Þekkingarsetrið gefur út kynningarmyndband
Þekkingarsetrið í Sandgerði hefur gefið út kynningarmyndband um rannsóknastarfi og –aðstöðu setursins.
Þekkingarsetur Suðurnesja í Sandgerði hefur gefið út kynningarmyndband um rannsóknastarfi og –aðstöðu setursins. Að sögn Hönnu Maríu Kristjánsdóttur, forstöðumanns, gefur myndbandið góða innsýn í það starf sem unnið er á stoðstofnunum setursins. Það eru rannsóknastofa Þekkingarsetursins, Rannsóknasetur HÍ á Suðurnesjum og Náttúrustofa Suðvesturlands.
Myndbandið verður fyrst og fremst notað til að vekja athygli vísindamanna hjá erlendum rannsóknastofnunum og háskólum á þeirri einstöku rannsóknaaðstöðu sem er í boði hjá Þekkingarsetrinu og hefur í gegnum árin verið vel nýtt af bæði innlendum og erlendum stofnunum. Aðstaðan felur meðal annars í sér tandurhreinan borholusjó sem hægt er að stýra seltumagni og hitastigi á en það gefur fjölbreytta möguleika á víðtækum rannsóknum í sjávarlíffræði.
Styrkur fékkst úr Vaxtarsamningi Suðurnesja til erlends markaðsstarfs og kom hann sér vel við gerð myndbandsins, en Optimus Margmiðlun vann myndbandið fyrir Þekkingarsetrið.
Myndbandið má sjá hér: