mynd/dagnyhulda
Fimmtudagur 24. nóvember 2016 kl. 06:00

Þrjár söngkonur af Suðurnesjum í úrslitum Jólastjörnunnar

Þrjár ungar og hæfileikaríkar söngkonur af Suðurnesjum taka þátt í söngkeppninni Jólastjörnunni 2016 á Stöð 2. Þetta eru þær Guðrún Lilja Dagbjartsdóttir, 9 ára úr Grindavík, Perla Sóley Arinbjörnsdóttir, 16 ára úr Reykjanesbæ og Sesselja Ósk Stefánsdóttir, 10 ára úr Reykjanesbæ. Tæplega 200 ungir söngvarar skráðu sig til leiks í keppnina í ár og voru tólf bestu valdir til að taka þátt í úrslitunum. Undanfarna tvo fimmtudaga hafa verið sýndir þættir á Stöð 2 þar sem söngvararnir syngja fyrir dómnefnd sem skipuð er þeim Björgvini Halldórssyni, Jóhönnu Guðrúnu og Gissuri Páli. Úrslitaþátturinn verður sýndur í kvöld, fimmtudagskvöld. Allir söngvararnir í keppninni fá að koma fram á jólatónleikunum Jólagestir Björgvins sem fara fram í Laugardalshöll 10. desember.


Eignaðist marga vini
Sesselja Ósk komst einnig í úrslit í Jólastjörnunni í fyrra. Þá fengu þátttakendur einnig að syngja með á jólatónleikum Björgvins Halldórssonar svo hún er heldur betur reynslunni ríkari í ár. Sesselja segir það hafa verið mjög skemmtilega reynslu að vera með í bæði skiptin. „Það er svo gaman að hitta alla krakkana, syngja á sviðinu, sjá áhorfendurna og vera með.“ Hún hefur eignast marga vini í Jólastjörnunni og er búin að æfa sig vel síðan í keppninni í fyrra.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Sesselja syngur nær öllum stundum og æfir sig stundum heima með bróður sínum sem þá leikur undir á gítar. „Stundum hlusta ég á lög og syng með og syng með mömmu minni.“ Hún segir það hafa verið pínu stressandi að syngja á stóra sviðinu í Laugardalshöll í fyrra en að allt hafi gengið vel.


Syngur á hverjum degi
„Þetta var mjög gaman og gekk vel,“ segir Guðrún Lilja, sem söng lögin Make you feel my love og Everybody loves a lover í undanúrslitum keppninnar. Hún hefur lært á píanó og sótt nokkur söngnámskeið. Þrátt fyrir ungan aldur er Guðrún Lilja orðin nokkuð reynd söngkona og hefur komið fram opinberlega með pabba sínum, Dagbjarti Willardssyni. Skemmtilegast finnst þeim feðginum að syngja saman lagið Hallelujah eftir Leonard Cohen. Guðrún hefur alltaf haft gaman af því að syngja og syngur heima á hverjum degi.


Söngurinn er í hjartanu
Perla Sóley hefur sent inn myndbönd í keppnina síðan hún var tólf ára og varð mjög glöð að komast í úrslitin í ár. „Þetta eru svo flottir tónleikar og draumur fyrir stelpu sem elskar að syngja að fá að vera með svo ég er ótrúlega spennt að fá að taka þátt.“ Perla hefur sungið síðan hún man eftir sér og er nýbyrjuð að læra klassískan söng við Tónlistarskóla Reykjanesbæjar. Aðspurð hvort hún ætli að leggja sönginn fyrir sig í framtíðinni segir hún ljóst að hún muni alltaf verða syngjandi, hvort sem það verði inni á baðherbergi eða á stórum tónleikum. „Ég bara veit það því söngurinn er í hjartanu  mínu.“

Nánar verður fjallað um söngkonurnar í sjónvarpsþættinum Suðurnesjamagasíni sem sýndur verður á Hringbraut í kvöld klukkan 21:30. Þátturinn verður einnig aðgengilegur á vef Víkurfrétta, vf.is.
[email protected]