Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Þreyttist á „níu til fimm“ og skráði sig í flugnám
Laugardagur 5. júní 2021 kl. 07:54

Þreyttist á „níu til fimm“ og skráði sig í flugnám

Stuttu eftir að hann útskrifaðist úr námi í viðskiptafræði frá University of West Florida fann Marteinn Urbancic að „níu til fimm“ skrifstofulífið var ekki fyrir sig og ákvað að skipta um stefnu. Marteinn skráði sig í atvinnuflugnám við Flugakademíu Keilis, sem síðar sameinaðist Flugskóla Íslands og saman mynda skólarnir Flugakademíu Íslands, einn öflugasta flugskóla Norðurlandanna.

„Ég hafði haft augastað á fluginu í nokkur ár en hafði alltaf haldið áfram í viðskiptafræðinni þar sem það gekk vel að læra þrátt fyrir að hafa fundist námið óspennandi. Ég ákvað því að breyta til og læra eitthvað sem mér þætti spennandi og skráði mig í flugnám. Ég féll strax fyrir fluginu eftir fyrsta kynningarfund og sé alls ekki eftir þeirri ákvörðun að hafa breytt um stefnu,“ segir Marteinn.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Fékk skírteinið í hendurnar á fordæmalausum degi

Marteinn byrjaði í flugnáminu í nóvember 2017 og útskrifaðist úr bóklega hlutanum í maí 2019. Við tók verklegur hluti námsins sem lauk í mars 2020 og fékk hann því atvinnuflugmannsskírteinið afhent sama dag og fyrsta samkomubannið var sett á hérlendis.

Þrátt fyrir óheppilega tímasetningu hefur Marteinn nýtt tímann vel undanfarið ár. Hann skráði sig í flugklúbb, tók að safna flugtímum og horfir bjartsýnn til framtíðar. „Flugið býður upp á svo margt, ekki bara á Íslandi. Það er hægt að ráða sig í störf út um allan heim og eru margir spennandi staðir í boði til að fá reynslu,“ segir Marteinn sem verður klár þegar að kallið kemur og vonast til að vera kominn á Boeing 737 Max vélar Icelandair innan þriggja ára.

Eftirminnilegasta flugferðin hluti af náminu

Marteinn segir eftirminnilegasta flug sitt hafa verið 300 sjómílna soloflug, sem er hluti af náminu hjá Flugakademíu Íslands. Þar skipuleggur flugneminn langt flug og flýgur það einn.

„Mitt flug var á fallegum vetrardegi þar sem allt var í snjó á jörðinni en frábært flugveður, heiðskírt og enginn vindur. Ég flaug á Rif sem er á Snæfellsnesi, skoðaði Kirkjufell sem er fallegasta fjall Íslands. Þaðan á Sauðárkrók og svo hátt og langt aðflug til Vestmannaeyja, þar er flottasti flugvöllur landsins og mjög gaman að lenda þar. Frábær dagur og geggjað útsýni.“

Marteinn mælir eindregið með því að skrá sig í flugnám hjá Flugakademíu Íslands þrátt fyrir núverandi ástand í flugheiminum sem skapast hefur sökum Covid-19.

„Þessi bransi er alltaf upp og niður. Það er sagt að best sé að læra í niðursveiflu því þá kemur þú beint inn í uppsveifluna við útskrift og það vantar alltaf góða flugmenn.“

Vöntun á flugmönnum í kortunum

Nýleg rannsókn Oliver Wyman, sem fjallað var um í CNN Business, spáir mikilli vöntun á flugmönnum á komandi árum og er talið að flugfélög fari að finna fyrir yfirvofandi vöntun strax á næsta ári. Árið 2025 er talið að vöntun verði á 34 þúsund flugmönnum og gangi ferðatakmarkanir yfir hraðar en núverandi spár gefa til kynna má áætla að vöntunin verði nær 50 þúsund flugmönnum.

Að auki hafa skellir í ferðamannaiðnaðinum löngum fælt einstaklinga frá flugnámi og mun það líklega ýta enn frekar undir vöntunina. Því má segja að tíminn sé núna til þess að láta drauminn rætast og skella sér í flugnám.

Opið er fyrir umsóknir í flugnám við Flugakademíu Íslands, áhugasamir geta kynnt sér námið á www.flugakademia.is