Þéttskipuð dagskrá NFS
Það er nóg á döfinni hjá nemendafélagi Fjölbrautaskóla Suðurnesja en á laugardaginn næstkomandi verður haldið Lazer-tag mót á göngum skólans, en honum verður breytt í allsherjar vígvöll með tilheyrandi hindrunum, girðingum og ljósum.
Þann 3. febrúar verður haldið karlakvöld á sal skólans þar sem Gylfi Ægis kemur og skemmtir ásamt því sem hljómsveitin Freaky Joe spilar. Söngkeppni Fjölbrautaskóla Suðurnesja, Hljóðneminn nálgast einnig ört en hann verður þann 10. febrúar, og svo heljarirnnar dansleikur í Top of The Rock daginn eftir.
Í síðustu viku var Langbest kvöld að Ásbrú þar sem NFS-ingar troðfylltu staðinn og hlustuðu á uppistand frá meðlimum Mið-Íslands. Einnig heppnaðist Janúar Rokk NFS mjög vel þar sem troðfullt var útúr dyrum af tónþyrstum FS-ingum sem fengu að sjá Togga og hljómsveitina Ourlives á sviðinu.
Ræðulið FS er dottið út úr MORFÍs keppninni, en þeir töpuðu naumlega gegn Fjölbrautaskólanum í Garðabæ þriðjudaginn síðastliðinn. Gettur Betur liðið datt út í fyrstu umferð gegn Fjölbrautaskólanum í Breiðholti eftir tveggja stiga tap.
Meðfylgjandi myndir eru frá MORFÍs keppninni sem fram fór í Garðabæ á þriðjudaginn en FS-ingar fylltu staðinn og var nánst ekki pláss fyrir Garðbæingana sjálfa, sem mættu heldur seinna en gestirnir.
VF-myndir/ Hildur Björk Pálsdóttir