Þorrablót í Stapanum - Króm rokkar um kvöldið
Þorrablótin eru víða um helgina og er eitt blót í Stapanum á vegum Ungmennafélags Njarðvíkur á morgun en veisluþjónustan Soho, þar sem Örn Garðarsson er fremstur í flokki verður með gómsætan þorramat fyrir gesti. Húsið opnar kl. 19:00 og byrjar borðhald stuttu seinna.
„Það verður allt þetta venjulega í boði eins og sviðakjammar, sviðasulta, súrsaðir hrútspungar, lundabakkar og hákarlinn en þetta er svona það sem er vinsælast,“ sagði Örn Garðarsson, eigandi Soho. „Súrsaði maturinn er lang vinsælastur en það fær fólk svo sjaldan. Svo verðum við auðvitað með pottrétt fyrir gikkina.“
Hljómsveitin Króm mun svo stíga á stokk um kvöldið og rokkar húsið eins og þeim einum er lagið. Húsið verður opnað fyrir almenning kl 23:00 og eru allir velkomnir á ball með rokkurunum úr Króm. „Við hlökkum mikið til en við höfum ekki spilað áður í Reykjanesbæ, allavega ekki síðustu 25 árin,“ sögðu strákarnir úr Króm þegar þeir voru að stilla upp fyrir ballið.
VF-Myndir/siggijóns - [email protected]
Hljómsveitin Króm var í óða önn að stilla upp græjum fyrir ballið.