Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Þetta er það sem ég elska að gera
Föstudagur 2. mars 2012 kl. 16:28

Þetta er það sem ég elska að gera

Sigurborg Lúthersdóttir fór með sigur af hólmi í Hljóðnemanum 2012, söngkeppni Nemendafélags Fjölbrautaskóla Suðurnesja, sem fram fór í Andrews á Ásbrú á dögunum. Hún flutti Bítlalagið Come Together í sinni eigin útgáfu.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Sigurborg segist hafa byrjað að fikta við sönginn af einhverri alvöru fyrir rúmu ári síðan, eða þegar hún var í 10. bekk og því má segja að hún sé tiltölulega nýbyrjuð að syngja en hún er á 2. ári í Fjölbrautaskóla Suðurnesja. „Ég vissi alltaf að ég gæti sungið en var ekki byrjuð að syngja fyrir framan fólk fyrr en frekar nýlega,“ segir Sigurborg en hún var þó að læra söng um tíma en hætti vegna þess að klassískur söngur var ekki á hennar áhugasviði. Sem barn var hún eitthvað að syngja en þorði ekki að syngja fyrir aðra, ekki einu sinni fjölskylduna. „Þetta var voðalegt leyndarmál. Svo einhvern tímann þá var ég að ræða við vinkonur mínar um að ég væri að syngja og þær báðu mig um að syngja fyrir sig. Ég gerði það og þær sögðu öllum frá því,“ segir Sigurborg.


Í fyrra lenti Sigurborg í 2. sæti í Hljóðnemanum en henni fannst frekar erfitt að fara upp á sviðið þá. „Þetta var töluvert auðveldara núna. Í fyrra var töluvert stress en í ár var ég eiginlega ekkert stressuð.“ Eftir keppnina í fyrra hefur Sigurborg sungið töluvert opinberlega og er því væntanlega orðin reynslunni ríkari. Hún æfir sig töluvert heima fyrir og hún segir það hafa hjálpað sér mikið og hún hefur bætt sig töluvert að eigin sögn á undanförnu ári.


„Ég sé alveg fyrir mér að starfa í tónlistinni í framtíðinni. Mig langar það mikið og þá sérstaklega eitthvað tengt söngnum.“ Hún segir að hún sé einnig áhugasöm um leiklist og því er aldrei að vita nema hún sameini söng og leiklist í framtíðinni. Hún ætlaði sér m.a. að taka þátt í nýjasta leikriti Fjölbrautaskóla Suðurnesja en undirbúningurinn fyrir Hljóðnemann átti hug hennar allan.

Ástæðan fyrir því að hún valdi lagið Come together sem Bítlarnir gerðu frægt fyrir u.þ.b. 40 árum síðan var einfaldlega sú að hún heyrði fallega útgáfu af laginu og svo hefur hún lengi verið aðdáandi Bítlanna. „Ég heyrði stelpu syngja þetta lag í Idolinu og mig langaði að gera mína eigin útgáfu af því þar sem ég hef alltaf elskað Bítlana.“


Önnur áhugamál fyrir utan sönginn eru ekki mörg hjá Sigurborgu en hún tekur virkan þátt í félagslífinu að eigin sögn. Nokkrir tónlistarmenn hafa áhrif á Sigurborgu og hún nefnir Amy Whinehouse sem dæmi. „Ég elska hana og einnig Christina Aguilera. Svo eru Shakira og Michael Buble í miklu uppáhaldi.“


Mikill íburður var lagður í Hljóðnemann að þessu sinni og keppnin einkar glæsileg. „Ég kunni vel við mig á sviðinu og fannst voðalega gaman.“ Keppnin á stóra sviðinu er svo framundan en Sigurborg mun að sjálfsögðu vera fulltrúi Suðurnesjanna í söngvakeppni framhaldsskólanna. „Ég verð nú að viðurkenna að ég er dálítið stressuð fyrir þá keppni. En ég ætla að reyna að standa mig eins vel og ég get.“ Sigurborg þarf að þýða lagið á íslensku og svo segist hún þurfa að vinna aðeins í sviðsframkomunni. Systir hennar ætlar að hjálpa henni að þýða lagið fræga yfir á íslensku.

Þessa stundina er Sigurborg í hljómsveit ásamt nokkrum strákum úr Njarðvík en þegar hún var í 10. bekk stofnaði hún ásamt fleiri krökkum, hljómsveit sem kom fram á árshátíðum og þannig uppákomum. „Mér finnst mjög gaman á hljómsveitaræfingum og þar er alltaf fín stemning,“ segir hún.


Sigurborg er á málabraut í Fjölbrautaskóla Suðurnesja en hún vonast til þess að geta starfað í tónlistarbransanum í framtíðinni. „Þetta er það sem ég elska að gera og ég veit að mínir hæfileikar liggja þarna. Ég á bara eftir að finna út hvað ég vil gera sem tengist þessu,“ segir þessi efnilega söngkona að lokum.

SVIPMYNDIR FRÁ HLJÓÐNEMANUM 2012 HÉR!