Þrettán ára listamaður

- Benedikt Máni Möller sýnir tréskurðarverk sín á Bókasafni Reykjanesbæjar.

Sýning á tréskurðarverkum hins þrettán ára gamla Benedikts Mána stendur nú yfir í Bókasafni Reykjanesbæjar, en Benedikt hefur einungis fengist við tréskurð í eitt ár og hefur náð ótrúlegri færni stuttum tíma. Benedikt Máni er einhverfur en hann segir það að skera út eitt það skemmtilegasta sem hann geri og er það hans helsta áhugamál um þessar mundir. Víkurfréttir hittu Benedikt á Bókasafni Reykjanesbæjar og spurðu hann aðeins út í sýninguna og tréskurðinn.

Gleymir stund og stað þegar hann tálgar
Benedikt tálgar meðal annars hnífa, dýr og andlit. Hann sýnir muni sem hann hefur tálgað frá byrjun en það er augljóst að það er listamaður hér á ferð og er handverk hans afar fallegt og vandað. „Pabbi gaf mér fyrsta hnífinn minn til að tálga með og þá var ekki aftur snúið. Þetta er það skemmtilegasta sem ég geri og eftir skóla fer ég heim þar sem að ég er með sér aðstöðu og byrja að tálga. Ég á það meira að segja til að gleyma að borða, mér finnst þetta svo skemmtilegt.“

Benedikt á vinnustofunni að tálga.

Áhuginn kviknaði eftir að hann horfði á jólamynd
Benedikt fékk áhuga á tálgun eftir að hann horfði á kvikmynd sem heitir „Christmas Story“ en í henni er strákur sem er að tálga, þá langaði Benedikt í hníf eins og hann var með í myndinni og þar kviknaði áhuginn. „Ég er orðinn töluvert betri að tálga núna heldur en þegar ég byrjaði, ég er bestur í því að skera út andlit með skegg og er ágætur að gera hnífa eða er bara nokkuð góður í því.“ Viðurinn sem Benedikt notar er náttúruviður sem hann finnur úti en hann segir að það sé besti viðurinn til að tálga. „Mér finnst best að nota við sem er þéttur í sér, Ösp er frábært að tálga en það er eins og ég sé að skræla kartöflu þegar ég tálga hana.“

Benedikt að safna við fyrir tálgun.

Ekta verkfæri fyrir ekta listamann
Verkfærin eru mjög mikilvæg þegar kemur að tálgun og það skiptir miklu máli að fara vel með þau og nota þau rétt. „Ég elska að fara í Handverksbúðina, það er draumastaðurinn minn en þar fæ ég allt sem ég þarf að nota til að tálga. Núna er ég kominn með verkfærasett fyrir ekta listamann og ég fer með þau eins og gull, ég gerði það ekki hér áður en núna fer ég mjög vel með öll þau verkfæri sem ég á því þau eiga það til að ryðga.“

Á vinnustofunni.

Þegar Benedikt er spurður hvers vegna hann er með sýningu á Bókasafni Reykjanesbæjar segir hann frá því að einn daginn hafi hann verið að leita að bókum um tálgun og þá hafi hann verið spurður hvort hann vildi ekki setja upp sýningu á safninu. Sýningin stendur yfir í fimm vikur eða fram í byrjun mars og hægt er að skoða fígúrur og karla sem Benedikt hefur tálgað á síðastliðnu ári en það er óhætt að segja að Benedikt eigi framtíðina fyrir sér og í honum búi sannur listamaður.