Þórkötlustaðaréttir í Grindavík á laugardaginn
Réttardagurinn í Grindavík verður næsta laugardag en dregið verður í dilka í Þórkötlustaðarétt kl. 14:00. Smalað verður í afrétti Grindvíkinga næsta föstudag. Haustmarkaður verður starfræktur á svæðinu á laugardaginn frá kl. 13-16 þar sem fólk getur bæði skoðað og keypt ýmsa handunna vöru eins og prjónavöru, heklaðar vörur, skartgripi, sultur, áletruð kerti og margt fleira.
Að gefnu tilefni vill Fjáreigendafélag Grindavíkur benda fólki á sem ætlar að koma í réttir að gæta þess að börnin séu ekki inn í almenningnum. Einnig er algerlega óheimilt að hanga í ullinni eða hornum á fénu. Þar sem réttin er orðin gömul og lúin vill félagið jafnframt benda foreldrum á að börnin eru á þeirra ábyrgð hvort sem er inni í réttinni eða upp á görðunum og er mælst til þess að börnin séu ekki að hlaupa eftir garðveggjunum. Fjáreigendafélagið óskar öllum gestum góðrar skemmtunar á laugardaginn.
Ákveðið hefur verið að loka Ísólfsskálavegi fyrir umferð til vesturs við gatnamót að Selatöngum og til austurs við Ísólfsskála frá kl. 10:00-12:00 vegna fjárreksturs. Féð verður svo rekið utan vegar frá Ísólfsskála að Hrauni.
Upp úr kl. 13:00 þarf að loka Ísólfsskálavegi upp á hæðinni vestan við Hraun á meðan féð er rekið yfir Ísólfsskálaveg þar en slíkt ætti ekki að taka mjög langan tíma.