Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Þrjár dansmeyjar frá Suðurnesjum í nýrri bíómynd
Aðalbjörg, Halla og Freyja
Thelma Hrund Hermannsdóttir
Thelma Hrund Hermannsdóttir skrifar
föstudaginn 30. september 2022 kl. 07:40

Þrjár dansmeyjar frá Suðurnesjum í nýrri bíómynd

Þrjá dansmeyjar úr Reykjanesbæ leika í íslensku bíómyndinni Abbababb! eftir Nönnu Kristínu Magnúsdóttur en hún var frumsýnd í Sambíóunum Keflavík nýlega. Dansmeyjarnar Halla Björk Guðjónsdóttir, Freyja Marý Davíðsdóttir og Aðalbjörg Ósk Stefánsdóttir segja að þetta hafi verið draumur og mjög skemmtilegt að fá tækifæri að leika í myndinni þó tökudagarnir hafi verið langir.

Myndin fjallar í stuttu máli um Hönnu og vini hennar í hljómsveitinni Rauðu hauskúpunni en þau uppgötva að óprúttnir aðilar ætla að sprengja upp skólann á lokaballinu og ætla að reyna að ná sökudólgnum.

„Þú ert að fara að sjá mikið diskó, pönkara og þrjá vini sem eru að rannsaka mál,“ segir Halla aðspurð hverju fólk má búast við í myndinni. „Þetta er spennandi mynd, mikið af lögum og stuði og mikið að gerast í henni,“ bætir Aðalbjörg við. 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Stelpurnar fóru í prufur fyrir myndina og fengu allar hlutverk, Halla sem lítil sterk stelpa sem má sjá glíma í myndinni, Freyja í hlutverki Eyju skíðaskvís og Aðalbjörg sem persónan Alla diskó. Minnstu mátti þó muna að Aðalbjörg hefði leikið aðalpersónuna í myndinni. „Ég fór í nokkrar prufur, í einni prufunni var ég beðin um að koma í prufur fyrir Hönnu sem er aðalhlutverkið. Ég komst í lokaúrtakið þar, við vorum þá bara nokkrar eftir en svo fékk ég hlutverkið Öllu diskó,“ segir Aðalbjörg.

Halla í auglýsingu fyrir myndina Abbababb!

Hvernig komust þið að því að þið hefðuð fengið hlutverk í myndinni?

„Það var svo skemmtilegt, systir mín skrifaði á blöð og bjó til ratleik fyrir mig og það endaði á því að á síðasta blaðinu stóð „þú komst inn“, ég varð þvílíkt spennt,“ segir Halla. „Ég var bara inni í stofu heima og mamma sagði mér þessar fréttir, ég var auðvitað mjög til,“ segir Aðalbjörg. „Það var hringt í pabba. Þessar fréttir komu 2021 þegar Covid var í gangi og ég var nýbúin að losna úr sóttkví. Pabbi kallar á mig og ég var ótrúlega þreytt og svekkt því ég hélt ég væri að lenda aftur í sóttkví. Þá segir hann „viltu vera með í Abbababb?“ og ég svaraði auðvitað játandi,“ segir Freyja. 

Freyja dansaði meðal annars með vinkonu sinni, Sólrúnu, á heimsmeistaramótinu í dansi. Mynd: Dance World Cup

Hvernig var ferlið?

„Þetta var gaman,“ segir Halla. Freyja og Aðalbjörg taka undir með henni. „En líka svolítið krefjandi, þetta voru langir tökudagar. Þetta voru örugglega átta eða níu klukkutímar á dag,“ segir Freyja og Aðalbjörg bætir við: „Og þar sem þetta var í Covid þá þurftum við alltaf að hafa grímur þegar við vorum ekki í mynd.“

Halla sýndi mikil tilþrif í „solo“ atriði sínu á heimsmeistaramótinu. Mynd: Dance World Cup

Krefjandi tímabil fyrir heimsmeistaramót

Þær Halla, Freyja og Aðalbjörg æfa dans hjá DansKompaní og kepptu allar á heimsmeistaramótinu í dansi í sumar. Aðspurðar hvernig þeim hafi gengið að æfa sig fyrir mótið á meðan tökum stóð segir Freyja: „Það var svolítið erfitt, þetta var krefjandi tímabil með löngum æfingum“ og Aðalbjörg bætir við: Það kom alveg fyrir að við þurftum að sleppa æfingum til að mæta í tökur og svoleiðis.“ 

Þá segja þær að æfingar þeirra í DansKompaní hafi hjálpað þeim að vissu leyti að fá hlutverk í myndinni. „Það var góður undirbúningur að vera í svona umhverfi eins og DansKompaní,“ segir Freyja.

Aðalbjörg söng og dansaði á heimsmeistaramótinu í dansi. Mynd: Dance World Cup

Hvernig var að sjá sig sjálfa á skjánum?

„Ég fór stundum að hlæja,“ segir Halla og Freyja bætir við: „Já hún var svolítið vandræðaleg. Þetta var mjög skrítið, þetta var bara svo stórt eitthvað, við sátum eiginlega fremst á frumsýningunni og við vorum að horfa upp á stóra mynd af okkur.“ 

„Það var mjög skrítið en einhverja af tökudögunum var ég með eitthvað fyrir andlitinu og ég er þannig helminginn af myndinni og það sést ekki að þetta sé ég,“ segir Aðalbjörg hlæjandi. Aðspurðar hvort leiklist sé eitthvað sem þær vilja gera að atvinnu svara þær allar játandi. „Það væri mjög skemmtilegt og algjör draumur,“ segir Aðalbjörg.

Myndina Abbababb! má nú sjá í Sambíóum Keflavík sem og öllum helstu kvikmyndahúsum landsins.