Þessari góðmennsku mun ég aldrei gleyma
Þorgerður Guðmundsdóttir úr Grindavík er forfallinn golfari sem vinnur í launadeild Origo. Hún er gift Sigurði Jónssyni og eiga þau börnin Birtu Rós og Elvar Geir. Þorgerður er í stjórn golfklúbbs Grindavíkur og er alltaf með eitthvað á prjónunum enda er hún mikil prjónakona.
Hvernig var árið 2023 hjá þér og þinni fjölskyldu og hvað stendur upp úr?
Árið 2023 byrjaði bara nokkuð vel og við hjónin fórum í golfferð til Spánar um páskana sem var mjög skemmtileg. Mér tókst í fyrsta skiptið að spila átján holur á undir 100 höggum og það í meistaramótinu en sennilega munum við nú helst minnast þessa árs sem ársins sem við urðum flóttamenn þegar Grindavík var rýmd 10. nóvember síðastliðinn – og það er þá helst góðvild ókunnugra íslendinga sem hafa verið boðnir og búnir að aðstoða okkur. Þessari góðmennsku mun ég aldrei gleyma og seint geta fullþakkað.
Ert þú mikið jólabarn?
Ég er alls ekkert jólabarn en finnst samt notalegt að eiga góðar stundir á aðventunni í góðra vina hópi.
Hvenær er jólatréð yfirleitt sett upp á þínu heimili?
Lengi vel skreyttum við jólatréð alltaf á þorláksmessu en síðustu árin höfum við verið að setja það upp u.þ.b. tveimur vikum fyrir jól.
Hver eru fyrstu jólin sem þú manst eftir – áttu einhverjar skemmtilegar jólaminningar?
Ég hugsa að fyrstu jólin sem ég man eftir hafi verið þegar ég var u.þ.b. fjögurra ára. Fór á jólaball í Festi og var skíthrædd við jólasveinana. Svo hrædd að ég skreið undir borð og jólasveinninn á eftir mér undir borðið. Ég man ennþá öskrin og skelfinguna sem greip mig. Ég var alltaf hrifnari af jólakettinum og hafði miklar áhyggjur fyrstu jólin hennar Elvu systur að hún færi að gráta um jólanóttina og jólakötturinn kæmi og æti hana – en það slapp nú blessunarlega.
En skemmtilegar jólahefðir?
Skemmtilegsta jólahefðin er þorláksmessuboðið hjá tengdafjölskyldunni þar sem við hittumst í jólapeysum, borðum hangikjöt og svo hefur síðustu ár verið mjög skemmtilegt og metnaðarfullt kviss sem einn frændinn stýrir.
Hvenær klárar þú að kaupa jólagjafirnar?
Ég reyni yfirleitt að vera snemma í jólagjafakaupum og vil helst vera búin að kaupa allar gjafir áður en aðventan hefst – en það tekst þó ekki alltaf.
Hvað finnst þér vera ómissandi á jólunum?
Desertinn er algjörlega ómissandi. Þetta er frómaseftirréttur með kokteilávöxtum sem í föðurfjölskyldunni er aldrei kallaður annað er Desert.
Hver er eftirminnilegasta jólagjöfin sem þú hefur fengið?
Ætli eftirminnilegasta jólagjöfin hafi ekki verið dúkkan Bella sem ég fékk þriggja eða fjögurra ára og þótti mikið vænt um.
Er eitthvað á óskalistanum fyrir jólin í ár?
Einasta óskin sem ég á fyrir þessi jól er að geta haldið þau heima í húsinu mínu á Selsvöllunum.
Hvað verður í jólamatinn hjá þér á aðfangadagskvöld? Eru hefðir í mat?
Það verður hamborgarhryggur hjá okkur eins og undanfarin ár og svo er ég með heimalagaðan ís í eftirrétt og Siggi gerir gómsæta karamellusósu – og svo auðvitað Desertinn fyrir mig.
Hvað ætlar þú að gera í kringum jólahátíðina í ár?
Við hjónin verðum með börnunum okkar á aðfangadag og svo ætlum við að skella okkur í golfferð til Spánar 26. desember og dvelja þar í ellefu nætur og spila golf og njóta.