Þorláksmessa með tilheyrandi skötuáti
Margmenni var í samkomuhúsinu í Garði á mánudagskvöldið þegar blásið var til mikillar skötuveislu eins og siður er á Þorláksmessum með tilheyrandi lykt eða ólykt eftir því hvernig á það er litið. Ekki var fólk þó að taka jólin svona snemma heldur fagna Þorláksmessu að sumri og styrkja gott málefni í leiðinni.
Þorláksmessa að sumri er 20. júlí og kennd við heilagan Þorlák Þórhallsson, Skálholtsbiskup. Helgi hans var samþykkt á alþingi sumarið 1198. Á næsta alþingi var stofnuð Þorláksmessa á andlátsdegi hans 23. desember.
Auk þess að troða sig út af rammíslensku hollmeti skemmtu gestir sér við sögur og söngva, harmonikkuleik og fleira. Allur ágóði af skemmtuninni rann til MND félagsins og Hollvinasamtaka Heilsustofnunar.
Svipmyndir frá veislunni eru komnar inn á ljósmyndavef Víkurfrétta.
VFmynd/elg.