Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Þjálfa leiðtoga framtíðarinnar með frjálshyggju
Samtök frjálslyndra framhaldsskólanema voru stofnuð árið 2016 af Magnúsi Erni Gunnarssyni. Nú skipar Júlíus Viggó (til hægrti á mynd) formannssæti samtakanna, Kristín Fjóla (í miðjunni) er varaformaður og Hermann Nökkvi (til vinstri á mynd) framkvæmdastjó
Sunnudagur 24. febrúar 2019 kl. 14:36

Þjálfa leiðtoga framtíðarinnar með frjálshyggju

Þrír nemendur Fjölbrautaskóla Suðurnesja hafa nú tekið við stjórn Samtaka frjálslyndra framhaldsskólanema. Þau Júlíus Viggó Ólafsson, Kristín Fjóla Theódórsdóttir og Hermann Nökkvi Gunnarsson beita sér fyrir auknu einstaklingsfrelsi og vilja kynna framhaldsskólanemendum, sem áhuga hafa, fyrir frjálslyndri pólitík með áherslu á minni afskipti ríkisins. Að þeirra sögn er mikilvægt að ungmenni hafi valkosti, hafi frelsi til að gera það sem þau vilja, svo lengi sem það skaði ekki aðra. Framhaldsskólanemendur hafi alltaf verið pólitískir og nauðsynlegt sé að efla það. Árið 2019 verður stórt ár hjá SFF.
 

Hvað er SFF?

 
Júlíus: Það eru Samtök frjálslyndra framhaldsskólanema. Við reynum að tjalda stóru tjaldi yfir fólk sem er sammála um það að aukið einstaklingsfrelsi og minna ríkisvald séu góðir hlutir. En það geta verið alls konar manneskjur innan þessa tjalds, óflokksbundið fólk. Við erum ekki í flokkapólitík.
 

Hvað gera þessi samtök?

 
Hermann: Við viljum mennta, efla og þróa ungmenni, þegar kemur að frjálslyndum gildum. Það er mikið af því sem við gerum. Árið 2019 ætlum við að hafa kappræður og fræðslukvöld fyrri hluta árs. Um mitt árið verður Frjálsi sumarskólinn, sem haldinn er árlega. Seinni hluta árs stefnum við að stórum kappræðum, um til dæmis kapítalisma eða sósíalisma. Þar verða kappræður meðal einhverra skörunga.

Júlíus: Samtökin eru bæði til þess að breiða út boðskapinn en líka bara að kynna þessar hugmyndir fyrir fólki sem hefur þessar skoðanir – og hefur ef til vill engan til að tala við um. Fólk getur þá komið saman í þessum samtökum og kynnst öðrum. Ég held við getum öll verið sammála því að við höfum svolítið þurft að leita að þessum sjónarmiðum sjálf. Þetta er ekki eitthvað sem þú virkilega kynnist í skólakerfinu.
 

Er ekkert skrýtið að taka pólitík inn í framhaldsskólana?

 
Júlíus: Nei, engan veginn. Ég held við séum ekkert að byrja á því. Pólitík er nú þegar í framhaldsskólum og hefur alltaf verið, þó það sé kannski meira um það í háskólum en í framhaldsskólum.
 

Eru þetta ný samtök?

 
Hermann: Það má í raun segja að á seinni hluti síðasta árs hafi þetta svolítið byrjað fyrir alvöru. Magnús stofnaði SFF árið 2016 en hann er í stærri samtökum sem heita Students for Liberty. Það eru alþjóðasamtök sem við fáum mikla hjálp frá í skipulagi og sérfræðiþekkingu.
 

Hvernig mynduð þið skilgreina það að vera frjálslyndur?

 
Hermann: Frjálslyndi er sú hugmyndafræði að svo lengi sem þú ert ekki að brjóta á mannréttindum annarra eigir þú að fá að gera nokkurn veginn það sem þú vilt.

