Þrjár og hálf milljón frá Skötumessu til góðra málefna
Nærri 400 manns mættu á elleftu Skötumessu að sumri sem haldið var í sal Gerðaskóla í Suðurnesjabæ í gærkvöldi. Þrjár og hálf milljón króna söfnuðust í þessari einni stærstu góðgerðarmálahátíð sem haldin er á Suðurnesjum.
Gestir komu víða að og nutu góðra veitinga á Þorláksmessu að sumri en það var að venju kæst skata, saltfiskur og plokkfiskur ásamt meðlæti við hæfi. Þá voru fjölbreytt skemmtiatriði, söngur og fjör og ræðumaður kvöldsins var Njarðvíkingurinn Örvar Þór Kristjánsson og fór hann á kostum.
Ásmundur Friðriksson, þingmaður og fyrrverandi bæjarstjóri í Garði er frumkvöðull Skötumessunar og heldur utan um þetta merka framtak ár hvert. Hann var í skýjunum með mætingu og þann mikla velvilja sem verkefnið nýtur. „Ég vil þakka öllum sem komu og einnig þeim mikla fjölda fólks og aðila sem hjálpa okkur að gera þetta að veruleika. Við styrkjum marga einstaklinga og aðila sem ýmist eiga á brattan að sækja eða eru veikir. Þá var ánægjulegt að fá Ásmund Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra sem veitti verkefninu 300 þús. Kr. styrk úr en notaði einnig tækifærið til að undirrita styrktarsamning við Fjölskylduhjálp Íslands.
„Þetta er magnað starf sem Skötumessan er að gera, ég hefði ekki trúað því og er ánægður með að hafa komið og orðið vitni að því,“ sagði ráðherra m.a. í stuttri ræðu á Skötumessunni.
Með fréttinni er myndasafn frá kvöldinu.