Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Mannlíf

Þjálfari fatlaðra nýtir reynslu sína í leikskólastarfi
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
sunnudaginn 10. september 2023 kl. 06:34

Þjálfari fatlaðra nýtir reynslu sína í leikskólastarfi

„Ég sá unga stúlku með hreyfihömlun og var viss um að með því að koma henni í skipulagða hreyfingu myndi hún ná jafnöldrum sínum,“ segir Ásta Katrín Helgadóttir sem vinnur í dag sem íþróttakennari á leikskólastigi. Hún hefur margoft farið á Heimsleika Special Olympics, nú síðast í sumar þegar leikarnir voru haldnir í Berlín í Þýskalandi.

Ásta hefur búið í Reykjanesbæ síðan árið 2003 og unnið í Heilsuleikskólanum Skógarási frá árinu 2013. Hún hefur alltaf verið mikið fyrir íþróttir, stundaði þær af kappi þegar hún var yngri og æfir í dag Hyrox, sem er ný tegund þrekíþróttar en hún og stöllur hennar í Fimm fræknum tóku þátt í heimsmeistaramóti í Manchester í maí á þessu ári. Ásta hefur þjálfað ýmsar íþróttagreinar í gegnum tíðina, m.a. frjálsar íþróttir, bæði fatlaðra og ófatlaðra, og út frá þjálfun fatlaðra leiddist hún inn í starf Íþróttasambands fatlaðra og situr í stjórn sambandsins í dag. Hún hefur oft farið erlendis sem þjálfari fatlaðra og út frá því, og starfi sínu í kringum Special Olympics, hefur hún getað nýtt þá reynslu í vinnunni sem hún stundar í dag, sem íþróttakennari í leikskóla.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Ómetanleg reynsla

Ásta skýrði út hvernig á því stóð að hún leiddist svo mikið inn í íþróttastarf fatlaðra. „Ég er fædd og uppalin á Kirkjubæjarklaustri, byrjaði ung að æfa alls kyns íþróttir og hef alltaf haft mikinn áhuga á þeim. Því lá beinast við að fara í Íþróttakennaraskólann á Laugarvatni og ég útskrifaðist þaðan árið 1989. Á þeim tíma bjó ég á Siglufirði og þar bauðst mér að þjálfa, m.a. íþróttafélagið Snerpu, sem er íþróttafélag fyrir fatlaða. Ég þjálfaði boccia og frjálsar íþróttir. Þar með hófst þetta starf mitt með fötluðum og Íþróttasambandi fatlaðra, sem hefur gefið mér ómetanlega reynslu og sýn á lífið.

Árið 1990 fór ég í fyrsta sinn sem þjálfari í frjálsum íþróttum á Evrópuleika Special Olympics í Glasgow og ári síðar fór ég svo á Heimsleikana í St. Paul og Minneapolis í Bandaríkjunum og sá þá hversu ofboðslega stórir leikar þetta eru. Keppnin var stór í Glasgow fannst mér en hún var lítil í samanburði við Heimsleikana.“

Með keppnisfólki í útlöndum.

Íþróttir fyrir fólk með þroskahömlun

Special Olympics-samtökin voru stofnuð af Kennedy-fjölskyldunni í Bandaríkjunum árið 1968. Markmið þeirra í upphafi var að bjóða upp á íþróttir fyrir fólk með þroskahömlun. Þróunin hefur verið á þann veg að nú er lögð áhersla á að fatlaðir og ófatlaðir æfi og keppi saman, auk þess sem viðmiðið er líka námserfiðleikar. Þannig hafa skapast tækifæri fyrir stóran hóp iðkenda í gegnum Special Olympics.

Algengt er að Heimsleikum Special Olympics sé ruglað saman við Paralympics sem eru alltaf haldnir á sama stað og stuttu eftir Ólympíuleika ófatlaðra og eru haldnir. Munurinn á þessum tveimur leikum er talsverður keppnislega séð en báðir leikar eru haldnir á fjögurra ára fresti. Í Paralympics er meiri áhersla lögð á keppnina sjálfa og úrslit hennar. Keppendur þar hafa æft í mörg ár áður en þeir ná að komast á þá leika, þar keppa þeir bestu í heiminum í sínum fötlunarflokki. Gleðin svífur meira yfir vötnum á Special Olympics, þar er meira um keppendur sem eru með þroskahamlanir og önnur námsfrávik.

Ásta hefur margoft farið út sem þjálfari. „Ég hef átta sinnum farið á Heimsleika Special Olympics sem þjálfari í frjálsum íþróttum, síðast núna í sumar í Berlín. Auk þess hef ég fjórum sinnum farið á Evrópuleika Special Olympics og einu sinni hef ég farið á Paralympics, í London árið 2012. Auk þess hef ég farið á fjölmörg önnur mót erlendis með okkar besta fatlaða frjálsíþróttafólki, hef ekki tölu yfir það.

