Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Þrennir burtfarartónleikar
Þar var fjöldi tónlistarmanna sem steig á svið með útskriftarnemunum, flestir úr röðum kennara skólans. VF/JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
mánudaginn 29. maí 2023 kl. 06:21

Þrennir burtfarartónleikar

Það er ekki á hverjum degi að tónlistarnemandi ljúki framhaldsprófi úr sínu tónlistarnámi – hvað þá þrír á einu bretti. Sá merki atburður átti sér stað fyrr í þessum mánuði að þrír nemendur í Tónlistarskóla Reykjanesbæjar héldu burtfarartónleika og eru þá komnir á háskólastig í náminu. Tónleikarnir voru hver öðrum skemmtilegri og kom fjöldi tónlistarmann fram á þeim með nemendunum.

Tónlistarmennirnir Karl Snorri Einarsson (rafbassi), Jón Böðvarsson (saxófónn) og Magnús Már Newman (slagverk) tóku allir framhaldspróf á árinu og eru burtfarartónleikar hluti prófsins. Leið þeirra í gegnum tónlistarnámið er ólíkt en allir eiga þeir það sameiginlegt að hafa allir byrjað í tónlistarnámi átta ára gamlir.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024
Haraldur Árni Haraldsson, skólastjóri Tónlistarskóla Reykjanesbæjar, rakti námsferil útskriftarnemendanna við tilefnið og óskaði þeim til hamingju með áfangann.

Bassaleikarinn Karl Snorri.

Karl byrjaði í málmblástursdeild hjá Karen Sturlaugsson í Tónlistarskóla Keflavíkur árið 1990 og lærði fyrst á Es-horn, áður en hann færði sig yfir á franskt horn. Að lokum varð trompet ofan á hjá Karli og það varð hans aðalhljóðfæri fram á unglingsár. Hann lék í lúðrasveit og léttsveit skólans og lærði um tíma á píanó samhliða trompetnáminu. Karl gerði hlé á náminu til ársins 2007 er hann hóf nám að nýju á trompet við Tónlistarskóla Reykjanesbæjar og lauk miðprófi.

Þrátt fyrir hlé á tónlistarnámi til að sinna börnum og mennta sig í rafeindavirkjun var tónlistin aldrei langt undan. Hann tók til við sjálfsnám á rafbassa, lék í hljómsveitum og hefur gefið út eigið efni.

Árið 2017 lá svo leiðin aftur í Tónlistarskóla Reykjanesbæjar og stefndi hugur hans þá á klassískan kontrabassa og var Páll Hannesson kennari hans. Á þessum árum fæddist sú hugmynd að hefja einnig formlegt nám á rafbassa í skólanum, samhliða kontrabassanum, til að dýpka og auka við kunnáttu sína í rafbassaleik. Núverandi kennari Karls á rafbassa er Birgir Steinn Theodórsson.

Birgir Steinn Theodórsson, bassakennari Karls Snorra, lék undir á tónleikum Jóns Böðvarssonar.
Jón blæs hér í tenórsaxófóninn sem aðalhljóðfæri hans. Með honum spilar saxófónkennarinn Albert Sölvi Óskarsson.

Jón byrjaði að læra á klarinett hjá Geirþrúði Bogadóttur um leið og hann hafði aldur til að hefja hljóðfæranám í tónlistarskólanum. Í áttunda bekk byrjaði hann jafnframt að læra á saxófón sem hefur verið hans aðalhljóðfæri síðan. Saxófónkennari Jóns er Albert Sölvi Óskarsson.

Jón spilaði á klarinett í gegnum allar lúðrasveitir tónlistarskólans, eftir að hann hóf nám á saxófón spilaði Jón einnig í léttsveitum skólans og síðustu ár hefur hann verið hluti af Stórsveit Suðurnesja. Þá tók Jón einnig þátt í uppbyggingu bjöllukórs Tónlistarskóla Reykjanesbæjar og var einn af þeim sem urðu þess heiðurs aðnjótandi að spila í Carnegie Hall og á Norður og niður hátíð hljómsveitarinnar Sigur Rósar í Hörpu.

Utan tónlistarskólans hefur Jón spilað í ýmsum hljómsveitum og tekið þátt í tveimur sýningum sem settar voru upp í Frumleikhúsinu í Reykjanesbæ, Mystery boy eftir Smára Guðmundsson og uppsetningu FS í samvinnu við Leikfélag Keflavíkur á Grease.

