Þriðja systirin sem dúxar í FS
- samræður á heimilinu á latínu
Garðmærin Bergrún Ásbjörnsdóttir sópaði að sér verðlaunum við síðustu brautskráningu Fjölbrautaskóla Suðurnesja sem fór fram skömmu fyrir jól. Bergrún sem verður tvítug í febrúar var með 9,57 í meðaleinkunn en hún var einungis með níur (21 stk.) og tíur (36 stk.) á meðan skólaganga hennar í FS stóð yfir. Bergrún á ekki langt að sækja námshæfileikana en báðar eldri systur hennar dúxuðu í FS þegar þær útskrifuðust.
Enginn metingur milli systra
Eldri systurnar Birna og Björg sneru sér báðar að læknisnámi, önnur er útskrifuð en hin á öðru ári. „Ég gæti alveg hugsað mér að verða læknir. Ég tel að það sé krefjandi og gefandi starf. Þegar við systur hittumst þá er ósjaldan talað á latínu um hina og þessa vöðva og sinar. Kannski verð ég að skella mér í læknisfræði til þess að geta tekið þátt í samræðunum,“ segir Bergrún og hlær. Hún segir alls enga pressu hafa verið á sér frá fjölskyldunni þrátt fyrir árangur systra sinna. „Við erum allar mjög nánar og góðar systur og það hefur aldrei verið neinn metingur eða samkeppni okkar á milli. Èg var samt oft spurð þegar líða fór að útskrift hvort ég myndi ekki dúxa eins og þær, þannig að fólk var greinilega að pæla í þessu, en við heima pældum ekkert í þessu,“ segir hún.
FS er frábær skóli
Eldri systurnar létu vel af FS og því varð skólinn fyrir valinu hjá Bergrúnu. „Mér finnst FS vera frábær skóli. Ég viðurkenni að í grunnskóla langaði mig mest að fara í framhaldsskóla í Reykjavík, í MR, Verzló eða MH, sérstaklega til þess að komast í nýtt umhverfi og til þess að kynnast nýju fólki. Svo heyrði ég bara góða hluti um FS og báðar systur mínar voru mjög ánægðar með skólann. Ég er sátt með val mitt, í FS eru frábærir kennarar og ég kynntist fullt af nýju yndislegu fólki.“
Bergrún, sem er nýkomin til landsins úr útskriftarferð til Mexíkó, segist ekki hafa hugmynd um hvað taki við hjá henni á næstunni. Hún sé ekkert að stressa sig um of. „Ég ætla bara að hugsa mig vel um varðandi nám sem ég vil fara í. Mér finnst skemmtilegt í líffræði, efnafræði og lífeðlisfræði. Þannig að ég býst við að fara í eitthvað tengt því, t.d. læknisfræði, líffræði eða lífefna - og sameindafræði.“ Bergrúnu langar að finna sér starfsvettvang í framtíðinni þar sem hún getur látið gott af sér leiða. „Frá því að ég var lítil hefur draumurinn verið sá að finna vinnu þar sem ég get hjálpað öðrum. Ég held að það sé mjög gefandi að starfa sem læknir. Einnig tel ég að skemmtilegt sé að vinna í Íslenskri erfðagreiningu.“
Foreldrar Bergrúnar eru Ásbjörn Jónsson lögfræðingur og Auður Vilhelmsdóttir kennari í Gerðaskóla. Á myndinni eru einnig systur hennar, Birna og Björg, við útskriftina.
Gunnlaugur stærðfræðikennari algjör fagmaður
Dúxinn segist hafa verið mjög virk í félagslífi FS. Hún byrjaði sem busi í markaðsnefnd og síðar íþróttanefnd NFS. „Ég var mjög dugleg að fara á böllin og aðra viðburði NFS og fannst það æðislegt, ég kynntist líka fullt af frábæru fólki.“ Bergrún var í FS í 3½ ár. Henni þótti það hæfilega langur tími. „Ég tók 19 til 22 einingar á önn fyrstu þrjú árin þannig að síðasta önnin var mjög róleg og skemmtileg,“ segir Bergrún sem þá var með unga stelpu í liðveislu samhliða námi. Margir góðir kennarar eru í FS að sögn Bergrúnar. Þrátt fyrir að erfitt sé að gera upp á milli þeirra þá verður hún að viðurkenna að Gunnlaugur stærðfræðikennari kom mikið við sögu á hennar skólaferli. „Það eru margir frábærir kennarar í FS en ég held að Gunnlaugur stærðfræðikennari sé í uppáhaldi, kannski af því hann kenndi mér flestu áfangana,“ segir Bergrún en stærðfræði var í miklu uppáhaldi hjá henni í FS. „Gunnlaugur er líka algjör fagmaður, mikill snillingur sem gerir námið mjög skemmtilegt.“
„Frá því að ég var lítil hefur draumurinn verið sá að finna vinnu þar sem ég get hjálpað öðrum“
Bergrún uppgötvaði ung að hún vildi alltaf gera sitt besta í öllu því sem hún tæki sér fyrir hendur. „Það fannst mér gott mottó, ef maður gerir sitt besta þá uppsker maður vel,“ segir hún enda gekk henni strax vel í grunnskóla. Bergrún á sér ýmis áhugamál en hún hefur mjög gaman af íþróttum og stundaði hún m.a. fótbolta í mörg ár. Hún lærði á píanó um nokkurra ára skeið og hefur mikinn áhuga á tísku. „Ég eyði miklum tíma í að skoða tískublogg á netinu og tískublöð. Ég fór einmitt í fatahönnunaráfanga á seinustu önninni í FS og fannst það virkilega gaman.“