Júlíus: Ég held við getum verið sammála um að flestir vilji auka velmegun, minnka fátækt og auka lífsgæði fólks. Við erum sannfærð um það, miðað við þær upplýsingar sem við höfum, að einstaklingsfrelsi, frjálsir markaðir og lítið ríkisívaf séu bestu leiðirnar til að auka þetta allt í einu.

Kristín: Þegar maður skoðar söguna og tölurnar þá sér maður það að þjóðfélagi vegnar mun betur undir frjálshyggju heldur en vinstrisinnuðu eða sósíalísku samfélagi. Munurinn á þessu tvennu er sá að sósíalismi segir: „Fólk á að haga sér svona“ en frjálshyggjumenn segja: „Þú mátt haga þér eins og þú vilt, svo lengi sem það hefur ekki áhrif á mig.“

Júlíus: Við gerum okkur grein fyrir því að fólk er ekki fullkomið. Þess vegna á ekki að fá ófullkomið fólk til að stjórna öðru fólki til að verða fullkomið. Ég myndi segja að frjálshyggju hreyfingin, allavega ef þú lítur á Bandaríkin, sé fyrsta hreyfingin til dæmis til að samþykkja hinsegin samfélagið, fjörutíu árum áður en demókratíski flokkurinn fór að tala fyrir því að lögleiða samkynja hjónabönd. Þetta er bara spurningin um að það komi mér ekki við hvað þú gerir við þitt líf.

 

Hvernig viðburðum standið þið í SFF fyrir?

 
Hermann: Viðburðir sem við höfum haldið venjulega hafa verið til dæmis Frjálsi sumarskólinn. Þá er ein helgi tekin úti á landi þar sem haldnir eru fyrirlestrar um heimspeki eða hagfræði og þar er reynt að kenna ungu fólki frjálslyndu leiðina, eða frjálshyggju leiðina, í raun og veru.

Júlíus: Þetta er ákveðin leiðtogaþjálfun.

Hermann: Þeim er kennt að koma sér sjálfum á framfæri. Við höfum haldið kappræður um sósíalisma þar sem við fengum Ingvar Smára, formann Ungra Sjálfstæðismanna, og Hreindísi Ylvu, formann Ungra Vinstri grænna. Hún talaði fyrir sósíalisma og hann gegn honum og þannig gátum við sýnt báða pólana. Út úr því komu flottar rökræður og sextíu manns mættu, flest ungt fólk. Svo höldum við fræðslukvöld, horfum á myndbönd og kappræður og höfum umræður á eftir.
 

En hafa unglingar áhuga á pólitík?

 
Hermann: Flestir hafa skoðanir á hlutunum. Ungmenni eru kannski ekki tilbúin að segja að þau hafi til dæmis áhuga á Sjálfstæðisflokknum eða Samfylkingunni en þegar maður spyr þau út í hvert málefni fyrir sig þá sér maður að fólk hefur áhuga á þessum málum, sérstaklega þeim sem varða ungt fólk. Þá er það kannski okkar að sýna því hvernig þau geta komið sér á framfæri og kennt þeim enn meira um þetta.

Kristín: Ungt fólk þarf að hafa valkosti. Það væri frábært ef það kæmi líka Samband sósíalískra framhaldsskólanema. Við viljum bara að fólk hafi val. Við erum ekkert að reyna að umbreyta fólki. Þessi stóri partur af samfélaginu, framhaldsskólanemar, gleymist oft.

Júlíus: Við viljum skapa umræðu. Ég held að ungu fólki finnist pólitíkin oft ekki höfða til þeirra og ég tel það mikilvægt að búa til vettvang fyrir ungt fólk til að hafa áhrif. 

Hermann: Ef þú hefur áhuga á einhverju þá vilt þú hitta fólk sem hefur áhuga á sömu hlutunum. Ég held að SFF sé fyrir fólk sem er frjálshyggjusinnað eða frjálslynt. Það vill kannski hittast á viðburðum, finnst gaman að tala saman og það kynnist í gegnum þetta.
 

