Þetta er bara Villta-Austrið
– segir Njarðvíkingurinn Hafsteinn Hjartarson sem fæddist í Reykjavík en flutti til Njarðvíkur eins árs gamall. Hann er mikill áhugamaður um matargerð og allt sem henni tengist, þar með talið veiði. Hafsteinn hefur haft í nógu að snúast undanfarið og áhugamálin þar af leiðandi þurft að sitja á hakanum.
„Ég er verkfræðingur og starfa hjá Advania í dag, hef verið þar frá 2018,“ segir Hafsteinn í upphafi spjalls okkar. „Svo er ég með fyrirtækið Pontus sem er að bjóða upp á flotastýringakerfi.“
Flotastýringakerfi, hvað er það?
„Við setjum rita í bílaflota hjá fyrirtækjum og þannig er hægt að fylgjast með hvar bílarnir eru í rauntíma. Þú færð meldingar ef það kemur vélarljós eða einhver er að keyra of hratt eða illa. Ýmislegt þannig. Svo geturðu fengið skýrslur, samantekt yfir bensín- eða batterísnotkun. Alls konar í þessu.
Sem dæmi er þetta kerfi ekta fyrir flutningafyrirtæki því það er í þessu bókunarkerfi þar sem þú getur fært inn allar sendingar dagsins og það berst beint til bílstjóranna, þá vita þeir hvert þeir eiga að fara og í hvaða röð.“
Hvernig stendur á því að þú fórst í þennan bransa?
„Ég var að vinna við þetta í fjögur ár eftir að ég útskrifaðist úr háskólanum. Þá vann ég við að forrita svona kerfi. Þetta var gamalt kerfi sem við vorum að viðhalda og búa til helling af nýjum lausnum inn í kerfinu. Mér fannst þetta bara skemmtilegur bransi og svo bauðst mér þetta tækifæri.
Það var strákur sem stofnaði þetta fyrirtæki, Pontus, árið 2018 en svo flutti hann út í fyrra og sá ekki fram á að geta sinnt þessu. Svo ég bara tók við boltanum og er að keyra þetta í gang.“
Hafsteinn sér einn um reksturinn á Pontus eins og stendur en hefur háleit markmið fyrir framtíðina.
„Ég er svolítið að stíla inn á samþættingar. Ég hef unnið mikið með það, að samþætta kerfi, þannig að flotastýringakerfið geti talað við beiðnakerfi hjá fyrirtækjum – tengja þetta allt saman.“
Áhugamálin sitja á hakanum
Hafsteinn er mikill áhugamaður um matargerð og tók m.a. þátt í keppninni Þjóðlegir réttir á okkar veg sem Matarauður Íslands stóð fyrir árið 2018. Hann hafnaði í fimmta sæti með rétt sem hann kallaði Nesti smaladrengsins.
„Ég er langmest í matargerð og var með Instagramið Eldur og krydd á sínum tíma, brasaði mikið í því og svo er ég auðvitað í veiði líka. Maður hefur ekki haft mikinn tíma í þetta undanfarið, ég er búinn að vera í svakalegum framkvæmdum á heimilinu í svona eitt og hálft. Það hefur tekið allan frítímann sem maður hefur.
Þetta er það sem ég geri mest en svo er ég í Round Table líka og er að taka við sem formaður þar núna í haust. Það er bara áhugamál út af fyrir sig en við hittumst tvisvar í mánuði. Svo er það þetta staðlaða, fjölskylda og svona. Allt tekur þetta sinn tíma.“
Hefur þú ekki verið svolítið virkur í veiðinni?
„Ég var það og hef alltaf fasta túra á hverju sumri. Síðustu ár hef ég farið í Veiðivötn og Vatnsdalsánna, svo erum við að starta nýjum árlegum veiðitúr í Víðidalsánna. Ætlum að prófa það núna.“
Er stangveiðin í fyrsta sæti hjá þér?
„Já, það má eiginlega segja það. Samt alltaf að gæla við skotveiðina meira og meira – hún er frekar að taka yfir en hitt,“ segir Hafsteinn sem líka mjög gaman af því að fara á hreindýraveiðar.
„Ég hef farið á hreindýraveiðar þrjú ár í röð, helvíti gaman og maður verður alveg fárveikur þegar maður er þarna upp frá. Ég hef alltaf farið á svæði eitt – sama svæði, sami leiðsögumaður og tarfur í öll skiptin. Það er bara aktu taktu,“ segir hann og hlær. [innsk. blm.: Svæði eitt er gjarnan kallað aktu taktu vegna þess hve aðgengilegt það er en þar er hægt að komast á bíl að langflestum veiðistöðum].
„Ég á eftir að prófa að fara niður á firðina í hreindýraveiði. Ég held að það sé allt annað dæmi, miklu meira labb og erfiðara. Ég sótti hins vegar ekki um dýr núna út af öllu þessu framkvæmdabrasi. Við erum að færa eldhúsið og baðherbergið og þetta er rosalegur pakki,“ segir Hafsteinn sem flutti af Kirkjuteigi í Keflavík og býr núna við Borgarveg í Njarðvík. „Ég er kominn aftur heim,“ segir hann kankvís.
Hvað er það sem heillar þig við hreindýraveiðina?
„Það er fyrst og fremst þessi stemmning þarna fyrir austan. Þetta er allt annar heimur að fara þangað og vera með þessum mönnum sem eru búnir að vera í þessu frá því þeir voru bara stubbar – þetta er bara Villta-Austrið þarna. Það er svakalegt að kynnast þessu, maður heyrir allskonar sögur frá þeim.“
Ertu þá aðallega í laxinum í stangveiðinni?
„Nei, meira í silungsveiði. Ég hef farið í laxveiði en hef heillast meira af sjóbirtingi og sjóbleikju, það er eitthvað við það sem mér finnst skemmtilegra. Ég vil halda mig langt frá þessum tvíhendum og grófa dóti, vil helst vera í nettri á með fimmu og pínulitlar flugur. Ég hef aldrei fundið mig við að standa í miklum breiðum með tvíhendu og þrykkja þessu einhverja fimmtíu metra.“
Hnýtirðu þínar flugur sjálfur?
„Ég hef aðeins gert það, fór á námskeið hjá Haugnum [Sigurður Héðinn, kallaður Siggi Haugur] og prófaði þetta aðeins. Þetta er ekta eitthvað sem maður gerir eftir tuttugu ár.“
Þannig að planið í sumar er bara þessir föstu túrar?
„Já og þetta vanalega stöff. Ég er staddur á Orkumótinu í Vestmannaeyjum núna – með Njarðvík,“ sagði Hafsteinn að lokum og lagði áherslu á Njarðvík.