Þorrablót í Garði, Grindavík og Njarðvík
– stærsta þorrablót Suðurnesja á laugardaginn í Garðinum
Þorrablót Suðurnesjamanna verður í Garði nk. laugardag. Það eru Björgunarsveitin Ægir og Knattspyrnufélagið Víðir sem standa að þorrablótinu sem síðustu ár hefur verið það fjölmennasta á Suðurnesjum.
Þorsteinn Guðmundsson leikari sér um veislustjórn en á meðal skemmtiatriða verða Laddi og Bjarni Ara. Hobbitarnir sjá um fjöldasöng og Mummi Hermanns spilar undir borðhaldi. Þá leikur Buffið fyrir dansi fram á nótt. Örfáir miðar eru lausir á þorrablótið í Garði vegna forfalla. Nánari upplýsingar gefur Guðlaug Sigurðardóttir í síma 663 7940.
Grindvíkingar blóta þorra á laugardagskvöld
Hið árlega þorrablót Grindavíkur verður haldið í íþróttahúsinu í Grindavík á laugardagskvöldið. Blótsgoði verður Agnar Steinarsson og Sólmundur Hólm mun stýra veislunni eins og honum er einum lagið.
Hinn landsþekkti Magni Ásgeirsson og hljómsveit hans mun spila fyrir dansi.
Þorrablót Njarðvíkur 31. janúar
Þorrablót UMFN verður haldið í Ljónagryfjunni 31. janúar nk. og er uppselt á þorrablótið. Villi Naglbítur verður blótsstjóri en á meðal skemmtiatriða verða Hreimur & Made In Sveitin, Erna Hrönn og Tina Turner tribute. Þá verður annáll, happdrætti og fjöldasöngur. Þorrahlaðborðið kemur frá Réttinum.