Í dag spilar Jón í hljómsveitinni Midnight Librarian sem hefur komið víðsvegar fram og gefið út eina plötu, From Birth til Breakfast (2021), sem var valin plata vikunnar á Rás 2, auk nokkurra smáskífa.

Albert Sölvi Óskarsson, saxófónkennari Jóns, og Þorvaldur Halldórsson, slagverkskennari Magnúsar, komu fram á tónleikum Jóns. Albert Sölvi lék einnig á tónleikum Karls en Þorvaldur gerði gott betur og spilaði með öllum útskriftarnemunum.

Magnús Már Newman útskrifast úr tónlistarskólanum og er jafnframt fyrstur til að útskrifast sem stúdent af nýstofnaðri tónlistarlínu á listasviði FS núna í vor.

Magnús Már hóf átta ára gamall nám í slagverksleik hjá Þorvaldi Halldórssyni í Tónlistarskóla Reykjanesbæjar en hann var mun yngri þegar það varð ljóst að hann hefði mikinn áhuga á alls kyns áslætti. Hann var sífellt að tromma á borð og veggi á leikskólaárunum. Þegar hann var fimm ára eignaðist hann fyrsta trommusettið sitt og þá var ekki aftur snúið og ekki hjá því komist að senda hann í slagverksnám. Magnús eignaðist síðan gott trommusett árið 2014 en það var Emil Þorri Emilsson slagverksleikari sem hjálpaði til við kaupin á því. Emil Þorri kenndi Magnúsi skólaárið 2013–2014 þegar Þorvaldur fór erlendis til áframhaldandi náms slagverksleik. 

Þorvaldur hefur verið helsta fyrirmynd og kennari Magnúsar og fylgir honum nú síðustu skrefin til framhaldsprófs og tónleika.

Þorvaldur og Magnús spiluðu saman verk á sneriltrommur.

Magnús Már hefur verið í lúðrasveitum Tónlistarskóla Reykjanesbæjar frá upphafi námsins og lék með léttsveit skólans árin 2017 til 2019 og spilaði með henni á hinum árlega Stórsveitadegi í Hörpu þrjú ár í röð. Þá var hann frá 2019 til 2023 í bjöllukórnum en með honum hefur hann m.a. komið fram á jólatónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands og farið tvisvar til Bandaríkjanna á bjöllukóramót. 

Árið 2018 fékk Magnús boð um að spila með Ungfóníunni þar sem hann lék á bassatrommu í verkinu Carmina Burana eftir Carl Orff á tónleikum í Langholtskirkju undir stjórn Gunnsteins Ólafssonar. Hann sá um slagverksleik í Fiðlaranum á þakinu í leikstjórn Jóhanns Smára Sævarssonar og tónlistarstjórn Karenar Sturlaugsson en Fiðlarinn var settur upp af Óperufélaginu Norðurópi og Tónlistarskóla Reykjanesbæjar í tilefni af tuttugu ára afmæli beggja haustið 2019. Magnús lék svo á pákur í flutningi á Requiem eftir W. A. Mozart árið 2022 og á slagverk í flutningi á Requiem eftir Verdi fyrr á þessu ári en bæði þessi verkefni voru samstarfsverkefni Norðuróps og Tónlistarskólans. 

Magnús hefur tvisvar spilað með Ungsveit Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Fyrst árið 2021 þegar flutt var Sinfónía nr. 2 í D dúr eftir Jean Sibelius og svo 2022 er Sinfónía nr. 2 í e moll eftir Sergei Rachmaninoff var flutt. Magnús lék á slagverk á Nýárstónleikum Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands í Hofi, Akureyri í janúar síðastliðnum og mun svo enn á ný leika með Ungsveit Sinfóníuhljómsveitar Íslands við flutning Draumasinfóníunnar eftir Hector Berlioz í september á þessu ári.

Magnús hefur verið trommari hljómsveitarinnar Demo síðan 2019 en hljómsveitin hefur m.a. komið fram á 17. júní hátíðarhöldum í Reykjanesbæ og á Ljósanótt, á írskum dögum á Akranesi, á pólsku hátíðinni í Reykjanesbæ og fleiri viðburðum. Árið 2021 tók hljómsveitin þátt í Músíktilraunum. Í fyrrasumar gaf Demo út plötu sem heitir Neistar og var hún plata vikunnar á Rás 2.

Magnús er trommari hljómsveitarinnar Demó.

Að neðan er myndasafn Jóhanns Páls Kristbjörnssonar, ljósmyndara Víkurfrétta, og myndskeið frá tónleikunum í spilaranum.

Burtfarartónleikar frá Tónlistarskóla Reykjanesbæjar í maí 2023