Fljótlega eftir að ég byrjaði að þjálfa fatlaða var óskað eftir því að ég kæmi í frjálsíþróttanefnd Íþróttasambands fatlaðra en hún sér m.a. um mótahald, æfingabúðir og fylgjast með þegar upp kemur ungt og efnilegt, fatlað íþróttafólk, ég er ennþá í þessari nefnd. Ég er íþróttagreinastjóri Special Olympics í frjálsum íþróttum og svo er ég einnig komin í stjórn Íþróttasambands fatlaðra,“ segir Ásta.

YAP leikja- og þjálfunaráætlun fyrir tveggja til sjö ára

Ásta byrjaði að vinna sem leikskólakennari árið 2013 og fljótlega gafst henni tækifæri til að nýta reynslu sína úr þjálfun fatlaðra. „Ég byrjaði að vinna sem venjulegur leikskólakennari í heilsuleikskólanum Háaleiti, sem í dag heitir Skógarás. Þar var u.þ.b þriggja ára stúlka sem var hreyfihömluð. Ég var sannfærð um að með því að koma henni í hreyfingu og setja henni líkamlegar áskoranir, myndi hún ná jafnöldrum sínum og það var ótrúlegt að fylgjast með henni. Eftir eitt og hálft ár var ekki hægt að greina mun á henni og jafnöldrum hennar. Ég er mjög forvitin að vita um hagi þessarar stelpu í dag en hún flutti erlendis svo ég missti tengslin en ég yrði mjög glöð að frétta hvernig henni gengur í dag. Þessi stúlka er svo skýrt dæmi um ágæti snemmtækrar íhlutunar í hreyfi- og taugaþroska.

Ég sé um alla skipulagða hreyfingu í Skógarási, hún er þannig uppsett að tvisvar sinnum í viku koma börnin í skipulagða hreyfingu og þau börn sem eru með einhverskonar frávik, koma til mín tvisvar sinnum aukalega. Eftir að ég byrjaði að vinna á Skógarási hafði framkvæmdastjóri Special Olympics á Íslandi, Anna Karólína Vilhjálmsdóttir, samband við mig og kynnti YAP-efnið fyrir mér. YAP stendur á íslensku fyrir leikja- og þjálfunaráætlun (fyrir tveggja til sjö ára gömul börn). YAP er áætlun sem snýst um að gera hlutina í réttri röð, það er byrjað á stóru grófhreyfingunum og eftir því sem barnið eldist og þroskast, er fínhreyfingum og samhæfingu bætt við. Þetta efni er tæki til að efla alhliða þroska og auka þátttöku barna í gegnum íþróttir og leik. YAP-ið er mjög svipað því sem ég hafði verið að gera hér í Skógarási en ég aðlagaði það mínu starfi. Ég sá jafnframt hvað þetta efni er frábært fyrir leikskóla. Það er einfalt og það sem er best við það er að það er aðgengilegt á netinu, er ókeypis og búið að setja upp sem kennsluáætlun. Ég hef verið að fara með Önnu Línu í aðra leikskóla og kynna YAP fyrir þeim, hef haldið fyrirlestra úti á landi og vona að aðrir leikskólar muni taka þetta upp,“ segir Ásta.

Munur á börnum í dag

Ásta man tímana tvenna þegar kemur að kennslu og þjálfun barna. „Nemendur sem eru í íþróttafræðinámi við Háskóla Íslands hafa verið að koma til okkar í Skógarás þar sem ég hef verið með fyrirlestur um YAP-ið og mikilvægi þess að byrja snemma með hreyfiþjálfun. Þau hafa síðan fylgst með og tekið þátt í hreyfistund með börnunum. Þeim þykir þetta vera athyglisvert og furða sig á af hverju þetta sé ekki gert í öllum leikskólum.

Ég var líklega um átján ára þegar ég byrjaði fyrst að þjálfa. Það er alveg munur á börnum í dag, hreyfingalega séð. Við lifum á öðruvísi tímum núna, það er mikilvægt að innleiða hreyfingu strax í líf ungra barna til forvarnar því þau hreyfa sig minna í dag. Ég sé það t.d. best þegar við förum í vettvangsferðir með börnin út fyrir malbikið, hvað þau eiga oft erfitt með jafnvægi en hér áður fyrr voru börn meira og minna að leika sér úti á ójöfnu undirlagi. Hreyfing er hluti af námskrá leikskólanna en hvort eftirfylgnin er nægjanleg er spurning. Hjá okkur í Skógarási er fylgst náið með framgangi barnsins allan tímann með heilsubók barnsins og fleiri mælingum. Þannig getum við sýnt svart á hvítu, hvaða gildi þetta hefur. Það er frábær tilfinning að líta yfir hóp sem er að útskrifast og það er erfitt að sjá í hópnum barn sem hafði verið með einhver frávik. Þetta skiptir barnið svo miklu máli félagslega, að það standi jafnfætis jafnöldrum sínum þegar það byrjar í grunnskóla. Það er erfitt að sinna einstaklingnum meira þegar komið er í grunnskóla, stórir hópar og ekki fæst tími eða rými til að sinna þessum einstaklingum þó að kennarar og annað starfsfólk sé allt af vilja gert. Því vona ég að allir leikskólar muni taka YAP upp,“ sagði Ásta að lokum.