Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Fimmtudagur 19. júní 2003 kl. 10:39

Þjóðhátíðarlag Vastmannaeyja úr Keflavík

"Ég samdi lagið í fyrra. Það greip mig strax og þegar þjóðhátíðarnefndin auglýsti eftir lögum ákvað ég að senda það inn því mér fannst vera mikill þjóðhátíðarfílingur í laginu," segir Gunnar Ingi Guðmundsson, 24 ára Keflvíkingur, sem sigraði í samkeppni um hátíðarlag fyrir þjóðhátíð í Vestmannaeyjum. Hljómsveitin Skítamórall mun flytja lagið á þjóðhátíðinni í sumar.Gunnar Ingi segist semja töluvert af lögum, hann eigi til dæmis um þrjátíu lög á lager, eins og hann orðar það, fjölbreytt lög, allt frá kántrí og upp í rokk. Hann segir að lagið sem hann sendi í samkeppnina hafi komið úr safninu því hann hafi samið það í bíl á síðasta ári. "Ég var að keyra og söng það bara út á tveimur til þremur mínútum." Laginu lýsir hann sem léttu kassagítarlagi. Gunnar Ingi segist hafa fengið vin sinn, Ellert Rúnarsson, sem var í hljómsveitinni Topaz, með sér til að semja texta við lagið sem hefur vinnuheitið: Velkomin á þjóðhátíð. "Ég hef ekki verið sterkur í textagerðinni en árangurinn nú er þörf áminning um að ég þurfi að taka mig á þar," segir Gunnar.

Viðurkenning og hvatning
Þjóðhátíðarnefndin fékk 23 lög í samkeppnina, átta komust í úrslit og dómnefnd taldi lag og texta Gunnars Inga og Ellerts besta framlagið. Verið er að útsetja lagið fyrir Skítamóral og verður það gefið út fyrir útvarpsspilun á næstunni. Lagið verður leikið á þjóðhátíð um verslunarmannahelgina og þá fær lagahöfundurinn viðurkenningu sína afhenta.

"Þetta er mikil hvatning fyrir mig. Ég gæti alveg hugsað mér að starfa við að semja tónlist fyrir aðra," segir Gunnar. Hann segir þó að það sé forgangsatriði hjá sér núna að gefa út eitthvað af þeim lögum sem hann á í safni sínu.

Gunnar Ingi starfar við birgðavörslu hjá varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli. Hann hefur mikinn áhuga á tónlist og hefur verið í hljómsveitum í Keflavík. Þekktust er Topaz. Núna er hann í hljómsveitinni Safnaðarheimili eftir messu. Sú sveit byrjaði á því að leika djass en hefur fært sig meira út í vinsældapoppið vegna þess að lítill markaður virðist vera fyrir djass á Suðurnesjum. Hljómsveitin hefur meðal annars hitað upp fyrir Sálina hans Jóns míns á nokkrum tónleikum.

Gunnar Ingi leikur á rafbassa og er í tónlistarnámi. Hann hefur hug á að fara í Tónlistarskóla FÍH í haust til að læra meira á bassann og jafnvel tónsmíðar.

Frá þessu er greint á Suðurnesjasíðu Morgunblaðsins í dag.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024