Þótti best að fá sem mestan pening
„Ég man að á fermingardaginn var maður spenntur og smá kvíðinn. Aðalmálið var að klikka ekki á trúarjátningunni og ritningargreininni sinni við athöfnina í kirkjunni. Ég valdi mér ritningargreinina; „Það sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra. Ég þuldi hana yfir í huganum örugglega milljón sinnum, klikkaði samt oft á, gjöri yður og fipaðist eitthvað í trúarjátningunni í kirkjunni og man að ég svitnaði í lófunum af stressi en maður lifði þetta af. Það var mikill léttir þegar athöfninni var lokið,“ segir Guðmundur Már Kristinsson sem fermdist í Keflavík árið 1976.
Hagaði sér vel því presturinn var frændi minn
„Fermingarfræðslan var bara skemmtileg. Séra Ólafur Oddur heitinn hafði nýtekið við sem prestur í Keflavík og við vorum fyrstu fermingarbörnin hans árið 1976. Auðvitað þurftum við að læra ýmislegt utanbókar en hann lagði mikið upp úr samtali og hann var að reyna að fá okkur til að tjá okkur um trúna og guð í daglegu lífi. Ég man bara að ég vandaði mig sérstaklega vel að haga mér vel í fermingarfræðslunni þar sem séra Ólafur Oddur var frændi minn. Ég þurfti að hafa smá fyrir því að vera ekki með stæla og framíköll eins og vanalega í skólanum.“
Heimalagaðar kræsingar
Guðmundur segir að ekki hafi verið hægt að halda veisluna heima eins og venjan var á þeim tíma, því sex manna fjölskyldan bjó í bílskúrnum í nýja einbýlishúsinu á Miðgarði 11 í Keflavík. „Það tók nokkur ár að innrétta og flytja inn í húsið. Fermingarveislan var því haldin í veislusal uppi á Víkinni að Hafnargötu 80, í sama húsi og Dropinn málningavöruverslun, sem fjölskylda mín rak. Mamma sá að mestu leyti um veisluborðið, sem var drekkhlaðið af heimalöguðum kræsingum. Það voru brauðtertur, alvöru hnallþórurjómatertur, marengs„gúmmelaði“-tertur, pönnukökur og uppáhaldið mitt, flatkökur með hangikjöti, og ýmislegt annað góðgæti. Það varð að vera nóg til því pabbi átti þrettán systkini sem var allt mikið tertufólk og mamma átti fjögur systkini, þannig að nánasta fjölskyldan taldi um 50–60 manns. Mig minnir að það hafi verið á milli 80 og 100 manns í veislunni.“
Afgangar úr frysti notaðir í aðra veislu
„Ég læt hér aukasögu fylgja með sem Bagga frænka sagði mér þegar ég hringdi í hana til að fá upplýsingar um fermingarveisluna mína. Nú hefði ég þurft á mömmu heitinni að halda til að fá upplýsingar. Þannig var að Bagga móðursystir átti fertugsafmæli í maí 1976. Mamma hringdi í Böggu og spurði hana hvað hún ætlaði að gera á afmælisdaginn. Bagga hafði ekki hugsað sér að gera neitt því þau voru nýflutt inn í nýtt hús við Grænagarð og voru að koma sér fyrir. Mamma tók það ekki í mál og það var slegin upp 20–30 manna fertugsafmælisveisla í Grænagarðinum með með öllum afgöngunum úr fermingarveislunni minni, sem mamma var með í frysti!“
Svört kúrekastígvél með fimm sentimetra hæl
Guðmundur man vel eftir fermingarfötunum. „Ég og mamma fórum í Faco á Laugavegi og keyptum á mig dökkbrún flauelsjakkaföt með vesti, einnig var keypt kremuð skyrta og risa stór, brún sléttflauelsslaufa. Til að toppa dressið valdi ég mér svört kúrekastígvél með fimm sentimetra hæl, ekki að ég þurfti á hæðinni að halda því ég var þegar orðinn 178 sm., þannig að í kirkjunni gnæfði maður yfir flest fermingarsystkinin. Mamma hefur væntanlega rekið mig af stað í klippingu. Miðað við fermingarmyndina þá var lubba tískan inni hjá mér. Mig minnir samt að ég hafi farið í lítilsháttar hársnyrtingu hjá henni Aldísi frænku en hún klippti mig oftast á þessum árum.“
Ein besta gjöf sem ég hef fengið
Eins og í dag þá þótti best að fá sem mestan pening í fermingargjöf. „Ég hafði heyrt að krakkar hafi verið að fá allt upp í 50 þúsund krónur, sem var gríðarlega mikill peningur en þetta var gamla krónan. Ég var búinn að reikna með að vera í efri kantinum í peningainnkomu þar sem mamma og pabbi áttu svo mörg systkini. Ég verð að viðurkenna að á fermingardaginn var ég frekar svekktur að sjá alla pakkana en minna af umslögum. Til dæmis var ég ekkert sérstaklega ánægður þegar ég sá einn stóran pakka sem var sameiginleg gjöf frá öllum systkinum pabba, þrettán talsins plús makar og börn. Í pakkanum var tveggja manna göngutjald, bakpoki og dúnsvefnpoki. Það var ekki fyrr en nokkrum árum seinna að ég áttaði mig á því hversu dýrmæt þessi gjöf var og hefur hún verið mikið notuð í gegnum árin. Ég er ennþá að nota þessa hluti í dag, 44 árum seinna. Ein besta gjöf sem ég hef fengið, ég bara vissi það ekki á fermingardaginn.“