Þjálfarinn hálfklökkur alla leiðina frá Keflavík
- Fjöldi fólks fagnaði landsliðinu við Reykjanesbraut
Ungir sem aldnir Suðurnesjamenn fjölmenntu í gær og tóku vel á móti landsliði Íslands í fótbolta við komuna til landsins eftir stórkostlegan árangur á EM í Frakklandi. Fólkið raðaði sér meðfram Reykjanesbraut og voru flestir bláklæddir og með fána í blíðskaparveðri.
Landsliðið kunni vel að meta móttökurnar á Suðurnesjum og minntust fyrirliði liðsins og þjálfarar á þær í sjónvarpsviðtölum. „Verði ykkur að góðu. Maður hefur verið hálfklökkur alla leiðina frá Keflavík. Það var fólk að heilsa okkur alla leiðina, nema rétt í Garðabæ,“ sagði Heimir Hallgrímsson í viðtali við Sjónvarp Símans í gærkvöld.
Landsliðið fékk góðar móttökur við Reykjanesbraut í gær við komuna til landsins. VF-myndir/AldísÓsk