Þreyta og verkir á braut
Í lítilli nuddstofu á neðri hæð Hótel Keflavíkur, í Lífsstíl hefur Birgitta Jónsdóttir Klasen aðstöðu fyrir svæðameðferð sína. Hún er búin að vera á Íslandi í u.þ.b. ár og er nú þegar búin að eignast nokkra fastakúnna í meðferðina hjá sér. Svæðameðferðin sem Birgitta býður upp á er ólík öllum öðrum og tilfinningin við að liggja á bekknum er ólýsanleg. Þreyta og verkir líða úr líkamanum á meðan Birgitta þrýstir á svæðin í ilinni. Í lok tímans gefur Birgitta viðskiptavininum ráð um hvernig best sé að fara fram úr á morgnanna og hvernig hægt er að minnka þungann á bakinu. „Flestir sem koma til mína koma aftur“, segir Birgitta. „Þetta á ekki við alla en ég hef fengið sjúklinga með brjósklos sem hafa fundið mun eftir fyrsta tímann.“ Birgitta vinnur sjálfstætt í Lífsstíl frá mánudegi til laugardags fyrir utan miðvikudaga þegar hún leyfir Reykvíkingum að njóta listarinnar á Baðhúsi Lindu P. Birgitta er dóttir þýskrar móður og íslensks föðurs og segir sjálf að loksins sé hún komin heim. Hún hefur lært náttúrulækningar, svæðameðferð, sálfræðilega ráðgjöf og meðferð auk þess sem hún hefur tekið námskeið í kvennaráðgjöf, reiki og Zilgrei-meðferð. „Ég hef mikinn áhuga á því að kenna Zilgrei meðferð á Íslandi en það er meðferð í öndun og líkamsstöðu og kenna fólki að hjálpa sér sjálft.“ Birgitta segir mikinn mun á Íslendingum og Þjóðverjum og öðrum þjóðum sem hún hefur kynnst í gegn um tíðina. „Íslendingar vinna mjög mikið og það er erfitt að komast að þeim. En þeir eru með hjartað á réttum stað“, segir Birgitta. Meðferðin sem hún býður upp á hentar því Íslendingum mjög vel en hún virkar vel á stress og eru dæmi um að fólk sem þjáðst hefur af þunglyndi er tilbúið að takast á við daglegt líf eftir nokkra tíma í meðferðinni. „Ég reyni að komast að því hvort það sem hrjáir fólk er líkamlegt eða andlegt og vinn síðan út frá því.“ Ef svæðameðferð er ekki nóg fyrir viðkomandi aðila beitir Birgitta öðrum aðferðum svo sem reikimeðferð eða þrýstimeðferð. Hægt er að panta tími hjá Birgittu með því að hringja í síma 421-6158 og skilja eftir skilaboð á símsvara.