Þingmaður sýnir í Gömlubúð
Ásmundur Friðriksson alþingismaður og fyrrverandi bæjarstjóri í Garði tekur virkan þátt í Ljósanótt. Ásmundur heldur myndlistarsýningu í Gömlubúð við Duus. Sýningin er haldin í tilefni af útgáfu á bókinni „Ási grási í Grænuhlíð. Eyjapeyji í veröld sem var“. Þar eru sýndar pastelteikningar úr bókinni. Jafnframt sýnir Ásmundur portrett-myndir af Suðurnesjamönnum.
Ásmundur opnaði sýninguna formlega í gærkvöldi. Sýningin verður opin á Ljósanótt eins og aðrar sýningar. Ásmundur mun verða með upplestur úr bók sinni og hún verður einnig til sölu á staðnum.
Myndlistin hefur verið Ásmundi hugleikin í mörg ár. Hann fæst nokkuð við það að teikna portrett-myndir af fólki. Hann mun m.a. sýna nokkrar nýjar andlitsmyndir af Suðurnesjamönnum og einnig olíuverk sem ekki hafa verið sýnd áður í Reykjanesbæ.