Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Þegar piparkökur bakast
Marta Eiríksdóttir
Marta Eiríksdóttir skrifar
sunnudaginn 15. desember 2019 kl. 11:57

Þegar piparkökur bakast

Jólastemmning í Heiðarskóla

Þegar fullorðna fólkið segir að börn séu of spennt í desember, segjast þau sjálf vera stútfull af gleði og tilhlökkun vegna jólanna. Það gleymist stundum að svona vorum við sjálf einu sinni og ættum að leyfa börnunum að smita okkur með barnslegri eftirvæntingu sinni í desember.

Það var jólalegt um að litast í Heiðarskóla í upphafi desember en skólinn hefur það fyrir sið að skreyta skólann í lok nóvember svo allir megi njóta skreytinganna á aðventu. Þá er haldinn sérstakur dagur þar sem allir nemendur búa til skraut og skreyta kennslustofur sínar.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Ilminn af piparkökum lagði um ganga skólans þegar Víkurfréttir kíktu í heimsókn og áttu spjall við nokkra nemendur á unglingastigi og heimilisfræðikennara skólans um jólahald.

Andrés Kristinn Haraldsson:

Finnst gott að fara í jólafrí

„Mér finnst mjög gaman að baka og hlakka alltaf til að koma í heimilisfræði. Þetta er svona það skemmtilegasta við mánudagana í skólanum. Stemningin í desember er skemmtileg í skólanum okkar. Þá er jólasöngur á sal, piparkökur og heitt kakó, svo erum við skreyta stofurnar. Mér finnst jólin skemmtileg því þá er ég meira með foreldrum mínum og vinum þegar ég er í jólafríi frá fótbolta og tónlistarskólanum.“

Leiðinlegt að fá ekki lengur í skóinn

„Ég er hættur að fá í skóinn og fannst það leiðinlegt þegar það hætti. Ég held það finnist flestum leiðinlegt þegar þeir fá ekki lengur í skóinn. Það var voða spennandi að kíkja í gluggann og gá hvað var í skónum. Á aðfangadagsmorgun fæ ég gjöf að morgni í gluggann. Það eru ákveðnir kostir og gallar sem fylgja því að fá í skóinn eins og í fyrra því ég var svo spenntur að ég vaknaði klukkan sex um morguninn til að kíkja út í glugga og gat ekki sofnað aftur.“

Gaman að gefa gjafir

„Ég er alltaf glaður að fá gjafir. Mér finnst sjálfum mjög skemmtilegt að gefa foreldrum mínum og vini mínum. Ég vel þetta oftast sjálfur. Hápunktur ársins eru jólin. Ég ætla í kirkju á aðventu en ég er að fermast í vor og fer oftar í kirkju núna vegna þess og mér finnst það mjög notalegt. Ég er rosalega heppinn því ég á allt og þarf því ekkert. Mig langar kannski í föt en samveran með fjölskyldunni um jól er mikilvæg finnst mér. Annars held ég að foreldrar mínir viti meira hvað á að gefa mér í jólagjöf, þau hitta alltaf í mark.“

Ragna María Gísladóttir:

Jólaskreytidagurinn mjög skemmtilegur

„Það er gaman að baka en svo finnst mér líka gott að borða deigið. Mamma verður stundum pirruð ef ég borða deigið áður en það fer í ofninn. Mér finnst gaman að baka í heimilisfræði og það er ágætt að búa til mat. Stundum lærum við að búa til hollan mat sem er nauðsynlegt að læra. Ég byrjaði í þessum skóla í haust en var áður í Njarðvíkurskóla. Þar var desember mjög skemmtilegur, aðeins minna að læra og meira af því að búa til skraut og skreyta stofur. Jólahátíðin þar var rosa mikil hátíð og ég vona að það verði einnig hér. Jólaskreytidagurinn í lok nóvember var mjög skemmtilegur hér í Heiðarskóla. Ég er ný í þessum skóla. Mér líður vel og er búin að eignast mjög marga vini.“

Ég held ég fái ekki lengur í skóinn

„Ég fékk í skóinn í fyrra en ég held að það sé hætt, ég er orðin of stór. Mér finnst það smá leiðinlegt að fá ekki í skóinn lengur. Ég fæ alla vegana afmælisgjafir á Þorláksmessu en þá á ég afmæli og við höldum oftast afmælisveislu fyrir fjölskylduna, stundum koma líka vinir.

Ég myndi ekki vilja sleppa jólum, mér finnst gaman að bíða eftir þeim. Ég gef fjölskyldu og vinum jólagjafir en fæ oftast hjálp frá mömmu en mér finnst gaman að velja og gefa gjafir.

