Þorgerður Elíasdóttir Grindvíkingur ársins 2015
Hún tók þá ákvörðun að fara til Kenýa á vegum ABC í mars 2015 og dvaldi þar í 5 vikur við að hjálpa börnum sem búa við mjög bág kjör. Hún fjármagnaði sjálf ferð sína, sem var æði kostnaðarsöm, með mikilli vinnu, fyrst flug til Amsterdam og þaðan til Kenýa.
Þegar hún lagði í ferðina miklu var hún búin að sanka að sér fötum og ýmislegu til að gefa börnunum. Hún fór út með fullar ferðatöskur og margklæddi sjálfa sig til að geta komist með sem mest af fötum út. Hún lagði mikið á sig og sýndi samkennd, samhyggð og það að einstakingar geta lagt mikið til viðfangsefna af ýmsum toga ef þeir hafa kjark og þor.
Í apríl s.l. kom hún og kynnti fyrir skólanemum í 5. bekk í Grunnskóla Grindavíkur sem voru að hefja söfnun fyrir ABC hjálparstarf og átti að byggja nýja álmu í skólanum í Kenýa, hvað hún hefði upplifað og séð með myndum og frásögn. Svo fór að nemendur söfnuðu 200.000 kr. á meðal bæjarbúa og lögðu mikið á sig eftir að hafa heyrt frásögn Þorgerðar þannig að fátæk börn í framandi löndum gætu farið í skóla.
Fram kom í tilnefingu um Þorgerði að starfsfólk skrifstofu ABC ættu varla orð yfir dugnaði þessarar konu sem hefði farið út þarna með öðrum fulltrúum og safnað miklu magni af fötum, peningum og styrktarforeldrum fyrir börn sem áttu enga að. Hún sló öll met í óeigingjörnu starfi fyrir málstað sem hún trúði á.
Margar góðar tilnefningar bárust um Grindvíking ársins en kjörið er á vegum heimasíðu Grindavíkurbæjar. Sérstök valnefnd fer yfir tilnefningarnar og var sammála um að Þorgerður ætti það fyllilega skilið að vera valinn Grindvíkingur ársins 2015.
Þorgerður fær afhent verðlaunin sem Grindvíkingur ársins 2015 á Þrettándagleðinni næsta miðvikudag.