Er eitthvað eitt baráttumál sem brennur á ykkur?

 
Hermann: Hjá mér eru það alveg þó nokkrir hlutir. Ég væri til í meira frelsi þegar það kemur að heilbrigðisgeiranum, meiri einkarekstur. Líka þegar kemur að skólamálum. Ég vil taka upp ávísunarkerfi og fleiri einkarekna skóla.

Júlíus: Mitt baráttumál er að við getum hjálpað hverju öðru að lifa betra lífi bara með því að leyfa fólki að gera það sem það vill. Ég er rosa mikið í hagfræði. Mér finnst aðalmálið vera að losa til í hagkerfinu af því það hefur áhrif á svo marga fleti, sérstaklega líf fátækustu hópanna og þeirra sem eiga minnst, sem hafa nánast verið læstir í ákveðinni stöðu þar sem ríkið sér fyrir þeim. Annars hafa almennar samgöngur aldrei verið nógu góðar til að koma til móts við þarfir fátækra fjölskyldna. Í dag er mikið um styttri tíma lausnir fyrir lengri tíma vandamál. Oftast er bara verið að plástra yfir hvert vandamál fyrir sig í stað þess að líta á heildarmyndina og laga vélina alla. Við erum núna komin með ótrúlega flókið kerfi sem enginn ratar í raun og veru í. Þess vegna er ótrúlega erfitt að ná fram breytingum. Það er ástæða fyrir því að lögfræðistéttin er orðin svona stór. Það þarf bara að hafa fræðimenn í þessu.

Kristín: Ríkið stjórnar svo miklu í lífi fólks, hvernig það eigi að lifa og hvernig það eigi að vera. Það eru svo margar ranghugmyndir hér á Íslandi um sósíalisma, um þessa útópíu sem margir halda að fylgi stefnunni, að sósíalismi minnki fátækt og auki lífsgæði fólks. En það bara virkar ekki.
 

Eruð þið mögulegir stjórnmálamenn framtíðarinnar?

 
Hermann: Ég hef áhuga á bæjarstjórnarpólitík að einhverju leyti en ég veit ekki með Alþingi og svoleiðis, hvort þetta sé eitthvað áhugaverður vinnustaður. Ég ætla helst eitthvað út í viðskiptalífið. 

Kristín: Þú þarft að gefa svo margt eftir af hugmyndafræði þinni á Alþingi.

Júlíus: Maður þarf svolítið að selja sál sína þegar maður fer á þing. Þingið er sett upp þannig að það er ótrúlega erfitt að ná fram breytingum. Hvað getur þú gert ef þú ert virkilega framsækinn pólitíkus á þingi? Kannski komið vínsölu í búðir. Ég er ekkert rosalega spenntur fyrir íslenska lýðræðinu. Mér finnst það ekkert rosalega spennandi. Sem þingmaður þyrfti maður bæði að selja einhver af gildum sínum og svo væru öll augu á manni að dæma allt sem maður gerði, sem getur haft áhrif á fjölskyldulífið. Ég held ég muni alltaf vera einhvers staðar að láta heyra í mér og segja hvað mér finnst en ég er ekki viss um að ég fari í gegnum þingið.
 
Kristín: Ég held ég muni allavega vera eins lengi og ég get í pólitík, í samtökum eins og SFF og SLF. Ég mun reyna að leggja mitt að mörkum svo lengi sem ég get haldið mig við skoðanir mínar. Ég ætla aldrei að reyna að láta neinn kjósa mig.
 
Júlíus: Pólitíkin er nefnilega síðasti hluturinn sem breytist. Fyrst þurfa að koma fram hugmyndir og svo breytist samfélagið. Ég held að orrustan verði fyrst háð annars staðar en á Alþingi.

Viðtal og myndir: Sólborg Guðbrandsdóttir // [email protected]
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024