Þorrablót Suðurnesjamanna í Garðinum í janúar
Þorrablót Suðurnesjamanna verður haldið í Garðinum þann 23. janúar á nýju ári. Blótið verður haldið í íþróttahúsinu í Garði þar sem vandað verður til í mat, drykk og skemmtiatriðum og ekkert gefið eftir í gæðum og fjöri. Það eru Björgunarsveitin Ægir í Garði, ásamt Knattspyrnufélaginu Víði og Unglingaráði Víðis sem standa fyrir þorrablótinu en hagnaður af kvöldinu rennur til styrktar þessum félögum.
Á Þorrablótinu verður glæsilegt hlaðborð þjóðlegra rétta í bland við glæsilega skemmtidagskrá. Þannig munu Hemmi Gunn og hljómsveitin Buff halda uppi fjörinu allt kvöldið. Söngsveitin Víkingarnir kemur á svið og það gera Óperudífurnar líka, þeir Davíð Ólafsson og Stefán Íslandi. Mummi Hermanns leikur þjóðleg lög undir borðhaldi og Árni Johnsen mun stjórna fjöldasögn.
Veislustjórn er í höndum Hemma Gunn, sem er ættaður frá Meiðastöðum í Garði. Fleiri skemmtiatriði eru í pípunum, en Þorrablótið var auglýst í fyrsta skipti opinberlega í dag. Þá mun gleðisveitin Buff leika fyrir dansleik til kl. 03 um nóttina.
Boðið verður upp á sætaferðir með SBK fyrir hópa frá öllum bæjarfélögum Suðurnesja og úr höfuðborginni. Verði aðgöngumiða er stillt í hóf en miðaverð á Þorrablót Suðurnesjamanna í Garðinum verður kr. 6.500,-
Við viljum fá þig, fjölskyldu og vinnufélaga, starfsmannafélög og saumaklúbba, áhugamenn um góðan íslenskan mat, ykkur öll til að vera með og gera daginn að sannkallaðri Suðurnesjaveislu á Þorra, segir í tilkynningu um Þorrablótið sem send var til á fimmta hundrað einstaklinga í dag og viðbrögðin hafa ekki látið á sér standa.
Það má því búast við stórkostlegri skemmtun í Garðinum þann 23. Janúar 2010 og til að bóka miða fyrir hópa má hringja annað hvort í Þorstein Jóhannsson hjá Björgunarsveitinni Ægi í síma 896 7706 eða í Guðlaugu Sigurðardóttur hjá Knattspyrnufélaginu Víði í síma 663 7940. Forsala aðgöngumiða hefst einnig innan fárra daga á bensínstöð N1 í Garðinum og í verslun Sigurðar Ingvarssonar við Hafnargötu í Reykjanesbæ.