Þekkir orðið þúsundir andlita
Valli í Ungó um sjoppumenningu og sambandið við viðskiptavinina
Valgeir Magnússon hefur ásamt fjölskyldu sinni rekið sjoppuna Ungó við Hafnargötu síðustu 12 árin. Valli eins og hann er jafnan kallaður, var þá að vinna hjá fyrri eigendum þegar hann var 19 ára gamall. Þeir hugsuðu sér til hreyfings og því þótti Valla tilvalið að taka við rekstrinum. Það gerði hann með hjálp foreldra sinna sem voru eigendur á meðan hann sá um reksturinn. Þetta var árið 2004 en síðan þá hefur Ungó á Hafnargötu verið sannkallað fjölskyldu fyrirtæki þar sem allir hjálpast að.
Valli segir það hafa verið nokkuð erfitt að vera í rekstri svo ungur að árum. Hann kynntist konuni sinni, Þorgerði Sigurbjörnsdóttur, um sama leyti og þau eignuðust saman barn. Fyrir átti hún dóttur þannig að Valli var skyndilega tvítugur með fjölskyldu og fyrirtæki. Ári síðar kom svo þriðja barnið þannig að það var sannarlega nóg um að vera.
Væri ekki með hátt tímakaup
„Ég segi það alltaf að svona fyrirtæki gangi ekkert nema þessu sé sinnt með hjartanu. Það þýðir lítið fyrir mig að sofa út og láta einhvern annan sjá um þetta. Maður er ekkert á tímakaupi. Ef ég myndi reikna það út þá væri það ekki hátt,“ segir Valli og hlær. Valli og fjölskylda hans fluttust til Njarðvíkur frá Eskifirði þegar hann var ný fermdur. Hann hélt þá þegar með Njarðvík í körfuboltanum og var ekki lengi að koma sér inn í boltann þegar hann fluttist suður. „Ég fékk grænt blóð í æð frá þeim Einari Jóhanns og Örvari Kristjáns og varð mikill Njarðvíkingur strax,“ segir Valli og vísar þar til fyrstu þjálfara sinna í körfunni.
Stundum er það þannig að Valli þarf ekki einu sinni að tala við viðskiptavinina sem eru fastagestir hjá honum á Ungó. „Þá sér maður bílinn koma og maður fer bara og nær í sígarettupakkann og viðkomandi borgar. Það eru milljón svona sögur,“ segir Valli og brosir. Það er því óneitanlega sérstakt samband sem kaupmaðurinn á við viðskiptavini sjoppunnar. Fólki þykir svolítið vænt um sjoppurnar sínar þó svo að þeim fari fækkandi víða um land. Valli segir að í Reykjanesbæ sé sjoppumenningin frekar sterk miðað við annars staðar. „Stórmarkaðirnir eru að taka svolítið við hlutverki sjoppunnar. Áður var þetta þannig að þegar búðirnar lokuðu þá tóku sjoppurnar við á kvöldin og þær lifðu á því. Nú er þetta ekki þannig.“
Nú fyrir skömmu voru gerðar miklar breytingar á Ungó þar sem allt var tekið í gegn. Valli segir að þeim breytingum hafi verið tekið ákaflega vel. Úrvalið af ís og á grillinu var aukið til muna en Valli segir að ísinn sé stærsti parturinn af rekstrinum.
Allt í einu eru þau komin með bílpróf og mætt í lúguna
Eftir að hafa staðið vaktina núna í næstum 15 ár í lúgunni þá þekkir Valli orðið ansi marga og hefur séð marga viðskiptavini vaxa úr grasi. „Fyrir einhverjum árum man ég eftir því að það kom hingað fimm ára strákur með afa sínum í fyrsta skipti að kaupa nammi. Núna í vetur byrjaði þessi sami strákur að vinna hjá mér, það er nokkuð magnað.
„Það er svo skemmtilegt að sjá þessa krakka stækka. Allt í einu eru þau komin með bílpróf og mætt í lúguna hjá manni. Maður veit ekkert endilega hvað allir heita en maður þekkir orðið þúsundir andlita,“ segir verslunarmaðurinn sem er ávallt léttur í lundu. „Ég væri auðvitað ekki búinn að vera í þessu nema mér myndi finnast þetta skemmtilegt. Svona heilt yfir er þetta hrikalega skemmtilegt starf. Enginn dagur er í rauninni eins þrátt fyrir að þú sért að gera marga sömu hlutina.“
Þegar skólarnir eru búnir þá fullast sjoppurnar oftar en ekki af unglingum enda hafa þær löngum verið hálfgerðar félagsmiðstöðvar. Valli segir að krakkarnir séu hin bestu skinn og hegði sér vel. „Ef maður talar við þau af virðingu og eins og jafningja þá fær maður það til baka,“ segir sjoppueigandinn að lokum.