Þetta verður án efa frábært
Fréttir af flottum tónleikum til heiðurs Myllubakkaskóla hafa farið eins og eldur í sinu um bæinn síðustu vikur. Tónleikarnir verða haldnir í Andrews leikhúsinu 1. apríl næstkomandi klukkan 16 og 20. Hverjir eru þetta sem ákváðu að skipuleggja eins og eitt stykki tónleika og gefa Myllubakkaskóla í afmælisgjöf? Við ákváðum að komast að því!
Hver eruð þið?
Við erum fyrrverandi og núverandi starfsmenn Myllubakkaskóla. Öll höfum við á margvíslegan hátt komið að menningaruppfærslum skólans og eigum mjög sterka tengingu við hann. Samanlagt erum við með hátt í hundrað ára starfsreynslu við skólann og fjögur okkar voru jafnframt nemendur í þessum skóla.
Af hverju tónleikar?
Þessi hugmynd var búin að vera að veltast um í kollinum á okkur í langan tíma. Það er sterk hefð fyrir tón- og leiklist í skólanum og því gaman að geta gert eitthvað í þá áttina. Skólinn hefur alið af sér fullt af flottu tónlistarfólki sem okkur langaði að fá með okkur í þetta verkefni. Í upphafi var þetta fjarlægur draumur og við bjuggumst ekki við að allt þetta flotta fólk væri til í þetta. Nú er þetta hins vegar að verða að veruleika og er allt svo spennandi. Þetta verður án efa frábært!
Hvernig gekk að fá fólkið til að taka þátt?
Hreint út sagt frábærlega. Það voru allir svo jákvæðir og til í að vera með! Við erum bara í skýjunum með þetta. Fólkið hlýtur að eiga góðar minningar úr skólanum þar sem það er tilbúið að leggja á sig vinnu og ferðalög og gefa af tíma sínum til að geta verið með okkur þennan dag.
Hverjir eru það sem koma fram á tónleikunum?
Það eru þjóðþekktir einstaklingar eins og Gunnar Þórðarson, Magnús Kjartansson, Valdimar Guðmundsson, Jóhann Helgason, Heiða Eiríks (Unun) og Elíza Geirs. Hljómsveitirnar Júdas, Deep Jimi and the Zep Creams, Eldar og Kolrassa krókríðandi, klassíska söngfólkið okkar Bylgja Dís og Davíð Ólafs og svo ungu konurnar Lísa Einars og Marína Ósk sem og fullt af flottum fyrrverandi og núverandi nemendum sem skipa kórinn.
Er mikið mál að undirbúa svona tónleika?
Já, þetta er ótrúlega mikil vinna. Það eru fjölmörg smáatriði sem enginn tekur eftir en eru mikilvæg og tímafrek. Öll erum við í fullri vinnu og sinnum þessu í frítíma okkar og það er ljóst að okkar frítími þessa dagana fer að miklu leiti í þetta. En þetta er mjög skemmtilegt og gefur okkur fullt af góðum og dýrmætum minningum.
Er ekki dýrt að halda svona tónleika?
Jú jú, það kostar alveg sitt. En við erum svo lánsöm að vera með frábært fólk með okkur í þessu og bæði tónlistarmennirnir og við sem stöndum að þessu gefum alla okkar vinnu. Auk þess erum við búin að vera dugleg að safna styrkjum og svo að sjálfsögðu stefnum við að því að selja alla aðgöngumiðana svo þetta gengur allt upp. Við þurfum að borga ýmsan kostnað en allur ágóði mun svo renna óskiptur í minningarsjóð Vilhjálms Ketilssonar fyrrum skólastjóra, en sá sjóður veitir viðurkenningar árlega til nemenda við skólaslit svo og styrki til lista- og menningarstarfs innan skólans.