Sjálfri langar mig bara í föt en annars ekkert sérstakt. Við förum ekki í kirkju á jólum en gæti samt gerst núna því ég á að fermast í vor. Ég hlakka til jólanna og einnig að fermast.“

Jóel Arnarsson:

Litlu jólin í skólanum skemmtilegust

„Mér finnst mjög gaman að baka. Stundum baka ég kanilsnúða heima eða eitthvað annað og þá hjálpar mamma mér. Desember er mjög spennandi mánuður í skólanum. Litlu jólin eru skemmtilegust en þá fara allir nemendur í fín föt og fá pakka. Það er kósí og jólalegt með jólatónlist og svona. Það væri leiðinlegt ef það væru engin jól í skólanum.“

Vill fá extra flottar gjafir í skóinn í ár

„Það er fínt þegar það er enginn snjór í desember því þá get ég spilað fótbolta úti en ég elska fótbolta og er dálítið góður. Mig langar í Liverpool-treyju og FIFA 20 tölvuleik og þá geta fleiri spilað saman. Það er gaman. Ég læt skó í gluggann og vill fá extra flottar gjafir núna. Ég gef fjölskyldu minni jólagjafir, það er mjög skemmtilegt og að sjá hvað allir eru ánægðir með það sem ég gef þeim. Það er gaman að koma á óvart. Sælla er að gefa en þiggja.“

Mamma fékk geggjaða hugmynd

„Við förum í kirkju á aðfangadag klukkan sex, það er mjög hátíðlegt. Allir eru í sparifötunum. Mamma fékk geggjaða hugmynd fyrir þessi jól. Við ætlum að opna pakkana á aðfangadagskvöld í náttfötunum og stóru pakkana á jóladag en þá verður bröns.“

Ólöf Jónsdóttir, heimilisfræðikennari:

Skemmtileg jólastemning í desember

„Mér finnst mjög gaman að kenna í desember. Ég hef verið heimilisfræðikennari undanfarin tuttugu ár og finnst jólahald í skólanum í desember skemmtileg íslensk hefð. Krakkarnir hafa gaman af þessu og við fullorðnu líka. Það er gaman að breyta til og brjóta upp kennsluna, skreyta skólann og upplifa jólastemningu. Við erum með helgileik á litlu jólum, þá er dansað í kringum jólatréð þar sem elstu nemendur leiða þá yngstu, það hefur gengið vel. Allir taka þátt og syngja jólalögin. Það er jólasöngur á sal í desember þar sem íslensk jólalög eru sungin. Kakó og piparkökur á morgnana í desember þar sem tveir, þrír bekkir koma saman í einu. Allt skapar þetta góðan jólaanda í skólanum. Börn af öðrum trúarbrögðum vilja einnig taka þátt. Gaman að því.“

Allir vilja baka piparkökur

„Ég hef haft þann háttinn á að nemendur baka piparkökur fyrstu vikuna í desember og hef ég deigið klárt svo þau þurfi ekki að eyða tíma í að búa það til. Þá hafa þau meiri tíma til að dúlla við piparkökubaksturinn sjálfan. Krakkarnir bíða eftir þessu og eru glöð að fá að baka í upphafi desember, enda eru allskonar viðburðir hjá okkur í desember, til dæmis koma höfundar í heimsókn á sal og lesa fyrir börnin. Þau vilja öll fá að baka piparkökur og þegar við byrjum svona snemma þá verður enginn bekkur út undan vegna óvæntra viðburða.“

Sérstakur skreytidagur undirbýr aðventu

„Með því að hafa sérstakan skreytidag um mánaðamótin nóvember, desember, verður afslöppuð stemning hjá okkur í Heiðarskóla á aðventu. Nemendur leggja þá metnað sinn í að búa til skraut og skreyta stofurnar sínar enda vilja allir vinna keppnina sem fram fer á sama tíma. Keppnin setur ákveðið kapp í nemendur og fleiri leggja sig fram um að hafa jólalegt inni í stofunni sinni. Með því að skreyta snemma njótum við jólaskrautsins á aðventu í skólanum í stað þess að skreyta rétt fyrir jólafrí og skilja skólann svo eftir mannlausan og skreyttan yfir jólin. Það tekur líka ákveðið stress af krökkunum að hafa fyrirkomulagið svona finnst okkur. Nemendur virðast rólegri og einbeita sér betur að lærdómnum þegar skrautið er komið upp. Þá er einnig meiri sveigjanleiki og tími fyrir þá viðburði sem eru oft hjá okkur í desember.“