Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Þrettán réttir á boðstólum á aðfangadag
Karolina við jólatréð í Skrúðgarðinum. VF-mynd: Sólborg
Laugardagur 16. desember 2017 kl. 06:00

Þrettán réttir á boðstólum á aðfangadag

Karolina Krawczuk hefur búið á Íslandi í ellefu ár en fjölskyldan hennar fylgir hefðum heimalandsins yfir hátíðirnar

„Við megum ekki borða kjöt á aðfangadag. Við erum með þrettán rétti á borðinu og þurfum að smakka alla þessa rétti,“ segir Karolina Krawczuk um pólskar hefðir á jólunum hjá fjölskyldunni sinni, en stórfjölskyldan ver jólunum saman.

Aðspurð hvernig mat þau borði á aðfangadag nefnir hún meðal annars steikta ýsu og einhvers konar „kálrétt“. „Þetta er allt gott, nema síldin, ég borða hana aldrei, en aðrir í fjölskyldunni gera það.“ Einnig er boðið upp á einhvers konar jarðarberjagraut og þá er heldur ekki leyfilegt að neyta áfengis á aðfangadag.
Áður en fjölskyldan borðar segja fjölskyldumeðlimir við hvert annað hvers vegna þau séu þakklát fyrir hvert annað. „Elsta manneskjan á borðinu fer svo með bæn og þá megum við borða.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Á hverju ári stillir fjölskyldan upp auka diskasetti á borðinu ef ske kynni að óvæntur gestur banki upp á. „Í gamla daga var víst labbað á milli þorpanna og þegar veðrið var slæmt var bankað. Ef ske kynni að einhver banki, þá erum við með laust diskasett á borðinu og eigum að segja já. En það er enginn að fara að banka á Íslandi.“

Karolina segist ekki mjög trúuð, en þetta séu hefðir sem hún var alin upp við. „Amma býr hér og hún er geðveikt trúuð. Hún fylgir þessum reglum ennþá.“

Eftir matinn fer Karolina, þar sem hún er næst elst af ungmennunum, fram með börnin og þau horfa á myndbönd saman. Á meðan mætir jólasveinninn á heimilið og setur allar gjafirnar undir tréð.
Á jóladag hittist fjölskyldan svo aftur nýtur þess að vera saman. „Það er bara eins og matarboð. Við spilum saman og megum borða það sem við viljum, þá eru engar reglur varðandi matinn.“ Eftir það horfir fjölskylda Karolinu á jólamyndina Home Alone, en það er orðin árleg hefð.

[email protected]